*

sunnudagur, 23. febrúar 2020
Týr
13. júní 2016 11:17

Barnaskapur Pírata

Píratar geta ekki talað um að hægri-vinstri hugtakið sé dautt í stjórnmálum á sama tíma og þeir boða harða vinstri stefnu.

Píratar vilja auka tekjur ríkissjóðs um allt að 100 milljarða á ári. Það hljómar afskaplega vel, þ.e. fyrir þá sem ráðstafa eignum úr ríkissjóði en þó ekki jafn spennandi fyrir þá sem þurfa að greiða slíkar upphæðir til ríkisins.

Týr kynnti sér þá stefnu sem fjallað er um í kosningakerfi Píratanna. Niðurstaða týs er að hér er um mjög barnalegar tillögur að ræða sem vonandi verða aldrei að veruleika.

Þannig má sem dæmi nefna að höfundar stefnunnar gefa sér að með því að hækka fjármagnstekjuskatt í 30% muni tekjur ríkisins aukast um 15 milljarða króna. Bara þetta litla dæmi er ágætis áminning um hugsunarvillu vinstri manna þegar kemur að skattheimtu. Vinstri menn gefa sér að ef þú greiðir 10 krónur af hverjum hundrað í skatt, sé nóg að hækka skattinn um eitt prósentustig til að fá 11 krónur o.s.frv. Þeir gleyma því þó að hegðun mannsins verður ekki reiknuð út í Excel skjali og það sama gildir um skattheimtu.

Týr ætlar ekki að fara nánar yfir tillögur Pírata, í bili. Flestar þeirra eru í raun gamaldags kredduhugmyndir vinstri flokka sem virðast líta á einstaklinga og fyrirtæki sem endalausa uppsprettu skattgreiðslna.

Það sem vekur miklu meiri athygli Týs er ítrekaður vilji Pírata til að stækka ríkisvaldið. Týr hefur áður vakið máls á því að Píratar eru í mikilli mótsögn við sjálfa sig þegar kemur að hlutverki ríkisins. Þannig tala Píratar ítrekað fyrir auknu frelsi, mikilvægi þess að minnka eftirlitshlutverk ríkisins og koma taumhaldi á það vald sem ríkið hefur yfir einstaklingum (atriði sem týr getur tekið undir). Á hinn bóginn líður varla sá dagur þar sem Píratar finna ríkisvaldinu ekki hlutverk til að hafa frekari afskipti af einstaklingnum.

Nærtækasta dæmið er hugmyndin um hin svokölluðu borgaralaun, sem Píratar hafa ítrekað viðrað, þar sem allir þegnar landsins fá ákveðna upphæð greidda frá ríkinu mánaðarlega óháð aðstöðu, tekjum o.s.frv. Að auka tekjur ríkisins um 100 milljarða og gefa öllum pening frá ríkinu eru barnalegar hugmyndir sem kunna þó að hljóma vel í eyrum þeirra sem ekki hafa kynnt sér hvaðan fjármagnið á að koma.  Píratar geta heldur ekki talað um að hægri-vinstri hugtakið sé dautt í stjórnmálum á sama tíma og þeir boða harða vinstri stefnu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.