*

laugardagur, 20. júlí 2019
Davíð Þorláksson
26. janúar 2018 10:22

Borgar línan sig?

Því fleiri sem nýta almenningssamgöngur, þeim mun færri eru á götunum að tefja fyrir bílunum.

Haraldur Guðjónsson

Allir ættu að geta verið sammála um að höfuðmarkmið með samgöngum sé að koma fólki á milli staða með eins öruggum og skilvirkum hætti með sem minnstum tilkostnaði. Það kemur því nokkuð á óvart að umræða um borgarlínu virðist fara í sömu leiðinlegu flokkspólitísku skotgrafirnar í Reykjavík og svo mörg önnur mál. Maður hefði haldið að þetta væri frekar verkfræðilegt úrlausnarefni en pólitískt.

Ímyndin er að hægrimenn vilji bílinn en vinstrimenn almenningssamgöngur, hjól og göngu. Til ársins 2040 er gert ráð fyrir að verja þurfi 210-250 milljörðum króna í stofnvegakerfi, innri götur og lagnir á höfuðborgarsvæðinu. Til samanburðar er heildarkostnaður Borgarlínu áætlaður 70 milljarðar á 13 árum. Flestar borgir á Vesturlöndum eru fyrst og fremst að fjárfesta í almenningssamgöngum og hjóla- og göngustígum til að bregðast við vaxandi umferð. Þétting byggðar er líka lykill að því að gera fólk kleift að eyða minni tíma í samgöngur. Fyrir fólk sem skortir lítið sem ekkert er frítími raunveruleg lífsgæði. Það er ótækt að fólk þurfi að eyða klukkutíma á dag í ferðalög í lítilli borg.

Einhverjir hafa haldið því fram í umræðunni hér heima að sjálfkeyrandi bílar muni gera Borgarlínuna óþarfa. Economist greindi frá því í nýjasta tölublaði sínu að sjálfkeyrandi bílar muni hvorki minnka umferð né spara í innviðfjárfestingu. Þeir sem fara flestra sinna ferða á bíl, og sjá ekki fyrir sér að það muni breytast, ættu að vilja að allir hafi raunverulegt val um samgöngumáta. Því fleiri sem eru í Strætó, gangandi eða hjólandi því færri eru á götunum að tefja fyrir bílunum. Það er líka ódýrast fyrir skattgreiðendur og líklegast til að stytta ferðatíma. Þess vegna margborgar línan sig fyrir alla. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.