Óðinn fjallaði um umsagnir Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins við fjárlögin síðasta fimmtudag. Í umsögn sinni kom Viðskiptaráð með samlíkingu sem við höfum séð áður en á ágætlega við.

Hér er stutt brot úr pistlinum en áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér.

Vatn og bensín til skiptis

Af einhverri óskiljanlegri ástæðu komast 98 starfsmenn fjármálaráðuneytisins auk fjármálaráðherrans að þeirri niðurstöðu að frumvarpið, þar sem ætlunin er að eyða 129 milljörðum meira þegar tekið tillit til einskiptis Covid liða, muni tempra verðbólgu.

Viðskiptaráð lýsir stöðunni alveg hreint ágætlega.

Verðbólgan er eins og eldur sem brennir hvað sem hún snertir. Þessar eldglærur hafa læst sig í húsi okkar, hagkerfinu. Til mikillar mildi eru tvær vaskar sveitir mættar á vettvang til þess að bjóða fram aðstoð sína. Annars vegar er þar Seðlabankinn, hlaðinn tækjum og tólum til berjast við eldinn.

Hins vegar eru það fulltrúar ríkissjóðs. Þeir segjast líka vilja hjálpa. Í stað brunaslöngu eru þeir með bensínbrúsa. Í kapp hver við annan sprauta bjargvættirnir á víxl vatni og bensíni yfir eldinn. Eins og gefur að skilja gengur erfiðlega að slökkva hann. Á meðan stöndum við hjá og horfum á húsið brenna.

Við þetta má einu bæta. Aðgerðir Seðlabankans hafa bæði kælt hinn almenna fjárfesti og fasteignakaupanda. Hlutabréf hafa fallið mikið og spáð er enn frekari lækkunum. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði í fyrsta sinn í ágúst í fyrsta sinn í þrjú ár. Vaxtastigið er svo hátt sem raun ber vitni vegna ríkisútgjaldanna. Og eins og Viðskiptaráð bendir á mun vaxtaþróun „ekki síst ráðast af þróun ríkisfjármála.“

***

… og líka brennivínið

Viðskiptaráð bendir á að hækkanir á álögum í „fríhöfninni“, sem er auðvitað engin fríhöfn, mun ólíklega skila meiri tekjum í ríkissjóð.

Hvað hækkun áfengis- og tóbaksgjalds í fríhafnarverslun snertir er reiknað með um 700 m. kr. tekjuauka fyrir ríkissjóð. Viðskiptaráð telur mjög hæpið að tekjur ríkissjóðs Íslands muni aukast sem nokkru nemur vegna þessa. Verð á mörgum vörutegundum í þessum flokkum mun að óbreyttu verða umtalsvert hærra en í fríhafnarverslunum erlendis. Neytendur munu að öllum líkindum bregðast við þessum hækkunum og verslun með áfengi- og tóbak í fríhafnarverslunum mun því sennilega flytjast úr landi í auknum mæli.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudag, 13. október 2022.