*

föstudagur, 4. desember 2020
Týr
19. febrúar 2020 07:12

Braut Kata stjórnarskrá?

Ekki finnst lagaheimild til greiðslu til lögmanna í Guðmundar- og Geirfinnsmálum.

Katrín Jakobsdóttir er forsætisráðherra og formaður Vinstri Grænna.
Gígja Einars

Guðmundar- og Geirfinnsmálin hafa vafist lengi fyrir landsmönnum og með ólíkindum að það séu þau enn að gera nú, öllum þessum árum síðar, og frekar að flækjast en hitt. Ekki síst á það við vegna miskabóta til málsaðila og afkomenda, sem voru saklausir dæmdir á sínum tíma. Ríkið hefur greitt út 774 milljónir króna í miskabætur til þeirra á grundvelli laga, sem samþykkt voru á Alþingi í byrjun desember, en sumir aðilanna telja alls ekki nóg að gert og krefja ríkissjóð um miklu hærri fjárhæðir.

                                                                ***

Týr hefur efasemdir um réttmæti þeirra himinháu krafna, án þess að hann dragi í nokkru í efa þær raunir og þrautir, sem sakborningarnir máttu þola vegna dómsmorðsins.

                                                                ***

Hann staldraði hins vegar... nei snarskrensaði eiginlega, við fréttir af því að auk þessara bótagreiðslna hafi verið greidd 41 milljón króna í lögmannskostnað til lögmanna málsaðilanna og afkomenda þeirra. Nú dregur Týr ekki í efa að lögmennirnir séu vel að þessum greiðslum komnir, þeir hafa vafalaust lagt hart að sér í samningum við ríkið og varið miklum tíma við málareksturinn. En hvers vegna greiða á þóknun þeirra úr ríkissjóði, það liggur alls ekki fyrir.

                                                                ***

Varla getur það verið að um leið og lögmennirnir voru að vinna fyrir skjólstæðinga sína hafi þeir jafnframt verið að sinna störfum fyrir ríkið, sem þarna sé verið að gjalda fyrir. Eva Hauksdóttir lögfræðingur benti á það í grein, að hafi ríkið ákveðið eða samið um að standa straum af lögmannskostnaði bótakrefjenda, þá liggi ekkert fyrir um hvernig og hvenær sú ákvörðun var tekin og enn síður á grundvelli hvaða heimildar. Þá heimild er a.m.k. ekki að finna í lögunum um bótagreiðslurnar.

                                                                ***

Í 41. grein stjórnarskrár er skýrt kveðið á um það að „ekkert gjald [megi] greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum". Svo er ekki. Forsætisráðherra getur ekki tekið slíkt upp hjá sjálfum sér, jafnvel þó svo honum finnist sanngirnis- eða jafnræðissjónarmið hníga til þess. Hann eins og aðrir verður að fara að lögum og stjórnarskrá. Raunar brýnna að hann geri það en aðrir.

                                                                ***

Fyrir þessari 41 milljón króna greiðslu finnst ekki lagaheimild og á henni ber forsætisráðherra ábyrgð. Ráðherra verður að svara því á hvaða forsendum það fé var borið úr ríkissjóði, en þó aðallega því hvort ekki eigi að biðja Alþingi leyfis og fara að stjórnarskrá.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.