*

þriðjudagur, 21. janúar 2020
Leiðari
3. ágúst 2018 19:20

Betri og tíðari upplýsingagjöf

Eftir ófarir Icelandair má spyrja sig hvort uppfæra þurfi reglur um upplýsingagjöf skráðra fyrirtækja.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, á uppgjörsfundi.
Haraldur Guðjónsson

Kunnara er en frá þurfi að segja að afkoma Icelandair á 2. ársfjórðungi reyndist mun lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þrátt fyrir afkomuviðvörunina í fyrri viku átti félagið enn inni lækkun í Kauphöllinni. Enda engir smáaurar í húfi, því Icelandair tapaði 25,7 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði 2,7 milljarða króna, á fjórðungnum.

Stjórnendur félagsins höfðu margþættar skýringar á reiðum höndum fyrir þessari slæmu afkomu, sem hefði komið þeim fyllilega í opna skjöldu. Hækkun olíuverðs og hin óstöðuga íslenska króna voru þar efst á blaði, en þess utan var svo að segja allt tínt til. Allt nema auðvitað það að stjórnendur félagsins hefðu ekki reynst starfinu vaxnir. Ekki frekar en að nokkur impraði á því að þeir ætluðu eða yrðu látnir sæta ábyrgð.

En auðvitað hlyti það að koma sterklega til greina hjá öllum venjulegum félögum, því þarna skeikaði engum 3-5% milli áætlana og afkomu, nei þar á var þriðjungsmunur. Og ekki í fyrsta skipti sem svo stórfenglega bar á milli. Það eitt hlýtur að kalla á breytt vinnubrögð innan félagsins og ætti að kalla á afdrifaríkar breytingar í yfirstjórn.

Það má heita útilokað að innan Icelandair hafi enginn orðið nokkurs var fyrr en leið að fjórðungsuppgjöri, enda væri það sjálfstæður og hræðilegur áfellisdómur yfir stjórnendum þess, ekki aðeins hinum æðstu. En þó að hlutafjárverðið hafi vissulega sigið talsvert á fjórðungnum, þá urðu aðilar á markaði einskis vísari fyrr en afkomuviðvörunin kom. Það er fullseint séð.

Af afkomunni má ráða að stjórnendur Icelandair séu ekki alveg nógu glöggir, en markaðurinn á erfitt með að vita betur þegar áætlanir eru í hæstu hæðum og þær ekki opinberlega endurskoðaðar fyrr en í óefni er komið.

Það er rétt að huga að því hvort ekki megi bæta þar úr. Svarið liggur í augum uppi, það þarf betri og tíðari upplýsingagjöf.

Það eru meira en aldargamlar sögulegar ástæður fyrir því að reglubundin upplýsingagjöf skráðra fyrirtækja er með þeim hætti, sem tíðkast á velflestum mörkuðum heims. Ársskýrslur og fjórðungsuppgjör verða ekki tekin saman án fyrirhafnar, þar þarf að gera hluti upp aftur í tímann, huga að afskriftum og þess háttar. Það er ekki vandalaust í dag, en fyrir einni öld var það mun meira átak, fyrir nú utan umstangið við setningu, prófarkalestur og prentun. Það er af þeirri ástæðu sem uppgjörin voru ekki höfð tíðari, það þótti einfaldlega allt of íþyngjandi miðað við notin.

Nú er öldin önnur. Við lifum á upplýsingaöld og innan allra fyrirtækja leggja menn nokkuð á sig við að afla og nýta upplýsingar til þess að hafa góða yfirsýn yfir rekstur og fjárhag dag frá degi. Það á ekki síst við um skráð félög, sem bera töluverðar skyldur að lögum, reglum og viðskiptaskilmálum, og hafa á sínum snærum öflug upplýsingakerfi til þess að halda utan um rekstur og fjármuni. Það væri sjálfsagt til of mikils ætlast að fjölga eiginlegum uppgjörum, en á hinn bóginn mætti vel krefja skráð félög á markaði um tíða birtingu á lykiltölum úr rekstri; vikulega, jafnvel daglega.

Þannig fengju aðilar á markaði og allur almenningur tækifæri til þess að bregðast við breyttum aðstæðum og um leið væri meiri von til þess að þeir gætu veitt stjórnendum nauðsynlegt aðhald. Því við svo búið má ekki standa.

Stikkorð: Kauphöll Icelandair uppgjör
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.