

Alls bættust 23 á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík í lok síðustu viku. Allir nýju umsækjendurnir sitja í borgarstjórn. Rekja má forsögu þessa máls til þess er Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna sem gárungarnir kalla nú Líf Ullmann, ullaði framan í borgarfulltrúa minnihlutans á fundi borgarráðs. Eftir ullið lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks fram bókun þar sem segir: „Alvarlegar athugasemdir eru gerðar við framkomu tiltekins borgarráðsfulltrúa meirihlutans, fulltrúa Vinstri grænna, í upphafi fundar. Það er ekki sæmandi að borgarfulltrúar leyfi sér þá óháttvísi og dónaskap að ulla framan í aðra fulltrúa.“ Í viðtali á RÚV gekkst Líf við því að hafa ullað. Sagðist hún hafa ætlað að losa um „þrúgandi andrúmsloft á fundinum“ og að ullið hafi verið hennar viðbrögð við störukeppni ákveðinna borgarráðsfulltrúa.
Hrafnarnir vilja beina því til borgarfulltrúa að hætta að ulla og einbeita sér frekar að vinnunni. Það er nóg af verkefnum í Reykjavík. Fyrst við erum í borgarmálunum þá mætti nefna leikskólamálin, almenningssamgöngur og húsnæðismálin. Augljóslega þarf að gera skurk í þessum málum.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir var í stuttu viðtali í Morgunblaðinu á mánudaginn þar sem hún kom aðeins inn á húsnæðismálin. „Flestum ber saman um að húsnæðismálin í borginni séu nú að nálgast jafnvægi. Bæði munar mjög um uppbygginguna sem nú er í gangi og svo hefur hægt á verðhækkunum. Komið er andrúm á markaðnum.“
Þótt hrafnarnir séu sammála um að hægt hafi á hækkunum á húsnæðismarkaðnum þá er hann ekki kominn í jafnvægi enda hefur íbúðaverð hækkað um ríflega 5% á síðustu tólf mánuðum. Þá geta borgaryfirvöld ekki með nokkrum hætti eignað sér heiðurinn af því að „jafnvægi“ sé að skapast. Uppbyggingin hefur verið skötulíki í borginni og nágrannasveitarfélögin flest staðið sig margfalt betur en meirihlutinn í Reykjavík.
Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.