*

sunnudagur, 17. janúar 2021
Óðinn
5. mars 2018 11:04

Borgarlínan – besta eða versta leiðin?

Gatnakerfið er sprungið víða á höfuðborgarsvæðinu. Reyndar bara í aðra áttina.

Aðsend mynd

Gatnakerfið er sprungið víða á höfuðborgarsvæðinu. Reyndar bara í aðra áttina. Að morgni í átt að miðborg Reykjavíkur og síðla dags frá miðborginni. Áætlað er að íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgi um 70 þúsund til ársins 2040 sem er 35% aukning. Því er morgunljóst að bregðast þarf við.

                                               ***   

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, sem reka Strætó, hafa sameinast um lausn á þessum vanda undir merkjum borgarlínu. Sú sátt lyktar af pólitískri málamiðlun.

                                               ***   

Stofnkostnaður og rekstrarkostnaður

Stofnkostnaðurinn hefur verið reiknaður og er sagður verða 70 milljarðar króna sem dreifist yfir 10-15 ára framkvæmdatímabil. Þegar rætt er um stofnkostnað er átt við allan framkvæmdakostnað en ekki strætisvagnana sjálfa. Þá þarf að hafa í huga að opinber innviðaverkefni á Íslandi fara að jafnaði verulega fram úr áætlun og 90% af stærri verkefnum standast hvorki kostnaðar- né tímaáætlanir.

                                               ***   

Óðinn minnist þess ekki að forsvarsmenn sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hafi upplýst hvort og þá hversu mikil meðgjöfin þarf að vera með borgarlínunni. Dönsku ráðgjafarnir COWI sögðu í skýrslu síðasta vor að rekstrarkostnaðurinn yrði birtur í lok síðasta sumars. Í dag greiða sveitarfélögin 3 milljarða króna með Strætó á ári, og ríkið tæplega milljarð. Það er óþarfi að vera bjartsýnn hvað varðar rekstrarkostnaðinn. Líklega þarf mun meiri meðgjöf á hverju ári með borgarlínu.

                                               ***   

Skoðun byggð á hverju?

Óðinn skilur því ekki hvernig nokkur maður getur verið fylgjandi hugmyndinni eða verið á móti henni – að svo komnu máli. Kostnaðurinn er grundvallaratriði. Allir hljóta að vera tilbúnir að skoða alla kosti við lausn samgönguvandans, hvort sem lausnin nefnist borgarlína, ofur strætó eða bara strætó.

                                               ***   

Forsenda tíðra og skilvirkra almenningssamgangna er þétt byggð. Engar upplýsingar liggja fyrir hvert lágmarksnýtingarhlutfallið þarf að vera þannig að borgarlína sé hagkvæm. Lágmarkskrafa hlýtur í það minnsta að hún sé sem hagkvæmust.

                                               ***   

Mosfellsbær og Seltjarnarnes

Augljóst er að sumir hlutar borgarlínu eru hagkvæmari en aðrir. Óðinn efast til dæmis um að skynsamlegt sé að byggja upp borgarlínu frá gatnamótum Vesturlandsvegs og Höfðabakka til Mosfellsbæjar. Á þessari leið, sem er tæpir 9 kílómetrar, er svo til engin byggð. Sömu sögu má segja um borgarlínu til Seltjarnarness, þar sem nýtingarhlutfall er með lægsta móti á höfuðborgarsvæðinu.

                                               ***   

Nýtingarhlutfallið hefur hækkað verulega í miðbænum á undanförnum árum. Mikil tækifæri eru á þéttingu austur að Keldum. Meðfram Laugavegi frá Hlemmi, norðanmegin við Suðurlandsbraut, í Skeifunni, Vogabyggð, á Ártúnshöfða og loks í Keldnaholtinu. Án efa yrði þetta einn hagkvæmasti hluti Borgarlínunnar.

                                               ***   

Verulegar tekjur

Það er ekki fráleitt er að Reykjavíkurborg geti aukið byggingarmagnið á eigin lóðum í kringum 250-500 þúsund fermetra meðfram þessum hluta Borgarlínu. Ef byggingarrétturinn selst á 70-100 þúsund krónur á hvern fermetra gætu tekjur borgarinnar numið 25-35 milljörðum króna utan gatnagerðargjalda. Til samanburðar var söluverð á lóðum í Vogabyggð 95-105 þúsund kr. á fermetra án gatnagerðargjalda og innviðagjalda. Augljóst er Reykjavíkurborg gæti haft verulegar tekjur samhliða miklum kostnaði við borgarlínu.

                                               ***   

Þorsteinn Hermannsson, samgöngustjóri Reykjavíkur, sagði nýverið á opnum fundi að kostnaður við stofnvegakerfi væri 110-130 milljarðar og götur og ræsi 100-120 milljarðar vegna fólksfjölgunar til 2040. Þetta eru áhugaverðar tölur. Nauðsynlegt er að bera ólíkar leiðir saman. Annars vegar uppbyggingu á umferðarmannvirkjum með og hins vegar án borgarlínu. Ef þessi vinna hefur verið unnin þarf að kynna hana fyrir þeim sem borga brúsann, skattgreiðendum.

                                               ***   

Þarf að færa spítalann?

Það kom ágæt ábending frá Hilmar Björnssyni arkitekt fyrir nokkrum vikum. Vandi umferðarinnar er einstefnuvandi og Hilmar segir að hann muni ekki leysast með borgarlínu nema veruleg uppbygging eigi sér stað á austurenda hennar, t.d. í Keldnaholtinu. Hilmar vill byggja nýjan spítala þar og leysa þar með þennan vanda.

                                               ***   

Um tíma héldu sumir í að borgarlínan yrði kosningamál í vor. Óðinn hafði og hefur enga trú á því. Langflestir notast við einkabílinn. Það er ekki vegna þess að þeir eru einkabílistar heldur að af því að engin önnur leið er greiðfær. Höfuðborgarsvæðið er svo strjálbýlt að Strætó nýtist of fáum. Ef raunhæfar og skynsamlegar hugmyndir koma fram um aðra leiðir þá mun meðalJóninn meta kostnaðinn, tíðni ferða, ferðatímann, öryggið og áreiðanleikann.

                                               ***   

Mál eins og borgarlína og staðsetning spítala eiga ekki vera að flokkspólitísk mál. Vissulega er óhjákvæmilegt að sumir angar þeirra verði það. Þá helst kostnaðurinn og hvernig skal greiða fyrir það.

                                               ***   

Það er merkilegt að sjá bæjarstjóra Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu lýsa sig sem stuðningsmenn við verkefni þar sem enn er óvissa er um verulega hluta kostnaðarins. Það minnkar ekki áhyggjur Óðins af sveitarstjórnarstiginu, þar sem offramboð er af fólki sem heldur að formennska í íþróttafélögum eða Rotary-klúbbum sé góður grunnur fyrir starf bæjarfulltrúa.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.