*

föstudagur, 14. maí 2021
Óðinn
14. apríl 2021 07:00

Borgarlína, Ragnar og óðs manns skítur

„Það er líka mikið varúðarmerki þegar farið er að tala um að eitthvað sé þjóðhagslega arðbært“

Haraldur Guðjónsson

Nokkur umræða hefur verið um borgarlínuna svokölluðu undanfarið. Þar er þrennt sem skiptir mestu í þeirri umræðu. Stofnkostnaðurinn, rekstrarkostnaðurinn og hvort einhver muni nýta sér vagnana sem munu fara um línuna.

Áður en við snúum okkur að þessum þremur atriðum er rétt að skoða hvernig gengur hjá þeim sex sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu að reka strætisvagna.

Eins og fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag, þá lét stjórn bæjarsamlagsins (bs.) Strætó, þar sem Reykjavíkurborg á langstærstan hlut eða um 60%, KPMG ráðgjöf vinna fyrir sig skýrslu síðasta sumar byggða á rekstri ársins 2019. Þar kemur margt merkilegt fram.

* * *

Strætó ekki umhverfisvænn
Strætó hefur þá stefnu að vagnar þeirra séu umhverfisvænir. Það er ekki raunin í dag nema að litlu leyti og eru vandfundin farartæki á götum höfuðborgarsvæðisins sem eru eins hættuleg heilsu fólks og elstu díselvagnar Strætó. Hreinsibúnaðurinn í gömlum vörubílum, rútum og strætisvögnum er lélegur og því sleppa auðveldlega út efni sem eru meðal annars krabbameinsvaldandi. Þeirra á meðal er nituroxíð (NOx).

Fjöldi vagna í eigin rekstri var 85, þar af 15 rafmagnsvagnar. Alls eru 56 vagnar í notkun og tæplega 30 varavagnar sem skýrist aðallega af aldri flotans. Strætó þarf að því að endurnýja vagnaflota sinn á næstunni og er sú fjárfesting veruleg, eða um 4 milljarðar króna.

Um helmingur aksturs Strætó er með eigin vögnum og starfsfólki og hinn er byggður á samningum við rútufyrirtæki, oftar en ekki byggðum á útboðum.

* * *

Mikill sparnaður með útvistun
Rekstrarkostnaður eigin reksturs Strætó var 20% hærri en hjá verktökunum árið 2019. Miðað við óbreyttan flota strætisvagna þá myndi Strætó spara um 400-500 m.kr. á ári með því að útvista öllum sínum akstri. Í þeim tölum er þó ekki litið til mögulegs hagræðis við að allt sé rekið á einni hendi og ekki er tekið tillit til fjárbindingar í útreikningi. Sparnaðurinn gæti því verið meiri.

KPMG ráðgjöf leggur til að útvista öllum akstri Strætó. Eða eins og segir orðrétt í skýrslunni:

„Mælt er með að skoðað verði alvarlega að útvista öllum akstri sem fyrst.“

Í ljósi þess hve verulegur sparnaður þetta er fyrir sveitarfélögin sex þá hlýtur stjórn Strætó að íhuga þess tillögu KPMG ráðgjafar alvarlega. Reyndar verður ekki séð annað af eigendastefnu Strætó en að stjórninni sé skylt að útvista öllum rekstrinum. Í grein 4.2.1. í eigendastefunni segir nefnilega:

Rekstur Strætó bs. skal á hverjum tíma miðast við að lágmarka kostnað eigenda og samfélagsins við úrlausn þeirra verkefna sem byggðasamlaginu eru falin, að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem sett eru í þjónustusýn og umhverfisstefnu þess.

* * *

Erfið fjárhagsstaða
Fjárhagsstaða Strætó versnaði verulega í fyrra vegna Covid og er talið að það vanti allt að einn milljarð inn í reksturinn. Eigendurnir, sveitarstjórnirnar sex, gera sér vonir um að ríkissjóður muni taka þann skell á sig. Óðinn sér ekki endilega skynsemina í að ríkissjóðurinn, sem rekinn er með gríðarlegum halla, taki á sig þau útgjöld á sama tíma og sveitarfélögin eyða peningum eins og enginn sé morgundagurinn. En það er önnur saga og hugsanlega mun betri.

Sú sem gæti verið verri er blessuð Borgarlínan. Eins og Óðinn hefur sagt frá upphafi þá er ekki hægt að taka afstöðu til verkefnis sem þessa nema hafa fjárhagslegu hlið málsins á hreinu. Þessi orð voru og eru sögð því að Óðinn bjóst við að bæði yrði lögð fram nákvæm kostnaðaráætlun um uppbyggingu Borgarlínunnar og – ekki síður – nákvæm rekstraráætlun. En hvorugt hefur litið dagsins ljós þrátt fyrir að ákveðið hafi verið að ráðast í verkefnið!

Í byrjun ársins tók opinbera hlutafélagið Betri samgöngur til starfa með ráðningu framkvæmdastjóra. Félagið er í eigu ríkisins og sveitarfélaganna sex, þeirra sömu og eiga Strætó, og er ætlað að koma samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins í framkvæmd. Borgarlínan fellur þar undir.

