Mikilvægi hafsins fyrir Ísland  eru engin ný sannindi. Allt frá því að Ísland byggðist hefur hafið verið sú fjársjóðskista sem gert hefur byggð mögulega í okkar harðbýla landi á norðurhjara. Auðlindin hefur ætíð umkringt okkur en lykillinn að seinni tíma velmegun Íslendinga er þó fyrst  og fremst vegna þess  að okkur hefur smám saman tekist að skapa sífellt meiri nothæf verðmæti úr auðlindinni.

Lykillinn að þeirri þróun er að sjálfsögðu ekki að fleiri fiskar séu í sjónum í kringum okkur (svo er ekki), heldur sá að með stöðugri þróun á grundvelli hugvits, verkvits og viðskiptavits hefur íslenskum sjómönnum, athafna- og hugvitsfólki, tekist að skapa sífellt meiri verðmæti úr sömu auðlind.

Fyrr í vetur kom út á vegum Sjávarklasans ritið „Bak við yztu  sjónarrönd". Í því er gerð tilraun til þess að byrja að móta heildræna hugsun um hin fjölmörgu tækifæri sem Ísland hefur til þess að skapa ennþá meiri verðmæti úr sínu einstaka sambandi við auðlindir hafsins.

Á undanfarinni rúmri öld náði Íslandi ótrúlegum árangri í því að nýta fiskistofna við landið. Fyrsta byltingin fólst í sífellt öflugri skipakosti þannig að hægt væri að veiða meira og sækja á fjarlægari mið. Svo tóku við margir áratugir þar sem íslenskt (og erlent) hugvit lagði grunn að ýmiss konar umbótum í veiðarfærum og skipulagi veiða þannig að hægt væri að veiða á sífellt hagkvæmari átt.

Undir lok tuttugustu aldarinnar steig Ísland heillavænleg skref til þess að koma í veg fyrir að hinn bætti vélakostur leiddi til ofveiði og alvarlegs hruns í verðmætum stofnum. Með því að takmarka aðgang að auðlindinni með útgáfu veiðikvóta á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar var lagður grunnur að næstu umbyltingu í sjávarútvegi; sem snerist um sterkari viðskiptasambönd og jafnari afhendingu á afurðum inn á alþjóðlega markaði.

Á allra síðustu árum hafa svo sést aukin merki þess að innan íslensks sjávarútvegs sé enn ein umbylting í mótun. Sú bylting snýst ekki um að veiða meira, hagkvæmar eða sjá mörkuðum fyrir stöðugu framboði á hrávöru - heldur með því að nýta betur hliðarafurðir, þróa heilsu- og líftæknivörur og bæta markaðssetningu með áherslu á gæði og sérstöðu.

En verðmætin sem Íslendingar sækja í hafið eru vitaskuld ekki takmörkuð við veiðar, vinnslu og sölu á sjávarfangi. Á grundvelli íslensks hugvits í sjávarútvegi hafa orðið til hátæknifyrirtæki sem eru í forystu á alþjóðavísu. Þekktust þeirra eru vafalaust Hampiðjan og Marel en fjölmörg önnur tæknifyrirtæki hafa vaxið hratt á undanförnum árum. Ljóst er að víða um land er til staðar óviðjafnanlegt hugvit sem getur orðið grundvöllur að fleiri stórum alþjóðlegum nýsköpunarfyrirtækjum.

Það má jafnvel segja að á Íslandi getum við  einnig talið alls konar menningarleg verðmæti sem hluta af gjöfum hafsins, því óvíða er hafið jafnstór hluti af menningararfi og þjóðarsál eins og á Íslandi. Hendinguna „bak við yztu  sjónarrönd" þekkja allir Íslendingar úr ljóðinu fræga sem hefst á orðunum „Hafið, bláa hafið". Fjöldinn allur af öðrum sameiginlegum menningarlegum tilvísunum tengjast hafinu. Hvað hefur það með möguleika Íslands í efnahagslegu tilliti að gera? Kannski meira en virðist við fyrstu sýn.

Tækifæri Íslands í tengslum við haftengda starfsemi í framtíðinni má telja víst að tengist fyrst og fremst aukinni nýsköpun, bættri nýtingu, markaðssetningu og hugvitsamlegri vöruþróun. Með því að halda áfram að veiða mikið magn af fiski á hagkvæman hátt hefur Ísland ákveðinn  grundvöll fyrir velmegun, en til þess að tryggja áframhaldandi vöxt, með tilheyrandi tækifærum fyrir komandi kynslóðir Íslendinga, þarf að finna leiðir til þess að búa til miklu meiri verðmæti á grundvelli sömu náttúrugæða.

Hugmyndin um Bláa hagkerfið snýst um að Ísland nýti tækifærið til þess að vera alþjóðleg miðstöð efnahagslegrar, vísindalegrar og menningarlegrar nýsköpunar sem tengist hafinu. Þannig klasar geta gefið samfélögum tækifæri til þess að viðhalda lífsgæðum og tækifærum mun lengur en tilvist auðlindanna ein og sér.

Bláa hagkerfið grundvallast vissulega á getu okkar til að veiða og vinna hefðbundnar sjávarafurðir, en enginn getur vitað hvar mesta verðmætasköpun framtíðarinnar kann að liggja. Það sem við vitum hins vegar er að með því að hlúa að Bláa hagkerfinu og nýsköpun eigum við framúrskarandi möguleika til þess að vera áfram forystuþjóð í öllu því sem snýr að hafinu okkar bláa.

Þór Sigfússon er stjórnarformaður Sjávarklasans og Þórlindur Kjartansson er sjálfstætt starfandi.