*

þriðjudagur, 13. apríl 2021
Óðinn
25. nóvember 2020 07:20

Barnalán ríkisstjórnarinnar

„Börnin eru oftar en ekki skynsamari en foreldrarnir og munu því spyrja erfiðra spurninga.“

epa

Það er gott að þekkja söguna. Hún á nefnilega til að endurtaka sig. Árið 1981 tók ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen lán hjá Hambros bankanum í Lundúnum. Lánið var greitt út í tvennu lagi árið 1981 og 1983, 15 milljónir punda í hvort sinn. Gjalddagi lánsins var 35 árum eftir að fyrri útgreiðsla þess fór fram og fékk lánið því viðurnefnið Barnalánið.

* * *

Friðrik Sophusson var fjármálaráðherra árið 1997 og þá kom Barnalánið við sögu í umræðum á Alþingi. Nánar tiltekið föstudaginn 18. apríl, en fjármálaráðherrann árið 1981 var Ragnar Arnalds og sat enn á þingi.

Vandinn sem við er að etja er nefnilega sá að við erum alltaf að borga niður lánið hans háttvirts þingmanns Ragnars Arnalds. Á hverju einasta ári þarf íslenska þjóðin að greiða niður lán sem tekið var í tíð Ragnars Arnalds og átti að borga stofninn eftir 20-30 ár. Ég man ekki hvenær það var, ég held að það sé 2020 sem á að greiða lánið endanlega, enda hafa menn kallað þetta barnalánið hans Ragnars því að hann vissi það og fleiri sem þá voru í ríkisstjórn að þeir mundu ekki borga þetta heldur börnin þeirra og kannski helst barnabörnin. En við höfum verið að borga af þessu vextina á hverju ári þó að stofninn borgist ekki þá. Og hverjir haldið þið að vextirnir séu? Haldið þið að þeir sé 5% eins og núna í dag? Þeir eru yfir 10%. Ætli það séu ekki 13% eða 14% vextir af þessum lánum sem að vísu þótti hagstætt þá þegar það var tekið á sínum tíma.

* * *

Útgjöldin tvöfölduð
Á ríkisstjórnarfundi í fyrradag samþykkti ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur frumvarp sem varðaði annars konar barnalán, en þó ekki. Ríkisstjórnin samþykkti að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði en annað foreldri skal minnst taka fimm mánuði.

Óðinn ætlar ekki að eyða mörgum orðum í frumvarpið sjálft. Fæðingarorlofslöggjöfin er byggð á misskilningi en í nafni jafnréttis. Því er væntanlega ekki langt að bíða að ríkisstjórnin leggi fram frumvarp um hver sér um uppvaskið á heimilinu, eldar matinn og þvær þvott.

Óðinn ætlar aðeins að tala um fjárhagslega hluta málsins. Í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu frá því á mánudag segir:

Alls er gert ráð fyrir að 19,1 milljarði króna verði varið í fæðingarorlof á árinu 2021 sem er tæplega tvöföldun á þeim fjármunum sem fóru til málaflokksins árið 2017, á verðlagi hvors árs.

Nú liggur fyrir að ríkissjóður mun stórauka skuldir sínar á þessu og næsta ári. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gæti samanlagður halli áranna 2020-2025 orðið um 900 milljarðar kr. og skuldir hins opinbera samkvæmt skuldareglu laga um opinber fjármál gætu vaxið úr 28% af vergri landsframleiðslu í árslok 2019 í 59% árið 2025.

Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að fyrst árið 2025 stöðvist skuldasöfnunin. Mikil óvissa er um hversu mikið ríkissjóður þarf að fjármagna af þessum gríðarlega hallarekstri og líklegt er að það verði stærstur hluti fjárhæðarinnar. Að auki er mikil hætta á því að hallinn verði meiri en spámennirnir í fjármálaráðuneytinu gera ráð fyrir í dag.

* * *

50 milljarðar…
Ef við færum aftur til ársins 2017 og myndum verja sömu fjárhæð í fæðingarorlof næstu fimm árin, líkt og þá, væri ríkissjóður betur settur sem nemur um 50 milljörðum króna. Það er 5,5% af áætluðum halla þessara ára.

