*

laugardagur, 4. desember 2021
Óðinn
22. september 2020 07:03

Bjargvættir í FME og loftbrú í sólina

Því fer víðsfjarri að Loftbrú Framsóknarmanna verði það vitlausasta sem við munum sjá í aðdraganda næstu kosninga.

Einn stærsti brandari ársins var í boði fjármálaeftirlits Seðlabankans í tengslum við útboð Icelandair sem lýkur í dag.

Það dylst engum að kaup í Icelandair er áhættufjárfesting en hugsanleg kaup velta á mati á því hversu mikil áhætta er fólgin í viðskiptunum. Hluthafar og stjórn Icelandair mátu það svo að ekki væri vænlegt til árangurs að bjóða nýtt hlutafé á hærra verði en genginu 1, en lægra má útboðsverðið ekki fara samkvæmt hlutafélagalögum. Til að gera útboðsverðið meira aðlaðandi fyrir fjárfesta fylgja áskriftarréttindi með í kaupunum.

Í lögum um verðbréfaviðskipti er fjárfestum skipt í tvo flokka, almenna fjárfesta og fagfjárfesta. Fjármálaeftirlitið komst að þeirri niðurstöðu í aðdraganda útboðsins að vegna þess að Icelandair lætur áskriftarréttindi fylgja með þurfi almennir fjárfestar að gangast undir tilhlýðileikamat vegna áskriftarréttindanna sem teljast til flókinna fjármálagerninga.

                                                            ***

Flókinn fjármálagerningur

Óðinn efast ekki um það að mun einfaldara er fyrir venjulegt fólk, sem alla jafna fæst ekki við fjárfestingar, að skilja áskriftarréttindi heldur en hugsanlega áhættu í rekstri Icelandair. Þá á Óðinn við skilning á rekstraráætlunum, sjóðstreymi, áhrifum olíuverðs og olíuvarna, uppbyggingu leiðarkerfis, áhrifa kjarasamninga á rekstur félagsins, líkum á því að bóluefni finnist og áhrifum þess, svo eitthvað sé nefnt.

Nei. Hlutabréf eru ekki flóknir fjármálagerningar en listaukinn áskriftarréttindin er það. Hvar værum við án fjármálaeftirlitsins?

                                                            ***

Atkvæðaveiðar í lofti

Það eru kosningafjárlög í smíðum og Óðni sýnist þau muni verða skattgreiðendum dýr. Líklega rándýr.

Í síðustu viku kynnti Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra nýja leið Framsóknarflokksins til að fá fleiri atkvæði í næstu kosningum. Hún nefnist Loftbrú og ætlar að niðurgreiða nokkrar innanlandsflugferðir íbúa á landsbyggðinni. Ráðherrann sagði á blaðamannafundi að þetta væri byggðaraðgerð. Sjáum til.

Þegar Vestfjarðagöngin voru opnuð árið 1996 voru þau einnig kölluð byggðaraðgerð. Allir héldu að henni væri ætlað að styrkja byggð á Vestfjörðum. Það var misskilningur. Göngin auðvelduðu íbúum Vestfjarða að flytja frá Vestfjörðum til höfuðborgarsvæðisins. Íbúum hefur fækkað um 20% frá opnun ganganna.

Framsóknarmönnum til upplýsinga þá nefna þeir atkvæðaveiðar sínar sama heiti og aðgerð til að bjarga lífum tveggja milljóna íbúa Vestur-Berlínar frá júní 1948 til maí 1949. Sovétmenn höfðu þá lokað öllum flutningsleiðum inn í borgina. Ástæðan var fyrst og fremst Marshall aðstoðin. Loftbrúin í Berlín (Berliner Luftbrücke)  stóð yfir í ellefu mánuði, og flugu Bandaríkjamenn, Bretar og Frakkar til borgarinnar með matvæli, olíu og kol. Það er óviðkunnanlegt að nefna þessar atkvæðaveiðar í höfuðið á slíkri björgunaraðgerð.

                                                            ***

En allt er leyfilegt í stríði og kosningabaráttu. Óðni þykir því tillögur Framsóknarmanna litlar í sniðum og heimóttarlegar. Nú er kosningavetur að ganga í garð og hann verður kaldur í öllum hugsanlegum skilningi.

Efnahagur landsins mun halda áfram að versna eftir að Kári Stefánsson, kampavínskomminn hinn mesti, lokaði landinu. Skammdegið verður enn dimmara en áður og er það eins og að bæta gráu ofan á svart. Eina litadýrðin sem við munum sjá næstu mánuðina eru gular, appelsínugular og rauðar veðurviðvaranir frá ríkisveðurstofunni.

                                                            ***

Aðeins 22 milljarðar

En Óðinn ætlar að koma með tillögu sem gæti gert Framsóknarflokkinn aftur að stærsta stjórnmálaflokki landsins. Loftbrú til suðlægðra sólbjartra eyja!

Kostnaðurinn við verkefnið er alls ekki hár, bara svona eins og ein Harpa, og gæti leyst ótal vandamál. Verkefnið gæti skapað þúsundir starfa, lækkað geðlyfjakostnað ríkisins og útgjöld atvinnuleysistryggingasjóðs - en það er jú mun ódýrara að lifa sunnar á hnettinum.

Töluverðar líkur eru á því að ríkissjóður muni eiga um 40 milljarða kröfu beint og óbeint á Icelandair næsta sumar, annars vegar í formi lána frá ríkisbönkunum tveimur og hins vegar ef Icelandair dregur á lánalínuna með ríkisábyrgðinni. Því semur ríkið einfaldlega við „kerfislega mikilvæga" flugfélagið sitt og kemur í veg fyrir að kröfurnar tapast.

                                                            ***

Að flytja alla Íslendinga með flugi frá Íslandi til Kanaríeyja myndi kosta um 22 milljarða króna. Í Innanlands-Loftbrú Framsóknarflokksins er afslátturinn 40% og kostnaðurinn 600 milljónir króna. Auðvitað yrði ferðin til Kanarí ókeypis til að tryggja hámarksafrakstur af atkvæðaveiðunum. Ríkissjóður getur tekið þetta að láni eins og annað þessa dagana í ljósi þess að vextir ríkissjóðs eru nærri núllinu!

En svona aðgerð þarf sterkara nafn en Loftbrú. Þar sem Framsóknarmenn hafa stundum verið mistækir við val á auglýsingastofum fyrir kosningar þá vill Óðinn líka hjálpa við nafngiftina.

Með aðgerðinni væru Framsóknarmenn auðvitað að bjarga geðheilsu Íslendinga á þessum erfiðu tímum, líkt og Bandamenn björguðu lífum í Berlín forðum. Framsóknarbrúin, Framsóknarloftbrúin eða Operation Atkvæðakaup væru ágætis nöfn á áætluninni. Það er einnig nauðsynlegt að hafa þetta á frummálinu ef einhver skiydi gúggla snilldina. Fortschrittsbrücke, Fortschrittsluftbrücke eða Unternehmen Stimmen Kaufen.

Einhverjir gætu haldið að Loftbrú Framsóknarflokksins sé það vitlausasta sem við munum sjá í aðdraganda næstu kosninga. Því fer víðsfjarri.

 

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.