*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Leiðari
16. janúar 2020 13:43

Borgarfulltrúarnir og börnin

Meirihlutinn í borginni ætlar með einu pennastriki að stytta starfstíma leikskóla með þvingandi aðgerðum fyrir fjölmargar fjölskyldur.

Tillaga um styttingu á starfstíma leikskóla mun koma fljótlega koma inn borð borgarráðs.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Meirihluti Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar og Vinstri grænna í borginni hefur samþykkt að stytta starfstíma leikskóla um hálftíma. Sem fyrr opna þeir dyr sínar fyrir börnum klukkan 7.30 en í stað þess að bjóða upp á skólavist til klukkan 17 verður skólunum lokað klukkan 16.30. Á breytingin að taka gildi strax 1. apríl. Var þessi tillaga samþykkt á fundi skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur á þriðjudaginn en fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði gegn tillögunni.

Til grundvallar þessari ákvörðun meirihlutans er skýrsla stýrihóps um umbætur og skipulag leikskólastarfs í Reykjavík. Í henni kemur fram að 82% barna séu með dvalarsamning til klukkan 16.30, sem þýðir að 18%, eða ríflega 900 börn, eru með dvalarsamning til klukkan 16.45 eða 17.

Í skýrslu stýrihópsins kemur fram að þótt rúmlega 900 börn séu með samning lengur en til 16.30 nýti ekki allir foreldrar sér það því heilt yfir séu um 400 börn sótt eftir klukkan 16.30. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að taka fram að þótt 400 börn séu sótt eftir klukkan 16.30 þá er ómögulegt að segja hvort það séu alltaf sömu börnin. Það er einhver ástæða fyrir því að foreldrar ríflega 900 barna kjósa að borga fyrir skólavist til 16.45 eða 17.

Það er því ljóst að á næstu vikum munu á bilinu 800 til 1.800 foreldrar eða forráðamenn barna þurfa að semja við sinn vinnuveitanda um breyttan vinnutíma og ef það gengur ekki munu einhverjir neyðast til að minnka við sig vinnu og í verstu tilfellunum munu foreldrar þurfa að segja upp og finna sér nýja vinnu til að aðlagast þessum breytta veruleika í þjónustu borgarinnar.

Í skýrslu stýrihópsins er bent á að leikskólastarf hafi þróast mikið á síðustu áratugum. Fyrir 25 til 30 árum hafi algengur dvalartími barna í leikskólum verið 4 til 6 klukkustundir. Í dag sé staðan allt önnur. Stór hópur barna sé nú í leikskóla í 8,5 til 9 klukkustundir á dag. Sú staðreynd að börn dvelja í dag lengur í leikskólum en áður er auðvitað afsprengi breyttra tíma. Viðskiptablaðið leyfir sér að fullyrða að í dag sé algengara að báðir foreldrar séu úti á vinnumarkaðnum en raunin var fyrir 30 árum.

Í skýrslu starfshópsins segir að leikskólakennarar telji að 8,5 til 9 tímar sé of langur dvalartími fyrir börn og að hann komi niður á þroska þeirra, svo sem málþroska. Einnig er fullyrt að börn sem dvelji í 8,5 til 9 tíma á leikskóla sýni í auknum mæli merki um kvíða og streitu.

Sjálfsagt er að geta þess að hvorki er sagt nákvæmlega hvaða leikskólakennarar eru þessarar skoðunar né hversu margir. Þá er heldur ekki tekið fram hvað þessi langi dvalartími hafi áhrif á þroska margra barna og ekki eru birtar neinar tölur um það hversu mörg börn hafi sýnt merki um kvíða og streitu. Þá er þeirri spurningu ekki svarað hvort einhverjar aðrar breytur kunni að valda því að börnin séu kvíðin og með seinkaðan málþroska.

Forsjárhyggjan er því miður landlægt vandamál hjá kjörnum fulltrúum. Það er allt í lagi að viðra áhyggjur sínar og koma með ábendingar en hvorki kjörnir fulltrúar né starfsmenn borgarinnar eiga að kenna foreldrum að ala börn sín upp. Foreldrar þekkja börn sín best og vita hvað þeim er fyrir bestu.

Í skýrslu starfshópsins er bent á að í sumum öðrum sveitarfélögum hafi dvalartíminn verið styttur en eitt rangt réttlætir ekki annað rangt. Borgaryfirvöld eru að byrja á vitlausum enda. Eitt stærsta hlutverk þeirra er að sinna þjónustu fyrir borgarbúa. Í stað þess að ætla með einu pennastriki að grípa með jafn afdráttarlausum hætti inn í líf fjölda fjölskyldna ætti borgin að einbeita sér að því að auka sveigjanleika í opnunartíma leikskólanna.

Kjaramálin í dag snúast að stórum hluta um styttingu vinnuvikunnar og vafalaust mun sú þróun halda áfram næstu ár. Nær væri fyrir borgaryfirvöld að sjá hvaða áhrif þessar áherslur munu hafa á leikskólastarf í stað þess að rjúka til núna og stytta starfstíma leikskólanna með þvingandi aðgerðum fyrir fjölmargar fjölskyldur.

Fróðlegt verður að fylgjast með umræðum um þetta mál. Það mun koma inn á borð borgarráðs og í framhaldinu verður það væntanlega tekið fyrir í borgarstjórn.

Stikkorð: Leikskólar Boragarmál
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.