*

mánudagur, 17. júní 2019
Leiðari
21. júlí 2016 11:56

Brestir á mörkuðum

Varast ber töfralausnir stjórnmálamanna sem telja sig geta lagað „bresti“ í mörkuðum.

Haraldur Guðjónsson

Það er nokkuð sláandi að lesa annars vegar forsíðufrétt Viðskiptablaðsins og hins vegar umfjöllun Óðins um íbúðamarkaðinn. Ljóst má vera að framboð á íbúðum hefur ekki um langan tíma elt eftirspurn og er nú svo komið að uppsöfnuð þörf fyrir íbúðarhúsnæði, bæði til kaups og til leigu, er orðin veruleg. Er þetta ekki aðeins vegna þess að minna var byggt eftir hrun og að þjóðinni hefur fjölgað á síðustu árum, heldur hefur fjöldi íbúða horfið af markaði og í skammtímaleigu og þá hefur þörf fyrir erlenda verkamenn aukist verulega.

Að óbreyttu erum við því að horfa upp á tímabil verulegra hækkana á húsnæðisverði, nokkuð sem mun hafa umtalsverð áhrif á almenning, ekki síst þá sem eru að koma nýir inn á fasteignamarkað. Erfitt er að sjá hvernig hægt er að bregðast við þessu til skemmri tíma litið. Hins vegar er óhætt að vara við töfralausnum stjórnmálamanna sem telja sig, með því að snúa upp á nokkra ímyndaða hagfræðihnappa, geta lagað „bresti“ í mörkuðum.

Eygló Harðardóttir húsnæðismálaráðherra er einn slíkur stjórnmálamaður, en hún heldur að með því að auka verulega bótagreiðslur til fólks geti hún unnið gegn þessari þróun. Hún virðist ekki vilja skilja það að með því að færa kaupendum og leigjendum meira fé í formi bóta og styrkja mun hún ekki hafa önnur áhrif en þau að ýta enn undir verð á markaðnum. Látum vera að það er ekki hlutverk stjórnmálamanna að ákveða „rétt verð“ á nokkrum sköpuðum hlut, en þrjóska ráðherrans í þessum efnum bendir til þess að hún hreinlega vilji ekki viðurkenna þessi augljósu sannindi. Sé fasteignaverð „of hátt“ þá verður því ekki breytt nema með því að hafa áhrif annaðhvort á framboð eða eftirspurn. Minnka má eftirspurn t.d. með því að skattleggja hér atvinnulífið í rot svo þörf á erlendu vinnuafli minnki, en það er væntanlega ekki markmið vinstrimanna, heldur meira óvænt afleiðing stefnu þeirra í skattamálum.

Hins vegar mætti gera byggingu íbúðarhúsnæðis auðveldari og ódýrari. Bent hefur verið á ýmsar leiðir til að ná þessu markmiði og óþarfi að tíunda þær frekar. Í kosningunum í haust munu loforð stjórnmálamanna um inngrip á fasteignamarkaði dynja á kjósendum. Afar mikilvægt er að láta ekki glepjast og horfa í gegnum vitleysuna. Vitlaus viðbrögð við þróuninni nú gætu kostað okkur öll svo miklu meira til lengri tíma litið en sú einfalda lausn að láta bara markaðinn um þetta

Stikkorð: Húsnæðismál
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is