*

laugardagur, 11. júlí 2020
Huginn og muninn
5. júní 2020 13:16

„Sagði ég ekki"

Óhætt er að segja að ummæli þingflokksformanns Samfylkingarinnar hafi fallið í grýttan jarðveg.

Oddný var fjármálaráðherra árið 2012.
Haraldur Guðjónsson

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, hefur verið óvenjufyrirferðarmikil í umræðunni síðustu daga. Á dögunum tókst henni að móðga stærstu atvinnugrein þjóðarinnar í færslu á Facebook.

„Ég hef frá því að vöxtur ferðaþjónustunnar hófst, gagnrýnt að ferðaþjónustunni hafi verið færðir sérstakir skattastyrkir sem hvati til vaxtar. Úr varð ósjálfbær vöxtur. Ég veit að núna er ekki rétti tíminn í hræðilegu atvinnuleysi og gjaldþrotum ferðaþjónustufyrirtækja, að segja ,,sagði ég ekki".  En það er samt næstum komið fram á varirnar,“ skrifaði Oddný. 

Þetta eru ansi merkileg ummæli. Hún var sem sagt næstum búin að segja „sagði ég ekki" en sagði samt „sagði ég ekki".

Óhætt er að segja að skrif Oddnýjar hafi fallið í grýttan jarðveg hjá forsvarsmönnum ferðaþjónustunnar. Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, svaraði og sagði Oddnýju hafa skellt blautri og skítugri tusku framan í atvinnugrein, sem nú væri á hnjánum vegna óviðráðanlegra orsaka. "Það var ferðaþjónustan, sem dró þjóðina upp úr djúpum, efnahagslegum öldudal eftirhrunsáranna, var aflgjafi hagvaxtar og atvinnusköpunar," skrifar Bjarnheiður.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.