* * *

Algjört myrkur?
Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri félagsins, hefur hitt sveitarstjórnir, að jafnaði í gegnum fjarfundarbúnað, og rætt um verkefni Betri samgangna. Þar hefur hann verið spurður um rekstur Borgarlínunnar og svarað því til að það sé ekki hluti af verkefnum félagsins að reka verkefnin, heldur aðeins að byggja þau upp. Óðinn veltir fyrir sér hver hefur það verkefni með höndum. Ef til vill enginn?

* * *

Morgunblaðið fjallaði um rekstrarkostnaðinn í lok júní á síðasta ári þegar verið var að fjalla um aðkomu ríkisins að m.a. borgarlínunni. Í blaðinu var haft eftir Hrafnkeli Á. Proppé, hjá verkefnastofu Borgarlínu, að endanleg rekstraráætlun lægi ekki fyrir, sem væri eðlilegt, og ekki væri ljóst hversu mikið tekjur myndu aukast með hærra þjónustustigi Borgarlínu. En Hrafnkell taldi rekstrarkostnað Strætó aukast um 2 milljarða vegna verkefnisins.

„Menn eru ekki í algjöru myrkri hvað þetta varðar. Það liggur fyrir hvað mun kosta að reka vagna Borgarlínunnar. Hins vegar er enn verið að ítra leiðarkerfisbreytingar sem munu spila inn í endanlega rekstraráætlun fyrir allt leiðakerfi Strætó. Við erum í vinnu með Strætó sem miðar að því að ítra leiðakerfið og því fylgja nýjar spár um notkunarhliðina. Sömuleiðis erum við að fá í hús niðurstöður félagshagfræðilegrar greiningar sem dregur fram að verkefnið er þjóðhagslega arðbært.“

* * *

Það er brjálæði – í raun eins og að éta óðs manns skít – að ráðast í útgjöld líkt og samgöngubætur án þess að vita með meiri vissu hver rekstrarkostnaðurinn er til framtíðar. Trúarbrögðin og trúboðið í kringum borgarlínuverkefnið hefur líka verið svo mikið að ástæða er til að óttast að menn séu að fegra reiknidæmið svo að verkefnið falli ekki um sjálft sig.

Það er líka mikið varúðarmerki þegar farið er að tala um að eitthvað sé þjóðhagslega arðbært, líkt og gert var með borgarlínuverkefnið síðasta haust. Danska ráðgjafarfyrirtækið Cowi og Mannvit gerðu skýrslu um þjóðhagslegt virði verkefnis. Það kemur reyndar á óvart að það sé hægt að reikna það ofan í kjölinn, og gefa sér forsendur þó óljósar hafi verið, á sama tíma og það er vonlaust að gera rekstraráætlun fyrir verkefnið!

* * *

Þjóðhagslega óhagkvæm framkvæmd?
Ragnar Árnason, fyrrverandi hagfræðiprófessor skrifaði grein í Morgunblaðið í lok nóvember og taldi að skýrslan staðfesti gagnstæða niðurstöðu en kynnt var, að verkefnið væri bara alls ekki þjóðhagslega hagkvæmt.

Öfugt við það sem fullyrt hefur verið sýnir athugun á skýrslu Cowi og Mannvits að þjóðhagslegt núvirði þessa fyrsta áfanga borgarlínunnar er verulega neikvætt. Með því einu að leiðrétta mistök í skýrslunni eða færa eina af lykilforsendum hennar í raunsæisátt er niðurstaðan að þetta núvirði sé neikvætt. Þá hefur ekki einu sinni verið tekið tillit til þeirrar áhættu sem í framkvæmdinni felst.

Nú eru allar líkur á því að af verkefninu verði. Það kemur Óðni á óvart að hvorki fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins né bæjarstjórar Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu – fimm talsins – skuli hafa farið af stað í þessa vegferð þegar svo mörg viðvörunarljós blikka.

* * *

Snjall Dagur
Það verður því ekki annað sagt en að Dagur B. Eggertsson sé einn snjallasti stjórnmálamaður okkar tíma. Hann kemur Borgarlínunni á koppinn en lætur bæjarstjóra Sjálfstæðisflokksins vera meðseka ef allt fer á versta veg.

Ekki nóg með það. Dagur samþykkir að tveir fyrrverandi formenn Sambands ungra sjálfstæðismanna, Árni Matthiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, og Davíð Þorláksson lögfræðingur, beri ábyrgð á Betri samgöngum ohf. sem stjórnarformaður og framkvæmdastjóri. Líklega mun enginn muna eftir því að rekstrarkostnaðurinn var ekki á ábyrgð þess félags og þeir félagar taka skellinn ef illa fer.

* * *

Óðinn vonar sannarlega að borgarlínuverkefnið gangi upp. Á sama tíma er ástæða til að óttast að það sé aðeins falleg hugmynd, líkt og sósíalisminn er, sem mun enda með gríðarlegum skaða sem skattgreiðendur munu þurfa að bera. Ekki bara á höfuðborgarsvæðinu – heldur um allt land.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.