*

sunnudagur, 5. júlí 2020
Óðinn
1. júlí 2019 10:02

Borgarlína, Gísli Marteinn og götuvitarnir

„Gísli Marteinn er, eins og margir vinstri menn, sérstakur stuðningsmaður Borgarlínunnar.“

Gísli Marteinn Baldursson.

Bæjarstjórn Seltjarnarness samþykkti fyrir tveimur vikum að taka þátt í undirbúningi hinnar svokölluðu borgarlínu, þrátt fyrir að vitað væri af verulegri fyrirstöðu í bæjarfélaginu, enda nokkur vafi uppi um áreiðanleika kostnaðaráætlana um verkefnið. Kostnaður bæjarins að svo stöddu er um 6 milljónir króna, hvað sem síðar verður.

* * *

Fram kom í fréttum að einn bæjarfulltrúanna, sem jafnframt er formaður bæjarráðs og forseti bæjarstjórnar, var á móti þátttöku bæjarins í verkefninu. Bæjarfulltrúinn og sjálfstæðismaðurinn Magnús Örn Guðmundsson bókaði eftirfarandi vegna málsins: „Undirritaður leggst gegn því að Seltjarnarnesbær skrifi undir samninga um forhönnun, skipulagsvinnu verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna fyrsta áfanga svokallaðrar Borgarlínu. Samningarnir hljóða uppá 1,6 milljarða frá [Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu] og ríki. Hugmyndir um verkefnið eru að mínu mati óraunhæfar með öllu eins og þær liggja fyrir. Áætlanir um heildarkostnað og fjármögnun eru í besta falli óljósar og engin umræða um rekstrarforsendur og rekstrarkostnað hefur farið fram. Það er óábyrgt af kjörnum fulltrúum að skrifa undir samninga sem hafa svo óþekkta útkomu fyrir skattgreiðendur."

* * *

Hinir þrír bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn töldu ekki rétt að draga sig út úr samstarfinu með hinum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, en lögðu fram fyrirvara um enn frekara samstarf. Þeir árétta fyrri bókun Sjálfstæðismanna um málið frá mars 2018, þar sem lögð var áhersla á að efla Strætó. Einnig telji meirihlutinn „hugmyndir um nýja Borgarlínu hæpnar, ekki síst forsendur um heildarkostnað við verkefnið, áætlaða nýtingu og rekstrarkostnað". Málefnalegur ágreiningur í meirihlutanum á Seltjarnarnesi um borgarlínuna var því ef til vill ekki eins mikill eins og sumir héldu. Eða vildu vera láta.

* * *

Viku síðar birti mbl.is frétt um að sami Magnús Örn hafi verið á leið heim úr vinnu kl. 17.30 og að græna ljósið á gatnamótum Lækjargötu og Geirsgötu hafi aðeins logað í 7 sekúndur í senn. Í samtali við mbl.is segir Magnús Örn að þessi stuttu grænu ljós hafi tafið umferð mikið, bæði umferð einkabíla og strætisvagna.

* * *

Gísli Marteinn Baldursson, hlutlaus og óháður þáttastjórnandi á Ríkisútvarpinu, gerði þetta að umtalsefni á Twitter og sagði: „Gaman fyrir Mogga að vera með sinn eigin bæjarfulltrúa á Nesinu. Á móti borgarlínu, á móti greiðum leiðum gangandi en með hraðbrautum fyrir bíla, ekki síst þeim sem skera önnur hverfi í sundur. Get fært honum fréttir: #aðförin er rétt að byrja."

* * *

Þarna setur fyrrverandi borgarfulltrúinn nýtt met í útúrsnúningi. Þótt bæjarfulltrúinn Magnús sé á móti þátttöku Seltjarnarness í Borgarlínu vegna óljóss kostnaðar við stórvirkið, þá er ekki þar með sagt að hann sé á móti henni. Gæti verið að hann átti sig á því að hagsmunir Reykjavíkurborgar eru verulegir af línunni? Að borgin geti selt byggingarrétt og aukið byggingarmagn í grennd við borgarlínuna og framtíðarskatttekjur borgarinnar þannig orðið gríðarlegar vegna hennar? Ólíkt til dæmis Seltjarnarnesi, sem er fullbyggt með afar lágt nýtingarhlutfall.

* * *

Ólíkt Gísla Marteini, þá fara margir til vinnu að morgni og úr vinnu að kvöldi. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að hvort sem fólk fari um á einkabílum eða strætisvögnum, þá séu gatnamót og götuvitar með þeim hætti að leiðin sé sem greiðust. Það er enginn að tala um hraðbrautir og það er enginn á móti greiðfærum gangstéttum.

* * *

Gísli Marteinn er, eins og margir vinstri menn, sérstakur stuðningsmaður Borgarlínunnar. Magnús Örn hefur efasemdir um borgarlínuna og hefur áhyggjur af kostnaðnum. Óðinn mun ekki mynda sér skoðun á verkefninu fyrr en kostnaðurinn liggur fyrir, þá helst rekstrarkostnaðurinn. Það er mælt af fyllstu sanngirni, því þær kostnaðarhugmyndir sem þegar hafa verið kynntar eru ekki allar traustvekjandi og virðast í mörgu litast af óskhyggju.

