Undanfarnar vikur hefur Bitcoin náð nýjum hæðum gagnvart hverjum þjóðargjaldmiðlinum á fætur öðrum. Krónuvarðan var felld þann 31. október þegar rafmyntin rauf tveggja milljóna múrinn á tólf ára afmælisdeginum sínum. Í síðustu viku féll síðasta varðan í röðinni, þegar Bitcoin rauf 19.800 dala múrinn. Í dag stendur verðgildi Bitcoin í 27.000 dölum og virðist styrkurinn í verðþróuninni fara vaxandi.

Þekktir fjárfestar taka stöður

Þegar fyrri hæðum er náð rifja margir upp sveifluna sem átti sér stað í rafmyntaheimum árið 2017 til samanburðar. Sú sveifla var að stóru leyti drifin áfram af einstaklingum þar sem nánast ómögulegt var fyrir fagfjárfesta að taka stöður með skráðum verkfærum. Í dag er landslagið annað og leiðin er greið fyrir sjóði og aðra fagfjárfesta að kaupa í gegnum stærstu markaði heims eins og NYSE og CME. Af þeim sökum hefur Bitcoin hækkað jafnt og þétt þar sem margir stórir aðilar virðast liggja á kauphliðinni og mótstaðan er keypt upp jafnharðan.

Undanfarið hafa margir þekktir fjárfestar stigið fram til að opinbera sínar stöður, sem margar eru yfirleitt ekki mörg prósent af heildareignum, en eru þó verulegar þegar þær eru vigtaðar á móti eignaflokki sem er einungis 440 milljarðar dala. Paul Tudor Jones steig fyrstur fram af gamla skólanum í ár og svo talaði Stanley Druckenmiller nýlega um að hann ætti Bitcoin.

Skráð fyrirtæki binda lausafé í Bitcoin

Nú hafa tvö stórfyrirtæki á Fortune 500 listanum skipt út hluta af lausafénu sínu yfir í Bitcoin. Frægt er orðið að MicroStrategy, sem sérhæfir sig í þjónustum og hugbúnaði til tveggja áratuga, keypti Bitcoin fyrir 650 milljón dali og stefnir á að gefa út 400 milljóna dala skuldabréf til að kaupa meira. Einnig keypti fyrirtækið Square, undir stjórn Jack Dorsay, Bitcoin fyrir 50 milljónir dala.

Ástæðan fyrir kaupunum sem félögin gefa upp er sú að Bitcoin ver kaupmátt lausafjárins betur heldur en Bandaríkjadalurinn ásamt því að markaðir með Bitcoin eru óvenju djúpir miðað við stærð eignaflokksins og eru opnir allan sólarhringinn.

Þurrð á söluhliðinni

Samhliða aukinni eftirspurn veikist söluhliðin með hverjum deginum sem líður. Í maí á þessu ári átti sér stað svokölluð helmingun sem dró úr nýmyndun í Bitcoin um helming og er hún því um 1,7% á ársbasa næstu þrjú árin. Framleiðendur sem hafa því tryggt netið með námuvinnslu fá minna fyrir sinn snúð sem endar að lokum á kauphöllum. Einnig er vert að nefna að nokkur verkfæri eins og t.d. sjóðurinn Greyscale Bitcoin Trust og snjallbankinn Cash App eru hvort um sig að kaupa upp alla nýmyndunina og meira til.

Nú treður rafmyntin ótroðnar slóðir og allir sem hafa keypt sig inn eru í gróða. Því er engin tæknileg mótstaða eftir og gæti verðið því farið upp í áður óséðar hæðir. Ekki dregur það úr að magnið í umferð (e. float) á kauphöllum er í þriggja ára lágmarki sem bendir til þess að fjárfestar halda Bitcoin ennþá þétt að sér.

Raunvelta Bitcoin aldrei meiri

Stærstu rafmyntamarkaðir heims hafa ekki undan að selja fólki Bitcoin. Á mörkuðum hafa veltumet verið slegin dag eftir dag en þó virðast þeir ekki stöðvast sökum álags eins og gerðist nánast daglega árið 2017. Sömu sögu er að segja af innlendri veltu, en á íslensku kauphöllunum er mánaðarleg velta komin í nokkur hundruð milljónir á mánaðarbasa. Til marks um aukninguna, jókst velta á myntkaup.is um 819% milli mánaða í nóvember og desember.

Þróun næstu mánaða

Ljóst er að Bitcoin á mikið inni í sögulegu samhengi. Þegar sagan er skoðuð sést að keyrslan í eignaflokknum byrjar ekki af alvöru fyrr en nýjum hæðum er náð. Nú er billjón dala varðan komin í augsýn og það er fátt sem virðist geta stoppað jákvæða spíralinn sem umlykur orðræðuna. Vert er þó að nefna að Bitcoin hefur hækkað um 220% í ár og því er ekkert í hendi hvað frekari hækkun varðar þó svo að greinarhöfundur sé bjartsýnn á framhaldið.

Höfundur er framkvæmdastjóri Rafmyntaráðs Íslands.