Einkavæðing ríkisfyrirtækja mun halda áfram hér á landi sem annars staðar. Einkarekstrarform hefur þegar sannað yfirburði yfir ríkisrekstur. Hverjir kaupa verður að ráðast hverju sinni en dreifð eignaraðild er æskileg.

Benedikt Sveinsson, aðsend grein í Morgunblaðinu laugardaginn 13. janúar 1996.

Ein fyrsta einkavæðing ríkisfyrirtækis í nokkuð langri einkavæðingarlotu var salan á gömlu Síldarverksmiðjum ríkisins - SR mjöl hf. - árið 1994. Mikið tap hafði verið á rekstrinum og því var einboðið að selja félagið. Aðeins tveir hópar buðu í félagið og sá sem átti hærra tilboðið var dæmdur úr leik þar sem hann var ekki talinn geta staðið við tilboðið.

Tilefni greinar Benedikts Sveinssonar, sem vitnað er í hér að ofan, og um tíma var kallaður stjórnarformaður Íslands (hann tók þann titil af Halldóri H. Jónssyni), var gagnrýni á einkavæðinguna en hópur Benedikts keypti félagið.

* * *

Óðinn er í meginatriðum sammála þeim sjónarmiðum sem Benedikt setur fram um framkvæmd einkavæðingar, en finnst hann þó gleyma mikilvægasta atriðinu við einkavæðingu í greininni - þrátt fyrir að Benedikt sé ef til vill alveg sammála Óðni um það en hafi ekki látið þess getið.

Grundvallaratriði við sölu á ríkiseignum er að jafnræðis sé gætt við söluna. Til þess að jafnræðis sé gætt þarf aðferðin að vera yfir allan vafa hafin, gagnsæið óumdeilt og aðilar þurfa að hafa jafnan aðgang að upplýsingum sem geta haft áhrif á verð. Þetta er að mati Óðins mikilvægara en að ríkið fái hæsta verð, þó verðið skipti vissulega miklu máli.

* * *

Góð ákvörðun

Einkavæðing Íslandsbanka var líklega einhver besta ákvörðun sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir tók á síðasta kjörtímabili.

Í frumútboðinu voru seld 35% af hlutafé bankans og það tókst ágætlega. Óðinn skildi þó ekki hvers vegna svo margir erlendir bankar voru ráðgjafar í ferlinu og hversu hár sölukostnaðurinn var, en hann nam 1,7 milljörðum króna eða 3,1% af söluandvirðinu.

Vegna erlendu ráðgjafanna fengu erlendir fjárfestar stóran hlut í útboðinu, eða um þriðjung þess og um 11% hlutafjárins. Svo kom á daginn, sem reyndar flestir bjuggust við, að þeir erlendu voru fljótir að selja. Óðni finnst tilfinnanlega vanta rökstuðninginn fyrir þeim anga útboðsins.

Það sem var ánægjulegast við útboðið var að 24 þúsund einstaklingar og félög áttu nú hlut í almenningshlutafélaginu Íslandsbanka.

* * *

Lamandi hönd ríkisins

Við skulum ekki gleyma því að þegar eign hefur verið lengi í eigu ríkisins og stjórnað af lamandi hönd þess um langt skeið þá eru verulegar líkur á því að verðið reynist lægra en ella. Ekki er hægt að segja að eignin sé undirverðlög, því eignaraðild ríkisins veldur lægra verði. Allt tal tækifærissinnaðra stjórnmálamanna um raunvirði er orðagjálfur, sér í lagi þegar þeir líta til hækkunar á markaði eftir að hlutabréfasala ríkisins er um garð gengin. Aðeins það að bréfin fari á markað veldur verðhækkun, eins og menn ættu að þekkja af langri reynslu. Og þegar verið er að losa um ríkiseigur með þessum hætti reikna kaupendurnir vitaskuld með því að bréfin hækki, annars myndu þeir ekki kaupa. Þeir stjórnmálamenn, sem ekki skilja það, munu aldrei skilja neitt um gangverk markaðarins, lögmál auðs og eklu. Enda er þeim annar starfi fundinn.