Það eru verulegar líkur á því að síðustu 50 milljarðarnir af skuldasöfnuninni verði greiddir til baka eftir áratugi, eftir að búið verður að endurfjármagna þá nokkrum sinnum. Embættismennirnir í fjármálaráðuneytinu, að Bjarna Benediktssyni meðtöldum, munu nefnilega ekki gera sömu mistök og Ragnar Arnalds gerði sem fjármálaráðherra árið 1981 og taka lán til 35 ára. En afleiðingarnar verða nákvæmlega þær sömu.

* * *

…útgjaldafyllerí
Barnið sem fæðist á næsta ári verður þá komið á miðjan aldur þegar lánið verður greitt til baka. Börnin eru oftar en ekki skynsamari en foreldrarnir og munu því spyrja erfiðra spurninga. Þau munu án efa spyrja þeirrar spurningar hvers vegna skattar eru hærri árið 2056 en árið 2020 þegar ákveðið var að stórauka framlögin í fæðingarorlofið.

Þau hljóta einnig að spyrja foreldra sína hvort þeim hafi þótt þetta þess virði. Í þeim tilfellum þar sem andvökunætur voru fáar og allt gekk vel hvort það hafi virkilega verið þess virði að skuldsetja börnin sín til þess að pabbinn og mamman hafi eytt stórum hluta orlofsins í FIFA 21- 25, málað alla íbúðina, endurgert garðinn, eytt sex mánuðum á sólarströnd eða dvalið langdvölum á kaffihúsum í mömmuklúbbunum og feðraklúbbunum.

* * *

Óðinn myndi ekki vilja þurfa að svara þessum spurningum. En fjölmiðlarnir, ef Ríkisútvarpið verður þá ekki eitt orðið eftir, hljóta þá að fara á elliheimilin og heimsækja núverandi ráðherra ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Þeir myndu hugsanlega spyrja þá hvort skerðingin á þeirra eigin lífeyri hafi eitthvað með það að gera að það voru kosningar árið 2021 og ráðherrarnir, ásamt 63 alþingismönnum, hafi farið á útgjaldafyllerí með þeim afleiðingum að timburmennirnir entust í áratugi.

* * *

Draumur um vexti
Í gær lækkaði Seðlabankinn, eða hin svokallaða peningastefnunefnd, stýrivexti um 0,25%. Á sama tíma tilkynnti ríkisbankinn Landsbankinn um svipaða hækkun á vöxtum íbúðalána. Það er til marks um að stýrivaxtatólið sé hætt að virka.

Það skiptir máli fyrir ríkissjóð að vextir haldist lágir. Ríkissjóður mun án nokkurs vafa sækja ódýr lán erlendis til þess að mæta hluta af hallarekstrinum. En það er dýrt að skulda og enn dýrara ef maður er skuldugur. Það er fráleitt að vænta þess að ríkið muni geta fjármagnað sig á þeim kjörum sem nú bjóðast nema í skamman tíma.

* * *

Innlendir aðilar, ekki síst lífeyrissjóðir munu ekki lána ríkissjóði í formi kaupa á ríkispappírum á 0% raunvöxtum eða neikvæðum raunvöxtum. Það er bara útilokað og sést best á því hvernig skuldabréfamarkaðurinn hefur þróast að undanförnu.

* * *

14,5% voru það – illu heilli
Barnalánið hið fyrra, ekki snillinganna í FIFA eða Bali-faranna á árunum 2021-25 heldur ríkisstjórnar Gunnars, bar 14,5%  árlega vexti og var í sterlingspundum. Það er ósennilegt að við missum nýja Barnalánið í slíkar vaxtahæðir nema menn missi algjörlega tökin á ríkisfjármálunum. Það er hins vegar alls ekki ósennilegt að vextirnir verði svipaðir og árið 1997, um 5%.

Barnalán fólks á árunum 2021- 2025, og líklega enn lengur verður mikið ólán ef fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gengur eftir. Ekki fyrir foreldra, sem fara í mömmuklúbba og spila FIFA, heldur börnin sjálf og börn barnanna.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.