*

föstudagur, 18. júní 2021
Óðinn
5. febrúar 2020 08:15

Bölmóður spámaður & álskallinn

Orkubúskapur þjóðarinnar og framlag til að leysa gróðurhúsavandann situr undir Íslandsmeti í rangfærslum.

Birgir Ísl. Gunnarsson

Óðinn undrast það reglulega hve sumir þeir, sem búa á þessari litlu afskekktu eyju, eru iðnir við að tala hagsmuni fólksins í landinu niður. Veitir eyjarskeggjum þó varla af uppörvun, nú eða bara áminningu á staðreyndum málsins: að landið er fagurt og frítt, þjóðin hugmyndarík og harðdugleg, og að hún hefur náð einstæðum árangri við að þrífast, eflast og að auðga mannlífið, þrátt fyrir fásinnið, erfið búsetuskilyrði og óblíð náttúruöfl.

Það hefur ekki síst gerst með aukinni en ábyrgri nýtingu náttúrugæða landsins, sem vísindi og verkþekking hafa á innan við einni og hálfri öld fært Íslendinga úr hópi fátækustu þjóða í röð þeirra þar sem almenn velmegun er mest í heimi.

                                                      ***

Hugsanlega er það þó einmitt þessi farsæld og velmegun, sem blæs bölmóði í suma sem virðast öllu hafa gleymt um fimbulvetur og farsóttir fyrri alda, hungur og hamfarir. Finnst sjálfsagt að hagsældin sé fyrirhafnarlaus, en að það ískri of hátt í hjólum atvinnulífsins. Eða að minnsta kosti í hjólum atvinnulífs annarra og finnst því rétt að tala það allt niður, með réttu, röngu og öngvu.

                                                      ***

Einmitt til þess var Bölmóður spámaður tekinn tali í Silfrinu á dögunum, en þar var kominn Tómas Guðbjartsson læknir, Lækna-Tómas sjálfur. Sá sparaði ekki stóru orðin og sagði að álverið í Straumsvík væri í líknandi meðferð, eins og þar væri dauðvona sjúklingur, en það líkingamál af eigin starfsvettvangi notaði hann vafalaust til þess að enginn efaðist nú um að hann vissi um hvað hann væri að tala.

                                                      ***

Óðinn telur að betur færi á því að Tómas notaði hina faglegu frasa á spítalanum, innan um plastbarkana og platbarkana, frekar en í þjóðmálaumræðunni. Þarna í Silfrinu setti Tómas Íslandsmet í innanhúsrangfærslum og bætti svo um betur í pistli á Facebook.

Rangfærslur Tómasar

Ástæðan fyrir vandræðum Álversins í Straumsvík er ekki sú að „stærð álversins sé óhagkvæm og verksmiðjan nánast staðsett í mannabyggð," eins og Tómas hélt fram, heldur sakir þess að álverð er ákaflega lágt vegna meira framboðs en eftirspurnar á áli. Það má meðal annars rekja til gríðarlegrar uppbyggingar í áliðnaði í Kína á undanförnum árum, en síðustu mánuði og misseri þó enn frekar vegna viðskiptastríðs Kína og Bandaríkjanna.

                                                      ***

Álskallinn

Reyndar er þetta engin nýlunda. Ragnar heitinn Halldórsson, sem um langa hríð var landsþekktur en ákaflega snögghærður forstjóri álversins í Straumsvík og fékk fyrir viðurnefnið álskalli. Um þetta sagði hann á sínum tíma í viðtali við Frjálsa verslun (systurblað Viðskiptablaðsins), að reksturinn hefði gengið upp og niður allan rekstrartímann:

Vegna góðrar starfsþjálfunar starfsmanna var furðu lítið um byrjunarerfiðleika i framleiðslunni en óneitanlega hefur gengið á ýmsu í 16 ára rekstri fyrirtækisins. Það sem gerði okkur hvað erfiðast fyrir var sölutregða á markaðnum ásamt verðsveiflum árin 1971, 1975 og nú síðast 1983 og orkuskömmtun var samfleytt í fjögur ár 1979-1982, sem leiddi til samdráttar í framleiðslu

                                                      ***

Það hefði verið gagnlegt fyrir Tómas að hlusta á fyrirlestur Martins Jacksson hjá ráðgjafafyrirtækinu CRU, sem hann flutti á morgunverðarfundi Landsvirkjunar í þar síðustu viku, en þar var farið yfir undirstöðuatriði málsins á snarpan og auðskiljanlegan hátt.

                                                      ***

Álverin um allan hinn vestræna heim hafa verið í vandræðum síðustu ár, aðallega vegna þess að Kínverjar hafa ruðst af miklu afli til á markaðinn. Árið 2000 voru Kínverjar með 10% markaðshlutdeild á áli í heiminum en voru með 56% í fyrra!

                                                      ***

87% með kolum

Íslendingar framleiða ál með endurnýjanlegri og hreinni orku, mestmegnis frá vatnsaflsvirkjunum. Kínverjar framleiða 87% af áli sínu með kolabruna. Það felst því gríðarlegur tvískinnungur í því að segjast vera umhverfisverndarsinni og vera á móti álverum á Íslandi. Kallar raunar annaðhvort á einbeittan brotavilja eða fádæma vanþekkingu. Því þó að það kunni að vera að hægt að halda smitsjúkdómum í skefjum með landamæravörðum þá virðir mengunin engin landamæri.

                                                      ***

Tómas sagði í pistli sínum að ef álverið hætti starfsemi gæti „Landsvirkjun beitt sér fyrir sölu á raforku til annarrar og uppbyggilegri starfsemi, t.d. grænmetisbænda og flýtt fyrir rafvæðingu bíla- og skipaflotans".

                                                      ***

En hvort ætli skili meiri árangri í minnkun útblásturs, að rafvæða íslenskan bílaflota eða nota endurnýjanlega orkugjafa við framleiðslu áls í heiminum? Svarið er auðvitað augljóst hverjum þeim sem hugsar um það eitt augnablik.

                                                      ***

Þá er hins vegar litið hjá því að forsendur þessarar uppástungu Tómasar standast illa. Ef Íslendingar rafvæddu gervallan bílaflotann á morgun dygði ein túrbína í Kárahnúkavirkjun til þess að knýja hann allan. Rafvæðing skipaflotans yrði ekki meira átak, en hún þyrfti þó að líkindum að bíða framfara í rafhlöðutækni.

                                                      ***

Mergurinn málsins er sá að hér er ekki um annaðhvort eða að ræða. Ekkert er því til fyrirstöðu að raforka verði nýtt í auknum mæli innanlands til þess að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi, líka til þess að rækta banana fyrir lýðveldið, en að áfram leggi Íslendingar sitt af mörkum til þess að framleiða ál með umhverfisvænum hætti og minnki fyrir vikið losun gróðurhúsalofttegunda.

                                                      ***

Hagsmunir Íslands

Óðinn er sammála Tómasi Guðbjartssyni um eitt. Það er að við eigum ekki að afhenda orkuna okkar á lágu verði til erlendra stórfyrirtækja. Við eigum að hagnast á henni sjálf.

                                                      ***

Stjórnendur Landsvirkjunar skilja þetta þetta mikilvæga hlutverk sitt. Nú síðast kom það fram í ágætu viðtali við Hörð Arnarsson í Morgunblaðinu í síðustu viku. Þar segir Hörður m.a. um hlutverk fyrirtækisins:

Landsvirkjun er eitt fyrirtæki með fáa starfsmenn en því er falið að gæta einna mestu hagsmuna Íslands. Verkefnið felst í að semja við alþjóðleg stórfyrirtæki um verðið á afurðum sem við fáum úr einni verðmætustu auðlind landsins.

                                                      ***

Óðinn er nú ekki sannfærður um að Landsvirkjun sé endilega með fáa starfsmenn, svona á íslenskan mælikvarða, og er viss um að þar sé fitulag eins og hjá öðrum ríkisfyrirtækjum og stofnunum, sem rétt er að huga að því að minnka nú á nýju ári. En hagsmunirnir eru gríðarlegir og þeirra verðum við að gæta.

