*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Huginn og muninn
12. ágúst 2018 12:30

Barist um forsetastólinn

Hinn róttæki sósíalíski armur verkalýðshreyfingarinnar á eftir að sýna á spilin fyrir kosningarnar í ASÍ.

Gylfi Arnbjörnsson tilkynnti fyrr í sumar að hann myndi ekki gefa kost sér til áframhaldandi setu sem forseti ASÍ.
Haraldur Guðjónsson

Gustað hefur um verkalýðshreyfinguna síðustu ár. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur á síðustu misserum sætt mikilli gagnrýni og þá sérstaklega frá hinum sósíalíska armi hreyfingarinnar með þau Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, í broddi fylkingar.

Segja má að Gylfi hafi á endanum hrökklast undan því á miðstjórnarfundi 20. júní tilkynnti hann að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri á þingi ASÍ 24. október. Í viðtali í Viðskiptablaðinu skömmu eftir þetta sagði Gylfi: „Mér fannst margt af þeirri gagnrýni sem beinist að mér vera orðin full rætin. Það eru takmörk hversu lengi maður getur sætt sig við þetta, bæði gagnvart sjálfum sér og fjölskyldu.“ Í viðtalinu skaut Gylfi líka á Ragnar Þór: „Við Ragnar Þór höfum líka tekist á á þingum og hann hefur tvisvar orðið undir. Það kann að vera að það sé einhver kali vegna þess.“

Um leið og Gylfi tilkynnti að hann hygðist draga sig til baka gaf Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinasambands, um sitt framboð. Sverrir hefur verið einarður stuðningsmaður Gylfa.

Í grein í Austurglugganum fyrir rúmum fjórum árum tók hann til varna fyrir Gylfa og sagði óþolandi að foringjar innan Alþýðusambandsins sætu hljóðir hjá þegar nafn sambandsins og æra forsetans væri dregin niður í svaðið. Sagði Sverrir, sem með hléum hefur starfað á vettvangi ASÍ frá árinu 1985, aldrei hafa orðið vitni að jafn rætinni umræðu. Í greininni benti Sverrir á að þótt Gylfi hafi komið fram fyrir hönd ASÍ þá hafi hugmyndafræðin ekki verið hans eigin því stefnumótun ASÍ byggi á ályktunum sambandsþinga og innri vinnu aðildarfélags sambandsins.

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, tilkynnti í fyrradag að hún hygðist bjóða sig fram til forseta Alþýðusambands Íslands. Drífa Snædal er fyrrverandi varaþingmaður VG. Eftir 18 ár í flokknum sagði hún sig úr honum síðasta haust.

Drífa hefur fram að þessu ekki tilheyrt hinum róttæka sósíalíska armi verkalýðshreyfingarinnar en hún nýtur þó augljóslega stuðnings hans. Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokks Íslands, fer lofsamlega orðum um Drífu á Facebooksíðu flokksins. „Miðað við tóninn er þetta frambjóðandi þeirra sem vilja endurreisa verkalýðshreyfinguna, færa þetta baráttutæki úr höndum elítunnar sem náði félögunum undir sig og til almennings,“ skrifar Gunnar Smári.

Þrátt fyrir þessi fögru orð þá telja hrafnarnir ekki ólíklegt að sósíalistarnir muni tefla fram sínum frambjóðenda því það eru nokkrir egóistar í þeim hópi. Það gæti komið sér ágætlega fyrir Drífu. Hún verður þá kannski sáttaframbjóðandinn. Hvað sem öðru líður þá bíður ærið verkefni nýs forseta því tveimur mánuðum eftir þingið losna kjarasamningar á almennum markaði.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.