Eftir sem áður þarf að vera jafnt gefið og frumforsenda að þeir sem taka þátt í slíku útboði standi jafnfætis. Málefnaleg rök geta verið fyrir því að til dæmis lífeyrissjóðir séu skertir minna í slíku útboði til að los á hluthafahópnum sé minna. Eins eru sterk rök fyrir því að fá kjölfestufjárfesta að slíkri eign sem hafa þekkingu á bankarekstri og geta betrumbætt reksturinn. Þau rök eiga ekki upp á pallborðið í dag.

* * *

Allur varinn er góður

Útboðið sem haldið var 22. mars um hluti í Íslandsbanka hefur verið harðlega gagnrýnt.

Óðinn hefði haldið að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra myndi fara sérstaklega varlega af pólitískum ástæðum við einkavæðingu Íslandsbanka. Sala á hlut Íslandsbanka er fyrsta einkavæðing ríkisins á heilu félagi síðan Landssíminn var seldur árið 2005. Hrunið var Sjálfstæðisflokknum erfitt og ekki síður Bjarna sjálfs vegna aðkomu hans að félögum á borð við N1, þó sú gagnrýni hafi ekki öll verið sanngjörn. Eins hlýtur Bjarni að muna vel eftir harðri gagnrýni á kaup föður hans og félaga á SR-mjöli þar sem Ríkisendurskoðun komst að þeirri niðurstöðu að hópur föður Bjarna hefði í raun ekki gert tilboð í félagið. Það var því sérstök ástæða til að fara varlega.

Enda virðist Bjarni hafa gætt sín, að minnsta kosti í fyrsta hluta útboðsins. Hann hefur sjálfur greint frá því að hafa beðið fjölskyldu sína ekki að taka þátt:

„Ég talaði við mitt fólk fyrir almenna útboðið á bankanum í fyrra og bað þau um að taka ekki þátt í því. Ég tók sjálfur ekki þátt þá eins og fram hefur komið og mæltist með því að aðrir í fjölskyldunni gerðu það líka. Það hvarflaði ekki að mér að það myndi gerast í þetta skiptið."

En ætti útboð sem þetta ekki að vera einmitt þannig úr garði gert í ljósi þess að markmiðið var dreift eignarhald að fjölskylda hans hefði einmitt mátt taka þátt? Eins og við munum voru allir nema erlendir aðilar og lífeyrissjóðir skornir niður í 1 milljón hver.

Allt annað mál væri ef það kæmi í ljós að fjölskyldan ætti erlent félag og hefði með þeim hætti getað keypt umfram þessa einu milljón og vafi væri á hvort ívilnunin væri vegna tengslanna við fjármálaráðherrann.

En gott og vel. Líklega er allur varinn góður.

* * *

Útboð númer tvö

Þetta seinna útboð, í lok mars, var með allt annarri aðferð en frumútboðið. Í minnisblaði Bankasýslu ríkisins til fjármálaráðherra frá 20. janúar 2022 og birt er á síðu stofnunarinnar segir um næstu skref:

Þar sem hlutir í bankanum eru skráðir á skipulegum markaði telur Bankasýsla ríkisins einsýnt að sala á frekari hlutum fari einnig fram með almennu útboði. Aftur á móti er ljóst vegna umfangs áætlaðrar sölu og stærðar útboða á hlutabréfamörkuðum að framkvæma þurfi sölu á svo stórum eignarhlut í mörgum skrefum.

Síðar í minnisblaðinu er fjallað um fjórar leiðir til sölu en um þá leið sem farin var - sölu með tilboðsfyrirkomulagi - segir:

Sala með tilboðsfyrirkomulagi fer fram með lokuðu útboði til hæfra fjárfesta. Er um að ræða lang algengustu aðferðina á evrópskum hlutabréfamarkaði sem ráðandi hluthafar nýta sér við sölu á hlutum í skráðum félögum.

