*

fimmtudagur, 3. desember 2020
Leiðari
20. nóvember 2020 12:09

Barneignir og atvinnulífið

Viðskiptablaðið gagnrýnir skilyrtra skiptingu fæðingarorlofs. Milda má fjárhagslegt högg eftir fleiri leiðum en með opinberu fé.

Viðskiptablaðið telur farsælast að fjölskyldur fái frelsi til að ráðstafa orlofi í þágu barnsins.
epa

Frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof var samþykkt í ríkisstjórn á dögunum. Frumvarpið hefur verið bætt töluvert frá því að það var lagt fyrir til umsagnar, sem er vel, en enn er haldið fast í að skilyrða skiptingu orlofs jafnt milli foreldra.

Þótt markmið frumvarpsins um aukið jafnrétti kynjanna sé göfugt, og æskilegt sé að venjubinda feðraorlof til jafns við mæðraorlof, er Viðskiptablaðið efins um að skilyrt skipting orlofs milli foreldra þjóni því markmiði.

Í umsögn Viðskiptaráðs um frumvarpið er vísað í tölur Fæðingarorlofssjóðs sem sýna að nær allar mæður fullnýti rétt sinn óháð tekjum, en feðrum sem fullnýta rétt sinn fækkar aftur á móti með hækkandi tekjum. Því til viðbótar má benda á að við niðurskurð á greiðslum til foreldra eftir fjármálahrunið dró verulega úr orlofstöku feðra.

Það er því deginum ljósara að fjárhæð greiðsluþaks vegur mun þyngra í orlofstöku feðra en skilyrt skipting mun gera. Með frumvarpinu er lagt til að greiðsluþak hækki í 600 þúsund krónur, með 20% skerðingu á greiðslur yfir 300 þúsund krónum. Það er skref í rétta átt og  verður athyglisvert að sjá hver áhrif þessa verða á orlofstöku kynjanna.

Viðskiptablaðið telur einsýnt að orlofstaka feðra muni fyrir vikið aukast eitthvað, þá fyrst og fremst fyrir tilstilli hærra greiðsluþaks, en telur þó að hlutfall vannýttra orlofsdaga muni jafnframt aukast. Mæður munu eftir sem áður dreifa orlofi sínu yfir mun lengri tíma en ráð er gert fyrir, með tilheyrandi fjárhagslegu höggi fyrir fjölskyldurnar, og munur á orlofstöku kynjanna verður áfram mikill.

Eftir munu standa vannýtt réttindi vegna skilyrtrar skiptingar sem gagnast ekki feðrum, mæðrum, börnum eða jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Sannkallað allratap.

Viðskiptablaðið trúir því að farsælast sé að veita fjölskyldum frelsi til að ráðstafa orlofi eftir því sem barni er fyrir bestu hverju sinni. Aðstæður og þarfir fjölskyldna eru fjölbreyttar og ómögulegt að ætla að sníða þeim öllum sama þrönga stakkinn. Kerfið á að aðlaga sig að fólkinu, ekki fólkið að kerfinu.

Með því að liðka fyrir fjárhagi fjölskyldna í fæðingarorlofi svo að venjulegar fjölskyldur geti vel við unað, efast Viðskiptablaðið ekki um að þátttaka feðra komi af sjálfu sér, án þess að skilyrða þurfi skiptingu orlofs milli foreldra, enda er hér ekki efast um áhuga feðra almennt á samvistum við nýfædd börn sín.

Markmiði lagabreytingarinnar verður þannig ekki náð með skilyrtri skiptingu, heldur með því að milda tekjuhögg fjölskyldna af fæðingarorlofi. Sú hækkun sem boðuð er með frumvarpinu mun sannarlega þoka málum eitthvað áfram, en höggið verður áfram umtalsvert fyrir flestar fjölskyldur.

Hægt væri að fara skapandi leiðir til að milda fjárhagsleg áhrif fæðingarorlofs á fjölskyldur án þess að ganga á opinbert fé. Þannig væri hægt að heimila ráðstöfun séreignarsparnaðar í fæðingarorlofi, með eða án skattaívilnunar. Í sumum kjarasamningum er jafnframt gert ráð fyrir því að vinnuveitandi brúi bilið á milli greiðsluþaks og heildarlauna að einhverju marki. Þannig má eftir ýmsum leiðum skipta þeim sneiðum sem út af standa bróðurlega á milli hagaðila.

Hér er enda ekki um eintómt fjáraustur að ræða, líta mætti á þetta sem fjárfestingu öðru fremur. Hið opinbera hefur vissulega fjárfest í mörgu vitlausara en því að stuðla að fjölgun skattgreiðenda til framtíðar. Atvinnulífið þarf sömuleiðis nýjar kynslóðir til að snúa hjólum atvinnulífsins.

Samfélagið allt bráðvantar jafnframt að fjölga í þeim kynslóðum sem koma til með að bera lífeyris- og velferðarkerfi okkar á herðum sér, sem, ef fram fer sem horfir, verða sliguð af eldri borgurum framtíðarinnar. Eldri borgurum sem hætta að vinna um sjötugt en verða sífellt langlífari og eiga aðeins 1,7 börn á hverja konu að meðaltali.

Ljóst er að þjóðin verður ósjálfbær til framtíðar ef barnalánið tekur ekki við sér. Það er því allra hagur að efla hvata til barneigna. Í því felst m.a. að kerfið sé nægilega sveigjanlegt til að mæta fjölbreyttum þörfum fjölskyldna, að barneignir vegi ekki þyngra á starfsframa kvenna en karla og að fjölskyldur sjái sér fjárhagslega stætt að ráðast í barneignir í meiri mæli en gengur og gerist í dag.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.