Gísli kaupir bíl af Eiríki á eina milljón, en selur bílinn til Helga viku síðar á eina og hálfa milljón. Eðlilega lítur Eiríkur svo á að Gísli hafi hlunnfarið hann með einhverjum hætti. Mögulega er þetta rétt mat hjá Eiríki, en annar möguleiki er sá að Gísli hafi platað Helga með því að selja honum bílinn á of háu verði. Það eru ýmsar hliðar á þessum viðskiptum Bakkabræðra og sjálfsagt má hafa gaman af kjánaskap þeirra. Það er hins vegar ekki alveg jafn fyndið þegar við sjáum sama kjánaskap á Alþingi. Þessi dæmisaga um bílinn er ekki úr lausu lofti gripin, því hún er sambærileg þeirri sem Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, notaði þegar hann fann ástæðu til að tjá sig um sölu ríkisins á hlut sínum í Íslandsbanka.

* * *

Það að bera saman bíl og hlutabréf er hins vegar í besta falli kjánalegt, ef ekki heimskulegt. Virði bílsins rýrnar á hverjum degi en virði hlutabréfa byggist á fjölmörgum þáttum sem ekki eru alltaf fyrirsjáanlegir.

* * *

Ríkissjóður fékk, um miðjan júní í fyrra, í sinn hlut rúmlega 55 milljarða fyrir sölu 35% hlut í Íslandsbanka. Áætlað markaðsvirði bankans var þá um 158 milljarðar króna. Eftirstandandi hlutur ríkisins, 65%, var því metinn á um 103 milljarða. Frá því að lokið var við söluna og bankinn skráður á markað hefur gengi bréfanna hækkað um 51%. Sá sem keypti í bankanum fyrir eina milljón gæti selt hlut sinn í dag fyrir eina og hálfa. Ríkið hirðir 22% fjármagnstekjuskatt og hagnaðurinn er því um 390 þúsund krónur. Gengi bréfanna hefði líka getað leitað niður á við, líkt og þau gera þessa dagana.

* * *

„Ríkissjóður, sameign okkar allra hérna, [er] bókstaflega að gefa þessa eign til annarra,“ sagði Björn Leví í umræðum á þingi og býsnaðist yfir því að flestir teldu að útboðið hefði heppnast vel. Hann annaðhvort skilur ekki eða kýs að horfa framhjá því að markaðsvirði núverandi hluta ríkisins er metið á um 155 milljarða króna, sem er nokkurn veginn á pari við verðmæti bankans sl. sumar. Þessar tölulegu staðreyndir breyta kannski engu um afstöðu Björns Leví frekar en annarra vinstri manna.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .