*

fimmtudagur, 4. mars 2021
Týr
18. desember 2014 14:33

Blóðugur niðurskurður á RÚV

Í umræðunni um fjármál Ríkisútvarpsins eru framlög ríkisins alltaf borin saman við árið 2007, þegar framlögin voru einna mest.

Haraldur Guðjónsson

Umræðan um fjármál Ríkisútvarpsins er að venju á villigötum. Fámennur hópur þeirra sem eiga verulega persónulega hagsmuni af rekstri ríkishlutafélagsins, starfsmenn, þáttastjórnendur og listamenn, eru stóryrtir.

* * *

Öll umræða þessara aðila miðast við árið 2007. Týr vill benda á að frá árinu 2006 til 2008 hækkuðu ríkisútgjöld samkvæmt fjárlögum um 27%. Þessi útgjöld byggðu á góðæri sem Ríkisútvarpið hefur stöðugt bent á síðustu sjö árin að hafi verið bóla. Ríkisútvarpið naut þessarar bólu eins og aðrar ríkisstofnanir.

* * *

Eðlilegt er að skoða framlög til Ríkisútvarpsins yfir lengra tímabil. Framlögin hafa stórhækkað í gegnum tíðina en tölurnar sýna meðaltal hvers tímabils á ári og eru á verðlagi ársins 2013.

  • Árin 1970-1979 – 2.014 milljónir á ári að meðaltali 
  • Árin 1980-1989 – 2.554 milljónir á ári að meðaltali 
  • Árin 1990-1999 – 3.673 milljónir á ári að meðaltali 
  • Árin 2000-2009 – 4.086 milljónir á ári að meðaltali

* * *

Á árunum 2000-2003 voru framlög til Ríkisútvarpsins að meðaltali 3.741 milljón á ári. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varð menntamálaráðherra árið 2003. Framlög til Ríkisútvarpsins hækkuðu um 23,6% milli áranna 2003 og 2004.

* * *

Hvernig stendur á því að Ríkisútvarpið og starfsmenn þess miða framlög til Ríkisútvarpsins við árið 2007? Er það ekki vegna þess að það er hagstæðast fyrir ríkishlutafélagið og starfsmennina? Þarna bera eiginhagsmunirnir skynsemina og hlutleysið ofurliði.

* * *

Aftur og aftur er bent á að Ríkisútvarpið muni ekki geta sinnt lagaskyldum ef skorið verður niður. Í lögum um RÚV segir m.a.: „Fjölmiðlaefnið skal hið minnsta vera fréttir og fréttaskýringar, fræðsluþættir, íþróttaþættir, afþreying af ýmsum toga, lista- og menningarþættir og sérstakt efni fyrir börn og ungmenni.“ Lögin segja ekkert um hversu miklu skal verja til rekstursins.

* * *

Samkvæmt fjárlögum fyrir næsta ár á Ríkisútvarpið að fá 3.663 milljónir frá skattgreiðendum. Það er 10,4% lægra en var að meðaltali á góðærisárunum eða bóluárunum eins og Ríkisútvarpið kýs að kalla þau. Kallast þetta blóðugur niðurskurður?

* * *

Fyrir skömmu benti Týr á skrif Egils Helgasonar, þáttastjórnenda Ríkisútvarpsins, fyrir nokkrum árum þar sem hann sagði að réttast væri að breyta Ríkisútvarpinu í sjóð. Varla hefur hann skipt um skoðun. Varla ráða eiginhagsmunirnir einir för. Eða hvað?

Stikkorð: Týr Ríkisútvarpið
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.