Svo  skal böl bæta og benda á eitthvað annað sungu Megas og Tolli á sínum tíma. Sá söngur rifjaðist upp fyrir fjölmiðlarýni þegar Sigríður Hagalín Björnsdóttir þáttastjórnandi Silfursins á Ríkisútvarpinu jafnaði saman dauðsföll farandverkamanna í Katar annars vegar og við gerð Kárahnjúkavirkjunar hins vegar í síðasta þætti.

Spurði hún Halldór Benjamín Þorbergsson í framhaldinu hvort að Íslendingar væru nokkurri stöðu að gagnrýna að heimsmeistarakeppnin fari fram í Katar í ljósi þess fjölda sem lést við gerð virkjunarinnar. Sá ágæti maður þarf greinilega að svara fyrir margt þessa dagana.

***

Fjölmiðlar sem gefa sig út fyrir að vera hálf heilagir og engum háðir eiga í hættu að afhjúpa sig þegar þeim hleypur kapp í kinn. Þá sést skýr afstaða miðilsins í einstaka málum og hvar hann staðsetur sig á hinu pólitíska rófi.

Þannig birtist frétt í Kjarnanum í síðustu viku að meirihluti landsmanna styðji aðild Íslands að Evrópusambandinu. Fyrirsögn fréttarinnar er:  „Þriðja könnunin í röð sem sýnir meirihluta fyrir aðild að Evrópusambandinu.”

Gallinn við þessa framsetningu er sá að hún er beinlínis röng og byggir á óskhyggju fremur en niðurstöðum könnunarinnar sem vísað er til. Hún var gerð af Prósent.  Niðurstaða var að 42,8% þeirra sem tóku þátt styðja við aðild en 33% andvíg. Um 22% aðspurðra tóku ekki afstöðu. Fréttablaðið fjallaði einnig um könnunina án þess að slá ryki í augum lesenda sinna. Þar kemur fram að stuðningur við aðild hafi dalað um 5,5% miðað við sambærilega könnun sem gerð var í sumar. Á sama tíma hafi  andstaðan við aðild aukist lítillega á meðan óákveðnum fjölgar.

Með öðrum orðum var Fréttablaðið með staðreyndir málsins á hreinu. Því vakti skoðanadálkur sem Ólafur Arnarson blaðamaður birti helgarblaði Fréttablaðsins athygli. Þar tekur hann sama pól í hæðina og Kjarninn gerði og gerir þau tíðindi að 55% þeirra sem tóku afstöðu væri hlynnt aðild að það væri mikil tíðindi. Nú er ekki hægt að ganga út frá því sem vísu að hinir hinstu dagar séu runnir upp og þeir Íslendingar sem eru óákveðnir í Evrópumálum verði í hópi þeirra sem verða burthrifnir til himna. Í því ljósi er það frekar vafasamt að líta hreinlega fram hjá tilveru þeirra til að renna stoðir undir óskhyggju um að meirihluti Íslendinga vilji ganga í Evrópusambandið.

***

Frá Kjarnanum yfir í Mannlíf. Í liðinni viku voru sagðar fréttir af sögulegum sáttum athafnaskáldanna Róberts Wessmanns og Halldórs Kristmannssonar. Hinn síðarnefndi hafði borið fyrrverandi vin sinn og viðskiptafélaga þungum sökum og sá hafði uppi ýmsar gagnsakir og varnir. Sú snerra var öll fróðleg, ekki síst fyrir fjölmiðlaheiminn. Sem kunnugt er seildist Róbert til áhrifa í fjölmiðlum fyrir nokkrum árum, en þá var það einmitt Halldór sem sá um þann anga viðskiptastórveldis hans og meðölin misgóð.

Þegar það slettist upp á vinskapinn hjá þeim Róberti og Halldóri var það ekki síður á vettvangi fjölmiðla og almnannatengla en lögmanna þeirra, sem deilan átti sér stað, og aftur ýmsum meðölum beitt. Þannig lagði Róbert fé í nýjan (en skammlífan) vefmiðil Kristjóns Kormáks Guðjónssonar, en Halldór fékk Reyni Traustasyni ritstjóra Mannlífs digran sjóð til þess að skrifa bók um Róbert og sig. Af einskærri tilviljun tók Mannlíf upp á því um sama leyti að birta ýmsar fréttir og orðróma um Róbert við lítinn fögnuð hans. Samkvæmt uppgefinni ritstjórnarstefnu leggur Mannlíf „sérstaka áherslu á að varpa ljósi á og upplýsa um spillingu.“

Í framhaldinu tók Kristjón Kormákur það svo upp hjá sér að brjótast inn til Mannlífs, gramsa þar í ritstjórnarkerfinu og taka það úr umferð. Við tók nær óskiljanleg atburðarás, sem varð óskiljanlegust þegar Kristjón Kormákur kom nokkrum vikum síðar í viðtal hjá Reyni, játaði allt og iðraðist sáran, en Reynir veitti honum fyrirgefningu syndanna.

Nú hafa þeir Róbert og Halldór náð sáttum og þeirra á milli gengu víst einhverjir fjármunir af því tilefni. Hið merkilega var þó hitt, að samdægurs hurfu allar fréttir Mannlífs þar sem orði var hallað á Róbert. Fréttastofa Rúv. grennslaðist fyrir um hvarf fréttanna, en þó Reynir vildi ekki skýra það með beinum hætti gaf hann til kynna að ástæðan væru harðir úrskurðir siðanefndar Blaðamannafélagsins yfir sér vegna þeirra í maí og um síðustu mánaðamót.

Á sannleiksgildi þess verður lesandinn að leggja eigin dóm, en það blasir við að umræddir „blaðamenn“ hafa leiðst út í eitthvað allt annað en blaðamennsku og sökina á því bera ekki bara einhverjir fjármálafakírar í störukeppni. Vandinn er að það eru ekki aðeins viðkomandi miðlar sem óhreinkast af slíku, heldur er grafið undan öllum fjölmiðlum. Báðir eru þeir félagar í Blaðamannafélaginu eins og ekkert sé og Mannlíf þiggur Liljuna, fjölmiðlastyrki ríkisins. Svo eru menn hissa á veikri stöðu fjölmiðla.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 1. desember 2022.