Aðeins um nýju fínu ríkisstjórnina, sem eilítið hefur verið til umfjöllunar fjölmiðla síðustu daga. Eins og skiljanlegt er, stjórnarmyndunin er söguleg um sumt og áhugi almennings á henni mikill. Og stuðningurinn við ríkisstjórnina feikimikill.

Nú hafa forystumenn ríkisstjórnarflokkanna verið í ótal viðtölum undanfarnar vikur og kvabbið gagnvart þeim á leið í og af fundum slíkt, að forsætisráðherrann nýbakaði var farinn að gera sér að leik að svara út í hött eða af gamni sínu, þegar blaða- og fréttamenn inntu hana eftir því sem Katrín ljóslega gat lítið rætt.

Sumt gat enginn vitað, annað var bundið trúnaði. Og það sem mátti segja loks þegar var búið að mynda stjórnina var frekar fyrirsjáanlegt. Jafnvel hefðbundin leiðindi. Sem þarf ekki að vera verra, það er einmitt þegar stjórnmálin fara að verða spennandi sem ótíndur almúginn þarf mest að vara sig!

***

Þess vegna var hressandi að sjá ríkisstjórnarleiðtogana þrjá í Vikunni hjá Gísla Marteini Baldurssyni á föstudagskvöld, þar sem þau voru bara létt, skemmtileg og afslöppuð. Leið greinilega vel í návist hvers annars, gerðu að gamni sínu og hlógu saman. Fyrir áhorfendur var það „gott sjónvarp“ eins og þar stendur, önnur hlið á stjórnmálafólkinu, en menn höfðu átt að venjast vikurnar á undan og vafalaust öðluðust margir aðra sýn á ráðherrana en áður, jafnvel innsýn, sem ekki sakar.

En það er eftir öðru, að einhverjum þótti nóg um gáskann hjá ráðherrunum, svo mjög að á félagsmiðlunum fúlu fóru ýmsir að gera því skóna að valdhafarnir hlytu nú barasta að hafa verið undir áhrifum, í glasi ef ekki glösum!

Gísli Marteinn mátti meira að segja svara spurningum um það hvort ráðherrarnir hafi verið fullir, líkt og hann hafi látið liðið blása í blöðrur í sminkinu. Hann þvertók fyrir það, líkt og forsætisráðherra, sem sagðist ekki hafa smakkað deigan dropa fyrir þáttinn.

Þetta var furðuleg dagskrá. Fjölmiðlarýnir horfði raunar ekki á þáttinn fyrr en eftir að hafa séð uppnám sumra á Facebook og hann gat ekki séð nokkur merki þess að einhver viðstaddra hafi smakkað vín. Jú, víst voru stjórnmálaleiðtogarnir kátari en menn hafa átt að venjast af grafalvarlegum viðtölum undanfarinna vikna, en fráleitt að tengja það áfengisneyslu.

Hitt má kannski vera meira aðfinnsluefni, að fólk hafi verið svo reiðubúið að hneykslast á því að einhver kynni að hafa dreypt á einhverju sterkara en grænu tei fyrir þáttinn. Hvað með það þó eitthvert þeirra hefði fengið sér eitthvað gott fyrir þáttinn? Þetta er gleðiþáttur á föstudagskvöldi og þarna var saman komið skemmtilegt fólk, sem vissulega hafði ýmsu að fagna.

Líkt og það gerði, en án þess að nokkur segði eitthvað óvarlegt eða óviðeigandi nokkrum til skaða eða skammar. Og kunni fólk að fara með vín er ekkert að því að það lyfti glasi eða tveimur. Jafnvel þó það sé að fara í kjaftaþátt.

Það er nóg um hneykslunina í þjóðfélaginu þó fólk sé ekki að búa sér til eitthvað til þess að hneykslast á.

***

Við þetta má svo auðvitað bæta að í árdaga Ríkissjónvarpsins var jafnan haft koníakstár til taks ef menn virtust vera mjög taugaveiklaðir í aðdraganda útsendingar.

Það mun vera hefð ættuð úr dönsku sjónvarpi, en það tíðkast enn víða í Evrópu að bjóða fólki upp á brjóstbirtu í „græna herberginu“. Það getur róað taugarnar og liðkað málbeinið. Sjaldnast með mjög alvarlegum afleiðingum.

***

Fleiri fréttir voru sagðar af ríkisstjórnarmynduninni. Stundin gerði þannig sérstaka frétt um það að Kristján Þór Júlíusson, nýskipaður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, hefði gegnt stöðu stjórnarformanns útgerðarfyrirtækisins Samherja, auk þess sem hann hefur unnið hjá fyrirtækinu samhliða þingmennsku sinni í þinghléum. Samherji væri „stærsti hagsmunaaðilinn í íslenskum sjávarútvegi, langstærsta útgerðarfélag landsins og eitt stærsta útgerðarfyrirtæki í Evrópu“.

Allt er þetta satt og rétt, en Stundin sló því ekki upp með sama hætti að þetta hefði verið fyrir 20 árum og að Kristján Þór hefði orðið stjórnarformaður sakir þess að hann var bæjarstjóri á Ísafirði, en þetta var um það leyti sem útgerð Guggunnar sameinaðist Samherja.

Og störf Kristjáns Þórs fyrir Samherja síðan? Jú, hann var sjómaður í þinghléum eftir að hann settist á Alþingi, fór í túra sumrin 2010 og 2012. Frá þessu var vissulega greint í frétt Stundarinnar, en tónninn var allur sá að hér væri ljóslega eitthvað mjög óeðlilegt á ferð, án þess að í nokkru væri sýnt fram á það. Má raunar frekar benda á hitt, að það sé gleðiefni að stjórnmálamenn glati ekki tengingu við atvinnulífið og sækist eftir slíkum íhlaupastörfum.

***

Í Ríkisútvarpinu var sagt frá tengslum annars ráðherra, Guðmundar Inga Guðbrandssonar, við samtökin Landvernd, en hann var framkvæmdastjóri þeirra þar til hann tók við ráðherradómi. Í framhaldinu barst yfirlýsing frá stjórn Landverndar, sem harmaði að „málsmetandi blaðamenn Ríkisútvarpsins“ hefðu kallað samtökin „hagsmunasamtök“, jafnvel „sérhagsmunasamtök“!!

Svo kom eitthvert suð um að Landvernd bæri einskis hagsmuni fyrir brjósti, nema náttúrlega hagsmuni náttúrunnar, sem væri miklu göfugra en t.d. hagsmunavarsla samtaka í atvinnulífi.

Eina fréttin í þessu er að Ríkisútvarpið og aðrir fjölmiðlar hafi nennt að greina frá þessari ótrúlegu viðkvæmni.

***

Mogginn sagði í gær frétt af gjaldþroti Fréttatímans, en kröfur í þrotabúið nema alls um 236 milljónum króna. Sem er frekar mikið fyrir lítið blað. Fyrirsögn Moggans var hins vegar sú að kröfur starfsmannanna næmu tugum milljóna. Sem vissulega er líka frétt, þær eru forgangskröfur, en fyrirsögnin er samt til þess fallin að gera fréttina minni en efni standa til. Eða um of fókuseruð á hagsmuni blaðamanna, sem fæstir vilja una því að vera sagðir sjálfhverfir.