* * *

Gísli Marteinn skrifaði grein fyrir rétt um ári og sagði að „Dýrasta og versta leiðin fyrir okkur öll er að fara ekki í Borgarlínu. Við byggjum okkur ekki frá umferðarteppum með gamaldags mislægum gatnamótum fyrir bíla. Það mun ekki duga til og við sitjum uppi með tugi milljarða í slíkar framkvæmdir en samt meiri umferðarteppur en við erum með núna."

* * *

Stofnkostnaðurinn hefur verið reiknaður og er áætlaður 70 milljarðar króna, sem dreifist yfir 10- 15 ára framkvæmdatímabil. Þegar rætt er um stofnkostnað er átt við framkvæmdakostnað en ekki vagnana sjálfa, hverrar náttúru sem þeir nú verða. Þá er vert að hafa í huga að opinber innviðaverkefni á Íslandi fara að jafnaði verulega fram úr áætlun og 90% af stærri verkefnum standast hvorki kostnaðar- né tímaáætlanir.

* * *

Í þessum efnum eru víti til að varast. Í Stafangri í Noregi er þannig verið að leggja 50 kílómetra borgarlínu sem nefnist Bussveien. Árið 2014 var áætlað að kostnaðurinn myndi nema jafnvirði 58 milljarða íslenskra króna. Í vor var endurskoðuð áætlun komin í 206 milljarða.

* * *

Stafangur er alls ekki eina dæmið í þessa veru, en borgarlínulagnir hafa verið mjög í tísku í og milli borgarkjarna undanfarinn einn og hálfan áratug. Þvert á móti má heita regla við samsvarandi verkefni víða um heim, að kostnaðaráætlanir hafa reynst einstaklega óáreiðanlegar, jafnvel þegar allt hefur að öðru leyti gengið að óskum. Ástæðan er sjálfsagt helst sú að víðast hvar er um nokkra nýlundu í samgönguframkvæmdum að ræða, reynsla og verkvit á hverjum stað af skornum skammti, en aðvífandi sérfræðingar og verktakar ókunnir staðháttum.

* * *

Það kann að vera rétt athugað hjá Gísla Marteini að það þurfi að leggja út í kostnað við Borgarlínu. En hvernig í ósköpunum getur nokkur haldið þessu fram þegar ekki hefur verið gerð tilraun til að meta rekstrarkostnað borgarlínunnar og óvissu um framkvæmdakostnað, líkt og dæmið frá Stafangri bendir til.

* * *

Það vekur raunar sérstakar áhyggjur að í hinum íslensku útreikningum um stofnkostnað við Borgarlínu er gert ráð fyrir að lagning hvers kílómetra hennar nemi 1,2 milljörðum króna, en í samsvarandi verkefnum frænda okkar í Noregi er hann á milli 3-4 milljarðar króna. Hafa þeir þó á töluverðri reynslu að byggja í þessum efnum.

* * *

Íslendingar eru duglegir og þegar kemur að verklegum framkvæmdum geta þeir stundum gert eitthvað sem líkist kraftaverki, einkum á lokasprettinum. En það er aldrei ódýrt. Og gerist aðeins þar sem þeir búa að góðri verkþekkingu og reynslu. Það þyrfti því raunveruleg kraftaverk og guðlega forsjón ef Íslendingum á að auðnast að leggja nýja gerð flókins og tröllaukins samgöngumannvirkis fyrir þriðjung þess sem það kostar aðra og vanari menn.

* * *

Þessa hlið verður að skoða í þaula, því kostnaðurinn við framkvæmdina getur hæglega blásið út. Miðað við reynsluna frá Stafangri gæti hann því orðið í námunda við 300 milljarða króna. Um það bil milljón á hvert mannsbarn höfuðborgarsvæðisins. Og það er áður en við vitum nokkuð um rekstrarkostnaðinn, tengingar út í hverfin, samþættingu við aðrar samgöngur eða notkunina.

* * *

Borgarlína kann sem fyrr segir að vera skynsamleg, jafnvel nauðsynleg, fyrir framþróun þéttbýlis í Stór-Reykjavík. En ekki við hvaða verði sem er. Það er því algert frumskilyrði að gerðir verði ýtarlegri útreikningar, sem eru í samræmi við samsvarandi verkkostnað á sambærilegum svæðum annars staðar, taka tillit til óvissuþátta og hverju skeikar reglulega í kostnaði opinberra framkvæmda hér á landi. Að þeir standist einhverja gagnrýni. Svo er það forsenda verkefnisins, að menn hafi á einhverju að byggja um rekstrarkostnaðinn og endurheimtur stofnkostnaðarins. Því annars eru menn bara að byggja út í loftið.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.