Nú þegar alþingiskosningarnar eru loksins afstaðnar hér á landi, stjórnarmyndunarviðræður hafnar og stutt þangað til forsetakosningunum í Bandaríkjunum lýkur er von til þess að loksins færist fjölmiðlaumfjöllun í rólegri gír og leiðinlegur en þægilegur hversdagurinn fari að taka við.

Að mörgu leyti má segja að kosningaúrslit helgarinnar séu einmitt sigur þeirra sem eru orðnir leiðir á stöðugum upphlaupum og kröfum um endurræsingu, stjórnarskrárbreytingar og efasemdum um hvort Ísland sé hæft til að standa á eigin fótum sem þjóð meðal þjóða líkt og Bretland hefur loksins ákveðið að gera.

Kjósendur vilja fá hversdagsleikann sinn aftur, þar sem mætt er í vinnuna og félagsstarfið og kjaftað um nýjustu sjónvarpsseríurnar, fótboltann og smjattað aðeins á náunganum í staðinn fyrir að þurfa að hlusta á draumórakenndar væntingar kverúlanta sem telja að ef nú væri komið að þeim að ráða svolítið væri hægt að laga alla hluti, jafnvel svínbeygja lögmál markaðarins og náttúrunnar og mannlegt eðli.

Helsti lærdómur þessara kosninga og þeirrar listsköpunar sem Bjarni Benediktsson þarf nú að sýna af sér við að finna passlegt hráefni í margra laga stjórnarkökuna með sjö flokka á Alþingi hlýtur að vera að það er orðið of auðvelt að bjóða fram og fá í kjölfarið athygli þó að lítill sem enginn grundvöllur sé fyrir framboðunum eins og dæmin sanna.

Þó að ég hafi á þessum síðum áður nefnt dæmi um einhvers konar forkröfur líkt og víða tíðkast væri hægt að byrja á því að draga til baka þær breytingar sem gerðar hafa verið á síðustu árum sem ýtt hafa undir smáflokkavæðinguna.

Má þar nefna 5% regluna sem þvert á það sem margir halda er í raun hvati til smáframboða enda þyrftu flokkar annars, að því er mér sýnist, frá 7 til 12% atkvæða til að ná kjördæmakjörnum manni inn sem var gamla skilyrðið fyrir því að fá uppbótarþingmenn.

Annað væri afnám þess að framboðin séu öll á spena ríkisins, en núna dugir þeim að fá 2,5% fylgi til þess líkt og fjallað er um annars staðar á síðum blaðsins, í staðinn fyrir að þau þyrftu að treysta á fjárstuðning borgaralega samfélagsins í landinu.

Loks hlýtur eitthvað að vanta í kosningakerfi þar sem stór hluti frambjóðenda býr ekki í kjördæmunum sem þeir bjóða sig fram í eða hafa við þau lítil tengsl. Í því samhengi má nefna að fyrrverandi og núverandi forystumenn tveggja flokka buðu sig fram í því kjördæmi sem er fjærst höfuðborginni.

Fjölmiðlapistillinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 3. nóvember 2016. Nálgast má blaðið undir Tölublöð.