*

sunnudagur, 25. október 2020
Huginn og muninn
19. september 2020 11:05

Benedikt og „suðvesturhornið“

Yfirlýsing fyrrverandi formanns Viðreisnar vekur upp fleiri spurningar en svör.

Benedikt Jóhannesson hætti sem formaður Viðreisnar árið 2017 og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tók við.
Haraldur Guðjónsson

Þó að enn sé rúmt ár til kosninga er kosningabaráttan formlega byrjuð. Benedikt Jóhannesson, stofnandi og fyrrum formaður Viðreisnar, sendi frá sér áhugaverða tilkynningu á mánudaginn, þar sem hann sagðist sækjast eftir oddvitasæti á framboðslista Viðreisnar „á suðvesturhorninu“.

 

Benedikt er sjóaður fjölmiðlamaður og vissi sem var að þetta myndi vekja athygli fjölmiðla, þar sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, núverandi formaður Viðreisnar, er oddviti flokksins í Suðvesturkjördæmi. En það er auðvitað munur á suðvesturhorninu og Suðvesturkjördæmi eða hvað. Benedikt svaraði spurningum Viðskiptablaðsins af pólitískri „snilld“ og sagðist ekki vilja segja hreint út hvað nákvæmlega felist í orðalaginu „á suðvesturhorninu“. Hann vildi ekki einu sinni útiloka Suðurkjördæmi. Hrafnarnir eiga reyndar mjög erfitt með skilgreina Höfn í Hornafirði á suðvesturhorninu jafnvel þó að Ásmundur Friðriksson telji aðeins vera skottúr úr borginni til Hafnar.

Þessi yfirlýsing Benedikts er um margt athyglisverð. Blundi það í formanninum fyrrverandi að fara gegn Þorgerði Katrínu mun það leiða til uppgjörs innan flokksins, sem á auðvitað í mikilli tilvistarkreppu í dag með inngöngu í ESB sem sitt helsta stefnumál. Þó að hrafnarnir myndu gjarnan vilja fylgjast með uppgjöri formannanna þá telja þeir nú líklegast að Benedikt sé að horfa á Reykjavíkurkjördæmin.

En hvers vegna orðaði hann þetta þá ekki skýrar en raun ber vitni? Jú, það er líklega vegna þess að í borginni notast Viðreisn við fléttulista og oddvitasætunum er skipt á milli kynjanna. Hanna Katrín Friðriksson er oddviti flokksins í Reykjavík suður og eftir að Þorsteinn Víglundsson fór aftur í steypuna er Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir oddvitinn í Reykjavík norður. Benedikt vissi ef til vill að það væri ekki pólitískt klókt að lýsa yfir framboði gegn konunum á þessum tímapunkti. Þar með er ekki öll sagan sögð því í Reykjavík mun Benedikt hitta fyrir Daða Már Kristófersson hagfræðiprófessor, sem þegar hefur sóst eftir varaformannsembætti Viðreisnar og stefnir því líklega á þingsæti í Reykjavíkurkjördæmunum.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.