                                                      ***

Það hefur í raun verið aumkunarvert að sjá hversu langt sumir hafa gengið í að reka erindi þessara erlendu aðila. Óðinn ætlar að sinni ekki að rekja hverjir eru persónur og leikendur í því leikriti.

                                                      ***

En það er áhugavert að eftir að Landsvirkjun fór að spyrna fastar við þessum hagmunaaðilum, þá leið ekki á löngu uns forstjórar allra álfyrirtækjanna á Íslandi létu af störfum. Var það vegna þess að það hafði engin áhrif lengur á stjórnmálamennina og Landsvirkjun að greiða þessum mönnum ofurlaun? Óðinn telur það nærtækustu skýringuna. Í dag hafa enda verksmiðjustjórarnir tekið við stjórninni í tveimur af álverunum þremur.

                                                      ***

Hörður var spurður út í hagsmunagæsluna af blaðamanni Morgunblaðsins:

Þau eru að semja um orkuverð til starfsemi sinnar um allan heim. Vilja þau lægra verð? Já. Eru þau dugleg að gæta sinna hagsmuna? Já. Eru þau með mjög öflug hagsmunasamtök til að styðja við þau? Já.

Þannig að þú vorkennir þeim ekki?

Ekki vegna raforkuverðsins. Það sést á greiningum aðila eins og CRU, sem er langstærsta ráðgjafarfyrirtækið á þessu sviði í heiminum. Þar kemur fram að orkuverðið hér er ekki úr hófi og samkeppnisstaða okkar góð. Hins vegar er staðan á alþjóðlegum álmarkaði mjög erfið og þar finn ég mjög til með okkar viðskiptavinum. Það er of mikil einföldun í málflutningi SI þegar samtökin tengja alla afkomu þessara fyrirtækja við orkuverðið hér heima. Síðasta ár var þessum fyrirtækjum mjög erfitt, ekki síst vegna gríðarlegrar framleiðsluaukningar í Kína sem hefur vaxið úr því að vera 10% af heimsframleiðslunni af áli árið 2000 og upp í tæp 60% í fyrra. Þar er mikið um ríkisstyrki og einkennilega viðskiptahætti. Ofan í þetta berast svo tíðindi um að það hafi orðið samdráttur í eftirspurn eftir áli í heiminum í fyrra.

                                                      ***

Orkubúskapur framtíðar

Virkjunarsinnar og náttúrusinnar geta auðveldlega átt samleið, því vitaskuld eiga þeir margvísleg sameiginleg markmið og hagsmuni; bæði hvað varðar afrakstur náttúrauðlinda, hagsæld þjóðarinnar og góða umgengni við landið okkar fagra.

                                                      ***

En þá þarf að varast það að hlusta á þá, sem lengst vilja ganga í hvorri fylkingu. Þá má vel nefna öfgamenn.

                                                      ***

Í því samhengi er vert að minnast á það að rekstur álvera snýst um útflutning á orku, hreinni og endurnýjanlegri orku. Álverin eru hins vegar ekki laus við mengun og þau eru óneitanlega til lýta. Íslendingar geta vel beislað mun meiri raforku án þess að hætta náttúrugæðum landsins, en um leið lagt fram mun meiri skerf til umhverfisverndar og loftlagsstöðugleika á heimsvísu. Þeim markmiðum má best ná með því að auka orkunýtinguna og flytja raforku út um sæstreng. Í framhaldinu ætti ríkið að selja stóran hlut í Landsvirkjun, bæði til þess að minnka áhættu og innleysa stórfengleg verðmæti, sem þá verða bundin í fyrirtækinu.

                                                      ***

Það væri gott fyrir heiminn allan, en fyrst fremst væri það gott fyrir Ísland; myndi gerbreyta orkubúskap þjóðarinnar, skapa henni gríðarlegar tekjur og treysta efnahagslegar undirstöður hennar til muna og til langframa.

                                                      ***

Þá getur Bölmóður spámaður kannski snúið sér að einhverju sem stendur honum nær og hann veit eitthvað um.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.