Enn finnast þeir einföldu einstaklingar sem trúa því að Sólveig Anna Jónsdóttir og fylgihnettir hennar í Eflingu heyi sína baráttu af heilum hug, með hagsmuni launafólks að leiðarljósi.

Þegar rýnt er í stöðuna má ljóst vera að svo sé ekki. Allt frá því að Efling ákvað að semja ekki á sömu nótum og 90% launafólks á almennum vinnumarkaði, hefur legið fyrir að félagsmenn Eflingar myndu bera kostnað af krossför Sólveigar – og reikningur þeirra vex með hverjum deginum.

Ljúki verkföllum 28. febrúar með samningi þar sem þriggja mánaða afturvirkni tapast, ber hver Eflingarfélagi um 200.000 kr. tjón (tekið er mið af launatapi og greiðslum úr verkfallssjóðum í útreikningum).

Verði samið viku síðar eftir harðari verkföll og verkbönn, þar sem eins mánaðar afturvirkni tapast til viðbótar, nemur tap hvers um 400.000 kr. Jafnvel þótt samið verði fyrir mánaðamót með fullri afturvirkni, nemur tap hvers Eflingarfélaga um 20.000 kr., enda kostar það hvern um 4.000 kr. núvirt að fá afturvirkni 3 mánuðum síðar en aðrir.

Samtökum atvinnulífsins er ekki stætt að ganga lengra í samningum við Eflingu en aðra. Ef Efling hefði raunverulegan áhuga á kjarabótum hefði félagið gengið til samninga nú, tryggt afturvirkar kjarabætur og kaupmáttaraukningu við afar krefjandi aðstæður, haldið áfram að safna í verkfallssjóð og tekið slaginn þegar skammtímasamningurinn losnar.

Þá væru aðrir nýundirritaðir samningar ekki til fyrirstöðu og ef til vill möguleiki að ná einhverri samstöðu innan hreyfingarinnar um kröfur.

Óbilgirni Sólveigar hefur leitt til þess að verkbann hefur nú verið samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta. Aðgerð sem atvinnurekendur hafa forðast í lengstu lög að grípa til.

Þrátt fyrir að Sólveig Anna beri ein ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin, hefur hún gefið út að Efling hyggst ekki bæta félagsmönnum tekjumissinn. Svo umhugað er henni um láglaunafólk sitt.

Krossför Sólveigar snýst enda um eitthvað allt annað en kjarabætur. Hún snýst um að plægja akurinn fyrir þá kommúnísku byltingu sem Sólveigu dreymir, með víðtækum efnahagslegum hremmingum.

Þannig mætti líkja aðgerðum hennar við efnahagsleg hryðjuverk. Nú reynir á Samtök atvinnulífsins að setja ekki hættulegt fordæmi til framtíðar.

Týr er einn af reglulegum pistlum Viðskiptablaðsins, enþessi birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 23. febrúar.