Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur farið mikinn undanfarið og krafist aðgerða í þágu heimilanna með vísan til aðgerða í þágu heimila á meginlandi Evrópu, hverra stöðu hún virðist leggja að jöfnu stöðu íslenskra heimila, þrátt fyrir að staðan hér sé blessunarlega önnur og betri.

* * *

Þótt verðlagshækkanir séu vissulega áhyggjuefni þá njótum við góðs af eigin orkuauðlind hér á landi. Fjöldi íslenskra heimila nýtti sér fordæmalaust lágt vaxtastig til að endurfjármagna lánin sín með óverðtryggðum vöxtum.

Það var aldrei neitt launungarmál að vextirnir yrðu ekki svo lágir til lengdar. Seðlabankastjóri hvatti fólk berum orðum til að festa vexti í þann mund sem vaxtahækkunarferli var að hefjast og hafa heimilin því haft tækifæri til þess að verja sig sjálf gegn þeim hækkunum á vöxtum sem nú eiga sér stað, sem og þau mörg gerðu.

Aukin verðbólga kemur ekki nærri jafn illa við heimilin og hún gerði áður fyrr. Í fyrsta lagi er hlutdeild verðtryggðra lána í útlánasafni heimilanna mun lægri en áður þekktist. Þá hafa hækkanir á húsnæðisverði vegið á móti verðbótum sem leggjast á höfuðstól lánanna og loks má nefna að verðtryggðu lánin hafa mildað högg hagsveiflunnar þannig að það dreifist á lengri tíma, í stað þess að skila sér lóðrétt í mánaðarlega greiðslubyrði lántaka. Faðmur verðtryggingarinnar getur svo sannarlega verið hlýr á tímum sem þessum, líkt og rakið var í Viðskiptablaðinu fyrir skemmstu .

* * *

Nú, ef stjörnuþingmaðurinn er ekki í eintómum popúlisma og hefur raunverulegar áhyggjur af stöðu heimilanna, þá hefði hún tæpast þurft að vaða lækinn til að sækja vatnið í gagnrýni sinni. Henni væri nær að snúa sér að sínum eigin flokki sem hefur leitt borgarstjórn til margra ára og ber sem slíkur ríka ábyrgð á stöðunni á húsnæðismarkaði.

Borgarstjórn hefur hvorki lækkað útsvar né fasteignaskatta þrátt fyrir að tekjustofnarnir fitni eins og púkinn á fjósabitanum á kostnað heimilanna, ekki einu sinni til að liðka fyrir lífskjarasamningum. Samfylkingin virðist hafa meiri áhuga á að gagnrýna en að framkvæma og er sem slík best geymd í stjórnarandstöðu, hvort heldur sem er í ríki eða borg.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .