*

miðvikudagur, 28. október 2020
Edda Hermannsdóttir
23. september 2014 13:38

Bókaflækjur Illuga

Hvað varð um að ríkisstjórnin sjálf væri staðföst og ákveðin með sitt fjárlagafrumvarp?

Edda Hermannsdóttir.
Haraldur Guðjónsson

Það kom lítið á óvart að Félag bókagerðarmanna skyldi mótmæla hækkun á virðisaukaskatti á bókum á dögunum. Þetta er hluti af einföldun ríkisstjórnarinnar á skattkerfinu og virðisaukaskattur fer úr 7 prósentum í 12. Bók sem kostar í dag 4.000 krónur með 7 prósenta virðisaukaskatti mun hækka í 4.187. Þetta er því hækkun upp á 187 krónur. Bókaútgáfan er vissulega mikilvæg og íslenskar bækur eru dýrar. Það skýrist þó að litlum hluta af virðisaukaskatti og verðhækkunin er í raun ekki veruleg. Það eru hlutir eins og lítill markaður og fjöldi útgefinna bóka sem skýra þetta háa verð á bókum. Því er hins vegar erfitt að breyta nema við náum að ættleiða alla þessa krúttlegu ferðamenn sem hingað koma. Það er því einfaldara að beina spjótum að virðisaukaskattinum sem enginn vill hækka og sjá fara út í verðlagið. Í leiðinni er kannski ágætt að skoða hækkunina á mat sem er okkur alveg jafn nauðsynlegur og íslensk tunga. Er ekki erfitt að ergja sig yfir bókaverði þegar matarreikningur heimilisins hækkar á öllum heimilum? Kannski er það vel leyfilegt þegar flatskjáir eru á sama tíma að lækka í verði.

Til að gæta sanngirnis „þá er þetta bara svona“. Flatskjáir eru í efra þrepi og matur og bækur í því neðra. Reynum að ergja okkur ekki yfir lækkuninni. Öll viljum við lægra verð og ekki er verra að einfalda skattkerfið. Það hljómar vel.

Orð Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra í Síðdegisútvarpinu komu því á óvart. Hann sagði í fyrsta lagi að það kæmi til greina að grípa til mótvægisaðgerða og undanskilja ákveðna bókaflokka eins og barnabækur og fræðirit. Það er ekki einföldun. Nú sitja rithöfundar heima með sveitt ennið til að skilgreina bækurnar sínar á réttan hátt. Í öðru lagi sagði Illugi að málið væri nú í höndum þingsins. Hvað varð um að ríkisstjórnin sjálf væri nokkuð staðföst og ákveðin með sitt eigið fjárlagafrumvarp þannig að aðrir gætu skilið aðgerðirnar og markmiðið með þeim?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.