*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Huginn og muninn
1. september 2018 10:02

Björgólfur og Eimskip

Fyrrverandi forstjóri Icelandair hefur unnið náði með forstjóra Samherja sem nú á stóran hlut í Eimskip.

Björgólfur Jóhannsson.
Haraldur Guðjónsson

Brotthvarf Björgólfs Jóhannssonar úr forstjórastól Icelandair Group kom hröfnunum ekki mjög á óvart svona í ljósi þess að fyrirtækið hefur verið í miklum mótbyr undanfarið og á þessu ári í tvígang þurft að senda frá sér afkomuviðvörun. Þótt Björgólfur hafi sagt í Kastljósinu að nú hefði hann tíma til að sinna barnabörnunum og spila golf þá hafa hrafnarnir enga trú á því að maður með hans reynslu muni sitja aðgerðarlaus í langan tíma.

Skemmtilegasta kenningin er að hann muni brátt setjast í forstjórastólinn hjá Eimskip. Þar ræður Samherji ríkjum í dag eftir að hafa keypt fjórðungshlut í flutningafyrirtækinu í sumar. Björgólfur hefur unnið náið með Þorsteini Má Baldvinssyni í gegnum tíðina, bæði hjá Samherja og Síldarvinnslunni, sem að stórum hluta er í eigu Samherja.

Forstjóri Icelandair Group

Bogi Nils Bogason, fjármálastjóri Icelandair Group, tók sæti Björgólfs í forstjórastólnum. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að sú ráðstöfun sé tímabundin, sem þýðir þá að stjórnin er að leita að nýjum forstjóra.

Spennandi verður að fylgjast með því hver tekur sætið hjá þessu risafyrirtæki en hrafnarnir hafa þegar heyrt tvö nöfn nefnd í því sambandi. Það fyrra er Jón Björnsson, sem var forstjóri hjá ORF Líftækni fyrir nokkrum árum. Jón er sjóaður í íslensku viðskiptalífi. Um og eftir aldamótin síðustu var hann framkvæmdastjóri Hagkaupa og síðar forstjóri Haga. Áður en hann fór til ORF Líftækni var hann forstjóri Magasin du Nord í Kaupmannahöfn. Hitt nafnið er Birna Ósk Einarsdóttir. Birna Ósk kom til Icelandair frá Landsvirkjun í byrjun ársins en áður starfaði hún m.a. hjá Símanum. Á þeim fáu mánuðum sem Birna Ósk hefur verið hjá Icelandair hefur hún bæði gegnt stöðu framkvæmdastjóra stefnumótunar- og viðskiptaþróunarsviðs og stöðu framkvæmdastjóra þjónustuupplifunar. Hrafnarnir eru ekki í vafa um að fleiri nöfn eigi eftir að bætast í sarpinn.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is