*

mánudagur, 18. nóvember 2019
Leiðari
30. júní 2019 15:04

Boris og Brexit

Boris Johnson hefur lagt á það alla áherslu að ESB-útgöngunni verði ekki frestað einu sinni enn.

epa

Flest bendir til þess að Boris Johnson verði forsætisráðherra Bretlands á næstu vikum. Hinir kaldhæðnu Bretar segja að í raun sé eini maðurinn, sem komið geti í veg fyrir það, Boris nokkur Johnson. Hann er afar litríkur stjórnmálamaður, ekki alltaf varkár í orðum, svo það er ekki ómögulegt, en á móti kemur að kjósendur virðast ekki kippa sér upp við margt í fari hans.

Þegar horft er til Brexit-klúðurs liðinna ára er skiljanlegt að margir kjósi svo afdráttarlausan karl í brúna. Hvað sem fólki kann að finnast um þá ákvörðun Breta að ganga úr Evrópusambandinu (ESB) deilir enginn um að hinni hefðbundnu stjórnmálastétt – bæði í London og Brussel – hefur tekist frámunalega illa til við að ná saman um skynsamlega úrgöngu. Svo þá er komið að hinni óhefðbundnu stjórnmálastétt.

Boris Johnson hefur lagt á það alla áherslu að útgöngunni verði ekki frestað einu sinni enn, að Bretar gangi úr ESB – með góðu eða illu – ekki síðar en 31. október. Hann segist kjósa að gera það með samningum, en að hann muni ekki hika við að gera það samningslaust ef svo ber undir.

Þessar ráðagerðir hefur hann kynnt sem leiðir A, B og C. Leið A snýst um að ná breyttum samningi á grundvelli hins fyrri og gangi út í lok október, en þar skiptir mestu að leysa norður-írska vandamálið, að Írland verði á yfirborðinu landamæralaust þó að Norður-Írland verði ekki á innri markaðnum. Gangi það ekki vill hann reyna leið B, að fara úr sambandinu með kyrrstöðusamningi um að Bretar fari áfram að regluverki ESB þar til nýr fríverslunarsamningur hafi verið gerður. Fallist ESB ekki á það reynir á leið C: að ganga úr ESB án heildarsamnings.

Nú er raunar alls óvíst að Boris Johnson hafi þingstyrk til þess að hrinda slíkum áformum fram. Minnihlutastjórn Íhaldsflokksins hefur ekki upp á nema þrjú þingsæti að hlaupa og Boris á talsvert fleiri svarna andstæðinga í eigin þingflokki og sennilega standa ámóta margir öndverðir gegn samningslausri úrgöngu. Bresti hann meirihluta, kann hann að eiga þann einn kost að boða til þingkosninga, sem ógerlegt er að segja til um hvernig fari, en gæti hæglega leitt marxistann Jeremy Corbyn til valda með enn ófyrirsjáanlegri afleiðingum.

Fyrir sitt leyti hefur Evrópusambandið og fjölmargir forystumenn þess ítrekað að ekki verði samið að nýju við Breta, annaðhvort samþykki þeir samninginn, sem Theresa May gerði við ESB um úrsögnina, eða ekki. Annað sé ekki í boði. Þar með er ekki sagt að Brussel bifist ekki þegar á reynir, því ef það er eitthvað sem Brussel-valdið kann, þá er það að lempa samninga. Vandinn er þó ekki síður sá að það eru vaktaskipti hjá ESB, Evrópuþingkosningar nýafstaðnar og verið að semja um samsetningu framkvæmdastjórnarinnar, svo það er ekki víst að þar á bænum sé nokkur til þess að taka af skarið um úrgöngu Breta.

Það skiptir miklu máli fyrir Íslendinga hvernig Boris og ESB tekst að greiða úr þessum flækjum. Við eigum gríðarlega hagsmuni undir greiðum viðskiptum bæði við Bretland og ESB, en eins því að milli þeirra sé eðlilegt viðskiptasamband. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur fyrir sitt leyti lagt mikla áherslu á að Ísland sé vel undirbúið undir Brexit, svo vel raunar að í Brexit geti falist margvísleg tækifæri fyrir Íslendinga. Þar má nefna langþráð markmið um fríverslun með sjávarafurðir, en um leið má benda á mögulega nýskipan í alþjóðaviðskiptum, þar sem glugginn til Bandaríkjanna kynni að opnast frekar og nefna mætti aðra og fjarlægari markaði. Ekkert af því gerist af sjálfu sér og gleðiefni að íslensk stjórnvöld séu svo vakandi fyrir því og raun ber vitni.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.