Frá því að ég settist í stól ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála hefur verið unnið hörðum höndum að því í ráðuneytinu að móta stefnu fyrir málaflokka ráðuneytisins. Fjarskiptaáætlun, samgönguáætlun og byggðaáætlun til fimmtán ára hafa nú þegar verið samþykktar og fyrir Alþingi liggur stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarstjórnarstigsins og uppfærð samgönguáætlun er í samráðsgátt stjórnvalda þar sem óskað er eftir ábendingum og athugasemdum almennings. Þegar Alþingi hefur farið höndum um síðastnefndu áætlanirnar verður komin langtímasýn í öllum málaflokkum ráðuneytisins og það sem meira er þá tala þessar áætlanir saman – stefna í sömu átt.

Heildstæð samgönguáætlun er nú í samráðsgátt stjórnvalda þar sem almenningi og hagsmunaaðilum gefst kostur á að senda inn umsagnir og ábendingar. Lögð er fram metnaðarfull stefna til næstu fimmtán ára sem tekur til fjölmargra þátta. Samgönguáætlun er ein mikilvægasta stefnumótun samfélaga og byggða til næstu ára. Slík framtíðarsýn gefur atvinnulífinu svigrúm til þess að horfa fram á við í hinum ólíkum byggðum landsins, eflir þær og dregur úr óvissu um uppbyggingu. Að tímabilinu liðnu verður vegakerfið komið í viðunandi horf og samfélögin sterkari. Markmiðið er að Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu.

Greiðar samgöngur

Í samgönguáætlun er boðuð talsverð aukning í uppbyggingu samgönguinnviða. Núna er rétti tíminn til að fara í slíkt átak, efnahagslega. Framkvæmdum er flýtt og gert er ráð fyrir að fjármagn sem ekki er á samgönguáætlun komi í auknum mæli að fjármögnun einstakra framkvæmda, s.s. brúa og jarðganga. Samvinnuleið er góð leið til þess að nýta fjármuni sem best. Opinberir og einkaaðilar vinna saman að sameiginlegri lausn sem er líklegri til að verða hagkvæmari út frá forsendum kostnaðar- og ábatagreiningar. Reynsla annarra landa er að slíkar framkvæmdir standist frekar tímafresti og kostnaðaráætlanir.

Í nóvember verður lagt fram frumvarp sem styður við þessi áform. Utanaðkomandi aðilar fá tækifæri til að hafa áhrif á hönnun og framkvæmd, það fer eftir hversu langt undirbúningur framkvæmdarinnar er komin. Sumar eru á teikniborðinu, aðrar eru fullhannaðar. Heimilt verður að semja við utanaðkomandi aðila um fjármögnun framkvæmdanna, hönnun, uppbyggingu þeirra og veghald. Almennt er gert ráð fyrir að framkvæmdaraðilar fái greitt fyrir verkið með reiðugreiðslum eða mögulega geti með samningi innheimt gjald tímabundið vegna viðkomandi framkvæmda. Um er að ræða brú yfir Hornafjarðarfljót, brú yfir Ölfusá, jarðgöng um Reynisfjall/láglendisveg um Mýrdal, Axarveg, tvöföldun Hvalfjarðarganga og Sundabraut. Gert er ráð fyrir að Hornafjarðarfljót og Axarvegur verði fjármögnuð að hluta til með opinberu fjármagni, líkt og lagt er til í samgönguáætlun. Áformin eru byggð á tillögum starfshóps sem skilaði skýrslu í apríl 2019 þar sem lagt er til að samvinnuverkefni væri raunhæfur kostur í stórum vel skilgreindum nýframkvæmdum.

Sjálfbærar byggðir og sveitarfélög

Byggðasjónarmið vega þungt í strjálbyggðu landi og tvinnast saman við samgöngumál. Í áætluninni er það boðað að unnið verði að því að festa í sessi faglegan grunn ákvarðanatöku um uppbyggingu samgöngukerfisins í dreifbýli og þéttbýli þar sem kostnaður og ábati mismunandi leiða að markmiðum samgönguyfirvalda verði borinn saman. Samræma þarf fjárhagslega mælikvarða um arðsemi og félagslegar áherslur svo sem að landsbyggðin njóti öruggrar þjónustu og mannvirkja sem uppfylla lágmarksstaðla.

Fleiri gáttir inn í landið

Á 100 ára afmæli flugs á Íslandi er ekki seinna vænna en að stjórnvöld búi sér til stefnu í flugmálum. Drög að þeirri stefnu liggja nú fyrir. Þótt flugið hafi orðið fyrir höggi með gjaldþroti Wow air þá er ýmislegt að gerast í þeim geira. Má þar nefna Akureyri og þann kraft sem settur hefur verið í að opna aðra gátt inn í landið. Hugmyndir um flugstöð er spennandi kostur og hafa heimamenn með KEA í fararbroddi sýnt áhuga á samvinnu við ríkið og Isavia við byggingu hennar. Einhvers konar samvinnuverkefni ríkis og heimamanna gæti verið leið og þarf að vinna frekar að nánari útfærslu.

Mikilvæg framtíðarsýn

Langtíma áætlanir í málaflokkum ráðuneytisins eru ekki aðeins mikilvægar fyrir öryggi og lífsgæði íbúa heldur eru þær nauðsynlegar svo atvinnulífið geti litið til þeirra við uppbyggingu atvinnugreina um allt land. Við þekkjum öll mikilvægi ferðaþjónustunnar sem reiðir sig á góðar samgöngur en það á ekki síður við nýjar og vaxandi atvinnugreinar eins og fiskeldið. Bættar samgöngur stækka atvinnusvæði og styrkja byggðirnar.

Höfundur er ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála.