*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Leiðari
30. nóvember 2018 18:03

Bölvun Brexit

Samskipti Bretlands og Evrópusambandsins munu enn versna, hvað sem gerist í breska þinginu.

Theresa May.
epa

Það dregur til tíðinda í Bretlandi, þar sem fyrir þinginu liggur að fjalla um samningsdrög frú Theresu May forsætisráðherra við Evrópusambandið (ESB) um hvernig haga skuli úrgöngu Breta úr sambandinu. Það er nánast sama hvernig fer, úrslitin boða ekki gott.

Þegar frú May kynnti samningsdrögin í fyrri viku voru viðbrögðin mjög fyrirsjáanleg, en vart mátti á milli sjá hvorir væru vonsviknari, aðildarsinnar eða úrsagnarsinnar. Fyrir aðildarsinna er samningurinn miklu lakari en áframhaldandi aðild og fyrir úrsagnarsinna felur samningurinn í sér lítið annað en úrgöngu að nafninu til. Báðir hafa rétt fyrir sér. Mikið vafamál er að þingið samþykki drögin, en nánast allar lyktir aðrar njóta meiri stuðnings – bæði á þingi og meðal þjóðarinnar. Það ætti tæpast að koma á óvart, því nær er að tala um uppgjöf en samninga í þessu viðfangi.

Fallist Bretar á þessa afarkosti, er erfitt að sjá hvers vegna Evrópusambandið ætti að hirða um frekari samninga. Það getur samkvæmt drögunum haldið Bretum á jaðri sambandsins til eilífðarnóns, bundnum af ákvörðunum ESB, áhrifalausir með velflestar núverandi skyldur en nánast engan ávinning. Þetta er auðvitað allt frekar raunalegt fyrir Breta. En það ættu fleiri að hafa áhyggjur af því hvernig komið er, ekki síst Evrópusambandið og aðildarríki þess. Í þessari sorgarsögu brugðust menn beggja vegna borðsins og afleiðingarnar munu reynast báðum aðilum til tjóns. Samskipti Bretlands og Evrópusambandsins munu enn versna, hvað sem gerist í breska þinginu.

Hafni þingið drögunum, eins og er bæði líklegt og skynsamlegt, íþyngjandi sem þau eru, mun frú May sennilega hrökklast frá völdum og stjórnmálaóvissan enn aukast. Bretar munu bera verulegan kostnað og óhagræði af því næstu ár fari þeir samningslaust úr ESB, en það munu meginlandsríkin einnig gera, bæði beint og óbeint, efnahagslega sem pólitískt.

Fari hins vegar svo að þingið samþykki drögin, frekar en að reyna óvissa samningslausa úrgöngu, mun Evrópusambandið með réttu hrósa sigri. En skamma stund verður hönd höggi fegin, því með þeim afarsamningi yrði Bretland bæði niðurlægt, gert að undirsáta Brussel um ótiltekinn tíma og lýðræðið að litlu haft.

Engar líkur standa til þess að Bretar myndu una því lengi, svo að því leyti myndi sá samningur varla reynast pappírsins virði. En hinar afleiðingarnar yrðu vafalaust varanlegri, að gremja í garð Evrópusambandsins myndi grafa um sig, blandin hefndarhug. Varla var það markmiðið, að breyta gömlum vini, viðskiptafélaga og bandamanni í óvin? Það væri ömurleg niðurstaða fyrir bæði Breta og Evrópusambandið.

Í því felst bölvun Brexit, ekki hinu hvort Bretar eru lengur eða skemur í tollabandalagi með metnað. Þetta gerist á tíma þegar ríki Evrópusambandsins eru mjög laus við pólitíska forystu og hinir ókjörnu og ábyrgðarlausu kommissarar Brussel fara mjög sínu fram. Framundan er efnahagsleg niðursveifla, en hvorki ESB né velflest aðildarríki þess hafa burði til þess að takast á við hana og ný evrukreppa gæti blossað upp þá og þegar. Illsakir við Breta munu ekki bæta úr þeirri skák.

Ísland stendur blessunarlega utan við þessar deilur, en vegna aðildar landsins að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) þurfa Íslendingar ekki að taka afstöðu til þeirra. Þeir verða áfram aðilar að innri markaðnum og er frjálst að gera fríverslunarsamning við Breta í framhaldi úrgöngu þeirra úr ESB. Hvort Bretum verður það frjálst er önnur saga.

Stikkorð: ESB Brexit Theresa May
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.