Í byrjun árs 2020 mældist verðbólga hérlendis 1,6% og á því ári fóru stýrivextir Seðlabanka Íslands niður í 0,75%. Héldust vextirnir óbreyttir þar til í maí 2021 en síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar.

Nýjustu mælingar sýna að í landinu er nú 9,9% verðbólga, sem þýðir að verðbólgan hefur verið yfir 9% síðan í júlí síðastliðnum, en þá mældist hún einmitt einnig 9,9%. Frá því í maí 2021 hafa stýrivextir hækkað úr 0,75% í 6% og hafa þeir ekki verið hærri síðan árið 2010.

Í eitt augnablik síðasta haust var útlit fyrir að stýrivaxtahækkanir væru yfirstaðnar. Þá hafði verðbólgan hjaðnað í tvo mánuði röð, í ágúst og september. Ennfremur lækkaði vísitala íbúðaverðs lítillega á þessum tíma en stýrivaxtahækkanir Seðlabankans voru ekki síst tilkomnar vegna mikillar þenslu á íbúðamarkaði.

Á kynningarfundi peningastefnunefndar þann 5. október síðastliðinn var tilkynnt um 25 punkta hækkun, þar með voru stýrivextirnir komnir í 5,75%. Við það tilefni sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri:

„Við erum núna að gefa upp bolt­ann. Seðlabank­inn er bú­inn að ná ár­angri, við erum búin að hækka vexti. Áhrif­in eru kom­in fram. Ætla aðrir að taka við bolt­an­um? Ætlar vinnu­markaður­inn, rík­is­stjórn­in og at­vinnu­lífið að taka við bolt­an­um af okk­ur? Mögu­lega, ef það geng­ur eft­ir, þá kannski þurf­um við ekki að beita vaxta­tæk­inu mikið meira.“

Draumurinn um að stýrivextir myndu lækka í kjölfarið eða í versta falli standa í stað varði ekki lengi því húsnæðisverð hækkaði enn á ný í september og október og í nóvember tók verðbólgan að hækka á nýjan leik og stendur nú í 9,9% eins og áður sagði. Stýrivextir voru því hækkaðir í 6%, þann 23. nóvember.

Næsta vaxtaákvörðun bankans verður birt á miðvikudaginn í næstu viku. Óhætt er að segja að nánast allir markaðs- og greiningaraðilar búist við vaxtahækkun. Viðskiptablaðið birtir í dag könnun sem blaðið gerði á meðal markaðsaðila í vikunni. Reiknar 91% þátttakenda í könnuninni með því að vextir verði hækkaði í næstu viku. Tæplega 44% svarenda telur að vextir verði hækkaðir um 25 punkta og heil 43% býst við 50 punkta hækkun. Ríflega 3% telur að vextir haldist óbreyttir um 5,5% telur að þeir verði lækkaðir.

Viðskiptablaðið er sömu skoðunar og yfirgnæfandi meirihluti markaðsaðila í könnuninni. Að ekki verði komist hjá því að hækka vexti.

Það má segja að boltinn, sem Ásgeir gaf upp í byrjun október, sé kominn aftur til Seðlabankans. Og það þrátt fyrir langflestir á almennum vinnumarkaði hafi gert skynsama kjarasamninga, til skamms tíma og atvinnulífið almennt staðið í fæturna. Ástæðan fyrir því að boltinn er kominn aftur í Svörtuloft er fyrst og síðast sú að hið opinbera hefur leitt hækkanir á gjöldum og vörum.

Kom þetta berlega í ljós í tilkynningu Hagstofunnar á mánudaginn þegar greint var frá nýjum verðbólgutölum. Í henni sagði að verð á mat- og drykkjarvörum hefði hækkaði um 2,0% á milli mánaða. Þar með er ekki öll sagan sögðu því hluti af þeirri hækkun skýrist af hækkun á mjólk, ostum og eggjum um 4,4%.

Í þessu sambandi ber að nefna að verðlagsnefnd búvara, nefnd á vegum hins opinbera, ákveður heildsöluverð búvara. Í tilkynningunni kom einnig fram að áfengi og tóbak hefði hækkað um 5,5%, það vita allir hvers vegna það er og hitaveita hefði hækkað um 6%. Nýir bílar hækkuðu um 9,8% en þá hækkun má að stærstum hluta rekja til ákvörðunar stjórnvalda um að hækka vörugjald á rafbíla og lækka ívilnanir vegna kaupa á slíkum bílum.

Á næstunni losna kjarasamningar á opinberum vinnumarkaði. Óhætt er að segja að sporin hræði því alltof oft hafa ríki og sveitarfélög samið á allt öðrum forsendum en gert hafði verið á almenna markaðnum og þannig leitt launaþróunina í landinu, sem er ótækt. Það er því mikilvægara en aldrei fyrr að samningamenn hins opinbera fylgi því sem lagt var upp með í samningum Samtaka atvinnulífsins fyrir áramót ellegar er hætta á kollsteypu.

Leiðarinn birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 2. febrúar 2023.