Góð ávöxtun hlutabréfa undanfarið hefur farið framhjá fáum. Íslenski markaðurinn hefur hækkað um 35% frá ársbyrjun 2020 þrátt fyrir heimsfaraldur. Í Bandaríkjunum nemur hækkunin 22%.

Samhliða hefur áhugi almennings á fjárfestingum stóraukist. Kaup á hlutabréfum á netinu hafa margfaldast á síðustu mánuðum og hjá mörgum netmiðlurum er núna langur biðlisti eftir að opna reikning.

Hlutabréfaverð er nú hátt í sögulegu samhengi. Þekktasti mælikvarðinn til að meta markaðsvirði hlutabréfa er Shiller V/H hlutfallið, sem ber verð saman við árlegan meðalhagnað síðastliðinn áratug. Á þeim mælikvarða er hlutabréfaverð á Íslandi svipað og árið 2007. Þá eru bandarísk bréf dýrari en nokkru sinni fyrr ef frá er talin tæknibólan árið 2001 – og við vitum hvernig hvort tveggja endaði.

Þetta vekur grun um að eignabóla sé að myndast. Sögulega eru hraðar hækkanir, há verð og skyndilega aukinn áhugi almennings á fjárfestingum klassísk merki um það.

Hlutabréf eru hins vegar ekki keypt í tómarúmi. Fjárfestar bera saman ólíka valkosti, og samkeppnin við hlutabréf er einstaklega veik vegna lágs vaxtastigs. Raunávöxtun ríkisvíxla í vestrænum ríkjum er neikvæð um 1-3% í dag.

Ef Shiller-hlutfallinu er snúið við fæst mat á ávöxtun hlutabréfa. Samkvæmt því nemur hún 2% á Íslandi, 3% í Bandaríkjunum og 7% í Bretlandi. Áhættuþóknun hlutabréfaeigenda umfram ríkisvíxla nemur því um 3-10%, sem er um eða yfir sögulegu meðtali. Íslenski markaðurinn er á lægri enda bilsins, en heilt yfir bendir þetta ekki til eignabólu.

Óvissan um hlutabréfaverð liggur í vaxtastiginu. Ef vextir hækka á ný er líklegt að hlutabréfaverð falli. En ef vextir haldast lágir eru hækkanir síðustu missera rökrétt afleiðing þess. Fjárfestar virðast því telja að lágir vextir séu komnir til að vera.

Höfundur er hagfræðingur.