*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Leiðari
25. desember 2020 12:03

Baráttan við náttúruna

Hamfarirnar á Seyðisfirði minna Íslendinga óþægilega á kraft náttúruaflanna – ekki í fyrsta sinn.

Haraldur Guðjónsson

Hamfarirnar á Seyðisfirði minna Íslendinga óþægilega á kraft náttúruaflanna – ekki í fyrsta sinn. Árið hófst með snjóflóðum á Flateyri og í Súgandafirði. Kraftaverki líkast var að enginn mannskaði hafi orðið. Árið hefur svo verið undirlagt baráttunni við farsóttina.

En á sama tíma hefur árið minnt okkur á að mannkynssagan snýst öðrum þræði um að ná tökum á náttúruöflunum og færa þau sér í nyt. Bólusetningar við farsóttinni eru hafnar innan við ári eftir að hennar varð fyrst vart. Það er auðvitað annað kraftaverk, en nú kraftaverk nútímavísindanna. Lyfjafyrirtæki og vísindamenn um heim allan hafa deilt upplýsingum jafnóðum um veiruna til að flýta fyrir. Þannig er útlit fyrir að plágunni verði svo gott sem útrýmt á næsta ári.

Hægur leikur er að bera saman stöðuna við spænsku veikina sem geisaði fyrir ríflega öld. Veikin felldi um 50 milljónir á heimsvísu og þar af um 500 manns hér á landi. Miðað við íbúafjölda samsvarar það hlutfallslega nærri tvö þúsund manns hér á landi í dag og 200 milljónum á heimsvísu. Tjónið af völdum kórónuveirunnar er ekki nándar nærri hið sama þótt það sé mikið.

Lífskjör Íslendinga hafa einnig tekið stakkaskiptum síðan þá, þegar þjóðin var ein fátækasta þjóð Evrópu. Grunnur þeirrar velsældar er beiting hugvits til að ná stjórn á gæðum náttúrunnar – fisknum í sjónum og fallvatnsins, jarðhitans. Nú síðast bætist ferðamennska við sem byggir að miklu á fegurð náttúrunnar.

Vegna hinna bættu lífskjara er fjármagn ekki lengur fyrirstaða í uppbyggingarstarfi líkt og því sem fram undan er á Seyðisfirði, sé viljinn til staðar, þó að peningar bæti aldrei nema brot af því tjóni sem orðið hefur.

Vísindin hafa að sama skapi gagnast við náttúruhamförum. Snjóflóðavarnargarðar björguðu miklu á Flateyri í byrjun ársins, þó að ljóst sé að bæta þurfi þá frekar. Færri voru heima en í venjulegu árferði á Seyðisfirði þar sem búið var að vara við aurskriðum. Jarðfræðingar geta varað við að eldgos kunni að vera framundan löngu áður en þau láta á sér kræla og áfram mætti telja.

Annað afrek Íslendinga sem fjalla mætti meira um og byggir ekki síður á vísindalegri þekkingu er hve mjög banaslysum á sjó hefur fækkað. Nú stefnir í að engin banaslys verði á sjó, fjórða árið í röð. Til samanburðar létust 382 í hafinu við Íslandsstrendur á árunum 1959-1973, eða að jafnaði um 27 á ári. Þar eiga margir hlut að máli. Íslendingar fara ekki lengur á haf út ef veðurfræðingar hafa varað við aftakaveðri, kvótakerfið hefur minnkað þörfina fyrir sjósókn í öllum veðrum, skipin eru betri og hið mikla forvarnastarf sem lagt hefur verið í hefur skilað miklu.

Þótt árið 2020 hafi verið erfitt lifum við engu að síður á hagfelldustu tímum mannkynssögunnar. Það skiptir vart máli á hvaða mælikvarða er horft – fækkun þeirra sem lifa við örbirgð, bætt læsi, auknir möguleikar til menntunar, margfalt minni ungbarnadauði eða bætt lífskjör.

En auðvitað þarf enn að gera betur. Það verður áfram verkefni mannkyns að halda áfram að útrýma þeim meinsemdum sem herja á manninn – sjúkdómum, hungri og vansæld. Það þýðir hins vegar ekki að horfa fram hjá því að þrátt fyrir erfitt ár er staðan margfalt betri en áður í sögunni.

Eitt þeirra verkefna sem takast þarf á við er á sviði loftslagsmála. Ein af stórkostlegustu framförum í mannkynssögunni var þegar manninum tókst að að nýta vökva sem var að mestu gagnslaus – olíuna. Verkefni mannsins nú er að leysa olíuna af hólmi með endurnýtanlegum orkugjöfum. Tækniframfarir hafa í för með sér að á síðustu árum hefur kostnaðurinn við að nýta vind- og sólarorku hrunið. Margt bendir til þess að rafknúin skip og flugvélar verði raunhæfur valkostur innan fárra ára. Manninum mun takast að vinna bug á loftslagsvánni sem og öðrum þeim raunum sem lagðar hafa verið á hann með því að beisla náttúruöflin.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.