*

miðvikudagur, 21. apríl 2021
Birna Einarsdóttir
5. apríl 2021 13:43

Bjartari tímar framundan

Góðu heilli eru horfur á að það versta kunni að vera að baki í kórónukreppunni.

epa

Við lok þorra fyrir ári síðan var það að renna upp fyrir flestum að COVID-19 faraldurinn myndi valda umtalsverðri röskun á efnahagslífinu hér á landi sem og á heimsvísu. Líklega óraði þó fáa fyrir því hversu djúpstæð áhrifin yrðu og hversu mjög þau myndu lita daglegt líf okkar allra sem og efnahagslega umgjörð bæði heimila og fyrirtækja. Líklega hefðu einhverjir tekið hraustlegar til matar síns og drykkjar í þorrablótum ársins 2020 ef þeim hefði verið ljóst að slíkar trakteringar yrðu ekki í boði nema í heimahúsum ári síðar.

Kórónukreppan er ein krappasta efnahagsdýfa sem íslenskt hagkerfi hefur gengið í gegnum síðustu hálfa öldina. Góðu heilli hafði þó verið vel búið í haginn fyrir skellinn harða. Efnahagur heimila jafnt sem fyrirtækja var almennt sterkur og skuldastaða hins opinbera hafði batnað hratt árin á undan. Síðast en ekki síst höfðum við náð að snúa efnahag okkar gagnvart umheiminum frá því að vera stórskuldug yfir til þess að eignir umfram skuldir nema nú þriðjungi af landsframleiðslu. Fyrir smátt, opið hagkerfi með minnsta sjálfstæða gjaldmiðil á byggðu bóli skipti sú staða sköpum eins og komið hefur á daginn.

Lykilstaða ferðaþjónustunnar, sem atvinnuvegar sem skapar þriðjung gjaldeyristekna þjóðarbúsins og veitir tugum þúsunda vinnu, hefur í för með sér að hröð endurreisn hagkerfisins hvílir að stórum hluta á herðum hennar. Því var mikilvægt að verja fyrirtæki í greininni og tengdum greinum eins og kostur var þegar kórónukreppan skall á svo gjaldeyrisöflun hennar geti hafist að nýju um leið og færi gefst. Samþættar aðgerðir opinberra aðila og bankakerfisins til stuðnings geiranum hafa reynst dýrmætar. Frystingar lána, hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar, hinir ýmsu styrkir til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir miklum tekjumissi og fleiri aðgerðir hafa í stórum dráttum reynst drjúgar í þeirri viðleitni að auðvelda fyrirtækjunum að þreyja þorrann. Það er með sanni hægt að horfa með mikilli aðdáun hvernig íslenskir atvinnurekendur hafa tekist á við þessar áskoranir með jákvæðu viðhorfi og þrautseigju.

Þó staðan sé vissulega enn mjög krefjandi þá höfum við séð mikla fækkun á fyrirtækjum sem þörf hafa á greiðsluhléi. Um 650 fyrirtæki nýttu sér þau úrræði sem í boði voru en þeim úrræðum lauk í árslok 2020. Viðskiptavinir sem höfðu þörf á lengra greiðsluhléi eru að mestu fyrirtæki í ferðaþjónustu en slík lán eru um 6% af lánasafni bankans í lok síðasta árs.

Seðlabankinn hefur einnig lagt sín lóð á vogarskálarnar til þess að mýkja höggið af faraldrinum og sóttvarnaaðgerðum á íslenskan efnahag. Vextir bankans eru nú í sögulegu lágmarki og hefur það reynst heimilum og fyrirtækjum mun drýgri búbót en ella vegna þess hversu samband stýrivaxtanna við almenna vexti í hagkerfinu er orðið mun sterkara en áður var. Það er afar ánægjulegt að Seðlabankinn hafi haft svigrúm til og vilja til að lækka vextina svo myndarlega. Það hefur létt á greiðslubyrði fólks á mjög viðkvæmum tíma hjá mörgum. Samhliða mikilli aukningu atvinnuleysis og óöruggu atvinnuástandi hefur það gagnast mörgum einstaklingum en einnig rekstaraðilum.

Aukinn trúverðugleiki peningastefnu bankans, sem til að mynda birtist í stöðugum langtíma verðbólguvæntingum þrátt fyrir verðbólguskot undanfarið, eykur verulega svigrúm hans til slíkra aðgerða. Þá hefur Seðlabankinn einnig í vaxandi mæli horft til annarra aðgerða í því skyni að örva hagkerfið og greiða fyrir efnahagsbatanum. Þar má sér í lagi nefna inngrip hans á gjaldeyrismarkaði og fyrirhugaðrar peningaprentunar sem líklega mun að stærstum hluta felast í kaupum bankans á evrum í eigu ríkissjóðs í skiptum fyrir krónur.

Með þeirri aðgerð kemur bankinn í veg fyrir að fjárþörf ríkissjóðs vegna efnahagslegra mótvægisaðgerða þrýsti upp vaxtastiginu hér  Viðskiptavinir sem höfðu þörf á lengra greiðsluhléi eru að mestu fyrirtæki í ferðaþjónustu en slík lán eru um 6% af lánasafni bankans í lok síðasta árs. 63 á landi og eykur í raun peningamagn í umferð. Seðlabankinn hefur einnig þegar ráðist í aðrar aðgerðir sem auka svigrúm banka til stuðnings við heimili og fyrirtæki, svo sem lægri eiginfjárkvaðir og aukningu á lausafé í umferð.

Íslenska krónan hefur oft og tíðum reynst sjálfstæður sveifluvaldur eða aukið á efnahagssveiflur í hagkerfinu. Að þessu sinni virðist hins vegar sem krónan sé að þjóna hlutverki sínu sem hluti af aðlögunargangverki hagkerfisins allvel. Gengisfall krónunnar í fyrra var í kringum 10% að jafnaði. Það styrkir talsvert stöðu útflutningsgreina í alþjóðlegri samkeppni en hefur ekki orðið til að auka á óstöðugleika að valda verðbólguskoti af viðlíka stærðargráðu og oft sáust hér áður fyrr. Myndarlegur gjaldeyrisforði Seðlabankans, vilji bankans til að beita forðanum til þess að dempa skammtímasveiflur og traust erlend eignastaða á ekki hvað síst þátt í þessari jákvæðu þróun hvað krónuna varðar.

Góðu heilli eru horfur á að það versta kunni að vera að baki í kórónukreppunni. Slökun á sóttvarnaaðgerðum innanlands felur í sér að aukinn þróttur færist að nýju í ýmsar innlendar þjónustugreinar á komandi mánuðum. Þróttmikill íbúðamarkaður eykur líkur á að vöxtur hlaupi í íbúðabyggingar fyrr en óttast var þrátt fyrir tímabundna lægð í slíkum framkvæmdum næstu fjórðunga. Gangi opnun landamæra á vordögum og bólusetning í okkar nágrannalöndum líkt og áætlanir hljóða upp á mun hagur ferðaþjónustunnar vænkast jafnt og þétt þegar lengra líður á þetta ár.

Minnkandi óvissa og vaxandi væntingar hjá almenningi og stjórnendum fyrirtækja mun þá leiða til vaxandi umsvifa, fjölgunar starfa, minnkandi atvinnuleysis og allhraðrar fækkunar í hópi þeirra heimila sem eiga erfitt með að ná endum saman og þeirra fyrirtækja sem berjast í bökkum fjárhagslega. Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að hagvöxtur reynist ríflega 3% í ár og að stærstur hluti þess vaxtar muni eiga sér stað á seinni helmingi ársins.

Þrátt fyrir sársaukafullt áfall í lengri tíma en við vonuðum á fyrstu vikum faraldursins, auknar skuldir, heilsufarslegar afleiðingar COVID og að margir hafi því miður orðið fyrir verulegu efnahagslegu höggi berum við gæfu til þess að vita að þetta tekur enda og að við eigum hér á landi öflugar atvinnugreinar sem munu stuðla að vexti hagkerfisins á nýjan leik. Bankar leika þar mikilvægt hlutverk við að veita fé í góð verkefni og munu gera það enda hluti af því að vera hreyfiafl til góðra verka. Við sjáum því fram á bjartari tíma þó svo enn sé óvissa um nákvæmlega hvar þeir leynast í dagatalinu. 

Höfundur er bankastjóri Íslandsbanka. 

Greinin birtist í tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út í mars. Hægt er að skrá sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.