*

sunnudagur, 5. apríl 2020
Huginn og muninn
23. febrúar 2020 08:06

Björgólfur og barnabörnin

Björgólfur Jóhannsson hættir hjá Samherja í miðjun verkfalli Eflingar. Þegar hann hætti hjá Icelandair var það til að sinna barnabörnunum.

Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja.
Haraldur Guðjónsson

Björgólfur Jóhannsson sagði frá því í vikunni að hann væri að hætta sem forstjóri Samherja þar sem rannsókn lögmannsstofunnar Wikborg Rein á Namibíustarfseminni væri að ljúka. Samherji er að vísu ekki viss um að niðurstaðan verði birt opinberlega sem er ekki fyllilega í anda fyrri yfirlýsingar félagsins. Útlit er fyrir að Þorsteinn Már Baldvinsson taki aftur sæti sem forstjóri. Líklega metur fyrirtækið það sem svo að mesta hættan sé liðin hjá. Erlend viðskiptasambönd ekki lengur í hættu.

Þegar Björgólfur hætti sem forstjóri Icelandair árið 2018 sagðist hann ekki stefna á nýtt forstjórastarf því hann vildi verja meiri tíma með barnabörnunum og í golfi. Því er ekki að undra að starfslok Björgólfs séu sett í samhengi við verkfall félagsmanna Eflingar á leikskólum. Þarf Björgólfur að rýma til í dagatalinu til að sjá um barnabörnin?

Barnabörnin hafa áður orðið fréttamatur. Samsæriskenningasmiðir hoppuðu hæð sína í desember þegar það náðist mynd af Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, iðnaðar- og ferðamálaráðherra, og Björgólfi sitja á sama borði að bíða eftir flugi á Akureyrarflugvelli. Þau sóru af sér ásakanir um að hafa verið að véla um málefni Samherja. Þau hafi bara rætt um sumarfrí og blessuð börnin.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.