Leiðin sem farin var því alveg skýr frá því í janúar. Hins vegar fer ekki saman að segja að áframhaldandi sala á hlutum fari fram með almennu útboði þegar fyrsta leiðin sem nefnd er í minnisblaðinu - og leiðin sem var farin - er lokað útboð.

Óðinn áttar sig á ekki á þessu misræmi í minnisblaðinu. Í sjálfu sér er það ekkert aðalatriði þó fróðlegt væri að fá á því skýringar.

Aðalatriðið er að það var óskynsamlegt af fjármálaráðherra og meirihluta Alþingis að selja hluti í lokuðu útboði nema að afar vel athuguðu máli.

* * *

Lausnarorðið er jafnræði

Mikilvægasta ástæðan er jafnræðið. Að allir geti tekið þátt. Vert er að hafa í huga að þeir sem verða almennt reiðastir yfir því að fá ekki að taka þátt eru einmitt þeir sem ætluðu aldrei að taka þátt.

Önnur mikilvæg ástæða er ef hætta er á að verðið í útboðinu verði lægra en gengi bankans á þeim útboðsdegi, líkt og alla jafna gerist í lokuðum útboðum sem þessum. Líkt og varð raunin.

Óðinn efast um að Bjarni Benediktsson hafi getað ímyndað sér að útkoman gæti verið sú sem hún varð. Að Jakob Valgeir og Benedikt faðir hans myndu kaupa hlutabréf í bankanum á rúmlega 4% afslætti og að allir og amma þeirra myndu tengja þetta við hrunið í huga sér.

Ekki verður reiðin minni ef kemur í ljós að þeir sem sáu um útboðið, ráðgjafarnir, hafi óhreint mjöl í pokahorninu. Að hugsanlega hafi starfsmenn ráðgjafanna, jafnvel sjálfs Íslandsbanka, sem gátu metið eftirspurnina í útboðinu sjálfir tekið þátt. Svo verður að segjast að það er afskaplega vafasamt þegar starfsmenn sem sýsla með eigur almennings, líkt og lífeyrissjóða og almenningshlutafélaga, kaupi á sama tíma í útboði sem þessu. Meginástæðan er sú að miklar líkur er á að þeir hafi meiri og betri upplýsingar en aðrir. Þetta mél í pokahorninu hlýtur fjármálaeftirlitið að skoða.

* * *

Hver ber ábyrgð?

Það er of snemmt að fella nokkra aðra dóma en þá að útboðið heppnaðist ekki vel.

Þó að stjórnmálamenn þurfi að kunna fótum sínum forráð þá er raunin sú að þeir setja trúnaðarmenn sína í vandasöm verkefni líkt og umsjón um einkavæðingu banka þó auðvitað sé pólitíska ábyrðin sé áfram þeirra.

Í tilfelli Bjarna Benediktssonar þá er trúnaðarmaðurinn Lárus H. Blöndal. Sá maður og hans ráðgjöf hefur kostað Sjálfstæðisflokkinn mikið fylgi, líkt og Óðinn fór rækilega yfir í pistli í Áramótablaði Viðskiptablaðsins í lok árs 2018 . Sá maður átti að sjá til þess að framkvæmdin væri óaðfinnanleg.

Ef hún var það ekki á hann að bera á því ábyrgð með því að víkja, rétt eins og hinir tveir stjórnarmennirnir í Bankasýslunni, þau Vilhjálmur Bjarnason og Margrét Kristmannsdóttir í Pfaff. Þögn þeirra er óvenjulega mikil en um leið jafn ánægjuleg.

* * *

Tilvitnuð orð Benedikts Sveinssonar standast tímans tönn utan hugsanlega fyrstu málsgreinarinnar. Það er nefnilega líklegt að mistökin sem gerð voru í öðrum hluta sölunnar á Íslandsbanka muni koma í veg fyrir frekari einkavæðingar ríkisfyrirtækja með tilheyrandi sóun og kostnaði fyrir íslenska skattgreiðendur.

Því er reiði þeirra mun meiri sem eru fylgjandi eru einkavæðingu, en þeirra sem leggja lag sitt við sósíalismann og eru henni andsnúnir.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .