Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata er einn mikilvægasti Íslendingur samtímans. Eins og allir þeir sem fylgjast með störfum þingsins vita þá er þekkingarleit Björns þrotlaus. En á meðan að almenningur lætur sér duga Netið til að sækja sér upplýsingar þá kýs Björn að herja á stjórnkerfi Íslands þegar kemur að því að fá svör við spurningum sínum.

Þannig hefur stjórnkerfið þurft að svara fjölbreyttum spurningum þingmannsins um brýn málefni á borð við að skera úr um hvað höfuðborg Íslands heitir, hver ávöxtunarkrafan á ríkisskuldabréfum er og hversu margir landsmenn hafi orðið fyrir hundsbiti síðustu fimm ár.

Er þetta íþrótt? Björn Leví vill komast að því.
Er þetta íþrótt? Björn Leví vill komast að því.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Samkvæmt vef Alþingis hefur Björn sett fram á sjötta tug fyrirspurna á yfirstandandi þingi. Eins og gefur að skilja hlýst af þessu töluvert álag á stjórnkerfið. Í ljósi þess hafa hrafnarnir í fórnfýsi sinni ákveðið að létta á álaginu og svara einni af nýjustu spurningu Björns. Í síðustu viku lagði Björn fram fyrirspurn handa Ásmundi Einari Daðasyni barnamálaráðherra um hvað væri íþrótt og hvað ekki. Auk þess spyr Björn um hver ákveðið það yfir höfuð. Fyrirspurnin er eftirfarandi:

  1. Hvaða starfsemi telst vera íþróttastarfsemi í skilningi íþróttalaga, nr. 64/1998?
  2. Hver ber ábyrgð á því að skilgreina hvaða starfsemi flokkast sem íþróttastarf eða íþróttastarfsemi samkvæmt framangreindum lögum?

Svar hrafnanna er eftirfarandi: Í fyrstu grein íþróttalaga kemur fram að íþróttir séu hvers konar líkamlega þjálfun er stefnir að því að auka líkamlegt og andlegt atgervi, heilbrigði og hreysti. Þá kemur fram í þriðju grein laganna að ráðherra beri ábyrgð á því að skilgreina hvað teljist til íþrótta og hvað ekki.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.