*

fimmtudagur, 6. maí 2021
Týr
13. september 2020 09:08

Bjarnargreiði ríkisins

Tekjur ríkisins af tryggingargjaldi eru miklu meiri en greiðsla vegna hlutabótaleiðar, samúð Týs er ekki með ríkissjóði.

Týr ætlar að Icelandair Group hafi greitt um 20 milljarða króna í tryggingargjald á liðnum áratug en kostnaður ríkisins vegna uppsagna starfsmanna félagsins var tæpir þrír milljarðar.
Haraldur Guðjónsson

Þó svo að kórónuveiran eigi sér líffræðilegar skýringar þá er kreppan sem nú gengur yfir að mestu manngerð. Í nafni lýðheilsu tóku stjórnvöld ákvörðun um að setja á ferðatakmarkanir og slökkva á hagkerfinu. Það gengur síðan hægt að ræsa hagkerfið aftur.

                                                          ***

Í byrjun mars mátti flestum stjórnendum fyrirtækja vera ljóst að framundan væri tími tekjutaps og samdráttar. Íslenska ríkisstjórnin lagði þó áherslu á að fyrirtæki héldu starfsfólki í vinnu og kynntu til leiks það sem kallað var hlutabótaleið. Þannig myndi ríkið taka að sér að greiða allt að 75% launa starfsmanna í tvo mánuði, í þeim tilgangi að verja störfin til lengri tíma. Síðar tók ríkið að sér að greiða uppsagnarfrest starfsmanna, sem var skiljanlegt því uppsagnirnar komu að mestu til vegna ákvarðana ríkisins. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hvöttu atvinnurekendur til að nýta sér þessar svokölluðu lausnir.

                                                          ***

Það eru eðlileg viðbrögð atvinnurekenda, þegar þeir horfa fram á algjört tekjuhrun, að segja upp starfsfólki. Það gerir enginn að gamni sínu, en það segir sig sjálft að fyrirtæki án innkomu getur ekki greitt laun. Svo kalt sem það hljómar hefði því verið einfaldara fyrir atvinnurekendur að segja upp starfsfólki um miðjan mars frekar en að nýta sér lausnir ríkisins. Þeir vissu ekki þá að ríkið ætti eftir að koma í bakið á þeim, birta nöfn fyrirtækjanna opinberlega, setja á arðgreiðslubann næstu ár og smána þá atvinnurekendur sem nýttu sér þessar leiðir með öðrum hætti.

                                                          ***

Tekjur ríkisins af tryggingagjaldi voru fyrir árið í ár um 65 milljarðar króna. Kostnaður ríkisins vegna hlutabótaleiðarinnar er um 18 milljarðar króna og um 8 milljarðar króna vegna hluta launakostnaðar í uppsagnarfresti. Samanlagt er þetta innan við þriðjungur af tekjum ríkisins vegna tryggingagjaldsins.

                                                          ***

Töluvert hefur verið fjallað um stuðning ríkisins við Icelandair Group vegna fyrrnefndra leiða, en kostnaður ríkisins vegna uppsagna starfsmanna samstæðunnar var tæpir þrír milljarðar króna. Týr myndi ætla að Icelandair Group hafi greitt um 20 milljarða króna í tryggingagjald á liðnum áratug. Það mætti með sama hætti skoða fleiri fyrirtæki, s.s. Bláa Lónið, Kynnisferðir og fleiri fyrirtæki sem ekki geta starfað vegna ákvarðana ríkisins. Greiðslur þeirra eru væntanlega eitthvað lægri en telja þó á hundruðum milljóna eða milljörðum.

                                                          ***

Samúð Týs er því ekki með ríkissjóði að svo stöddu.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.