*

miðvikudagur, 12. ágúst 2020
Óðinn
10. júní 2019 10:02

Bretland, Evrópusambandið og efnahagurinn

Í þessum mánuði eru þrjú ár síðan Bretar samþykktu útgöngu úr Evrópusambandinu (ESB) í þjóðaratkvæðagreiðslu.

epa

Í þessum mánuði eru þrjú ár síðan Bretar samþykktu útgöngu úr Evrópusambandinu (ESB) í þjóðaratkvæðagreiðslu. Útgangan átti að eiga sér stað fyrir klukkan 11 þann 29. mars 2019. Henni var hins vegar frestað, þar sem Theresu May auðnaðist ekki að ná samningi við ESB um útgönguna sem breska þingið gat samþykkt. Því þurfa Bretar og Evrópusambandið að ná samningi um útgönguna fyrir hrekkjavöku í lok október, sem er mjög við hæfi. Ella fara Bretar sjálfkrafa út samningslaust og viðskipti þeirra við ESB verði samkvæmt reglum Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar (WTO) þar til um annað semst, hvort sem það er nú gert með heildarsamningum eða stökum samningum á einstökum sviðum.

* * *

Nær daglega þessi þrjú ár hafa verið fluttar fréttir í íslenskum fjölmiðlum um slæmar afleiðingar Brexit fyrir breskt efnahagslíf. Sagt hefur verið frá því að fyrirtæki hafi minnkað eða hætt starfsemi í Bretlandi, fólk hafi misst störf sín, verðlag hækkað og landið nánast á vonarvöl mætti stundum halda.

* * *

Atvinnuleysi ekki lægra í 44 ár!

Það hlýtur því að hafa komið íslenskum málsvörum áframhaldandi veru Breta í Evrópusambandinu nokkuð á óvart þegar í ljós kom að atvinnuleysi hefur ekki verið lægra í Bretlandi í 44 ár. Atvinnuleysið í mars mældist 3,8% samkvæmt bresku hagstofunni. Þegar útganga Breta var samþykkt í júní 2016 mældist atvinnuleysið 5%. Atvinnuleysi í Bretland hefur sjaldan farið niður fyrir 5% markið frá 1975. Það gerðist frá mars til maí árið 2001 og á árunum 2003-2005.

* * *

Samkvæmt hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat var atvinnuleysi í Bretlandi 3,7% í apríl, 6,4% í Evrópusambandslöndunum 28 talsins og 7,6% í evrulöndunum 19.

* * *

Ágætur hagvöxtur

En það eru ekki aðeins jákvæðar fréttir af atvinnuleysi. Það er ágætur hagvöxtur í Bretlandi og nam hann 0,3% frá desember til febrúar. Fyrstu tölur benda til að hann sé 0,4% á fyrsta ársfjórðungi á evrusvæðinu og 0,5% í Evrópusambandslöndunum. Vert er þó að bíða eftir staðfestum tölum. Það sem þó vekur helst athygli er að nú er spáð slökum hagvexti í Þýskalandi, eða 0,5% fyrir allt árið.

* * *

Gengi breska pundsins lækkaði skarpt klukkutímana eftir að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar urðu ljós, eða um 12% gagnvart Bandaríkjadal. Pundið hefur sveiflast nokkuð eftir góðum og vondum fréttum og er þá ekki endilega allir sammála um hvað sé gott og vont.

* * *

Þolanleg verðbólga

Veiking pundsins hefur valdið verðbólgu undanfarin þrjú ár, sem hefur ekki verið fjarri verðbólgumarkmiði íslenska seðlabankans. Meðalverðbólga síðustu 12 mánuði í desember 2018 var 1,7% í Evrópusambandslöndunum en 1,6% í evrulöndunum. Hins vegar var hún 2,1% í Bretlandi. Hagvöxtur, lágt atvinnuleysi og stöðugt verðlag eru mikilvægir mælikvarðar og þegar á heildina er litið er ástand efnahagsmála mjög gott. Þrátt fyrir yfirvofandi Brexit.

* * *

Enginn skyldi gera lítið úr hinni pólitísku ólgu í Bretlandi, sem birst hefur í tvennum nýafstöðnum kosningum þar í landi, bæði til sveitarstjórna og Evrópuþings. En hún er mjög bundin við hið pólitíska svið. Þegar litið er til kannana um afstöðu fólks og væntinga um lífið og eigin hag, kemur í ljós að Bretar hafa sjaldan verið sáttari við sinn hlut.

* * *

Hvað Brexit varðar er enn deilt hart og sárafáir hvikað í afstöðu sinni til úrsagnar úr ESB til eða frá. Hin pólitíska ólga snýst þó enn frekar um það hvort stjórnmálastéttinni auðnist að framkvæma niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar fyrir þremur árum, því ef þar verða frekari hnökrar á er trúverðugleiki þingsins og í raun lýðræðisins sjálfs undir. Það kynni að verða stórkostlegri stjórnskipulegri breyting en nokkrum hefði komið til hugar að gerst gæti í Bretlandi, þar sem hefðir, stjórnfesta og stöðugleiki hafa jafnan verið í hærra haldi en flestum ríkjum öðrum.

* * *

Óðinn hefur enga trú á því að Bretland yfirgefi Evrópusambandið án einhvers konar samnings eða samninga. Viðskiptahagsmunir stóru ríkjanna í sambandinu eru einfaldlega of miklir og sérstaklega mikið í húfi um þessar mundir þegar meginlandið rambar á barmi evrukreppu, alþjóðaviðskipti öll í mikilli deiglu og niðursveifla í hagkerfum heimsins að líkindum þegar hafin. Bretland er stórt markaðssvæði, var fimmta stærsta hagkerfi heims árið 2018 ef miðað er við verga landsframleiðslu, minna en Þýskaland en stærra en Frakkland.

* * *

Mismunandi sýn á Evrópusambandið Bretar hafa frá inngöngu landsins árið 1973 haft aðra sýn á Evrópusambandið og framtíð þess en stofnríkin Þýskaland og Frakkland. Bretar hafa alltaf litið á Evrópusambandið sem viðskiptaog tollabandalag sem ekki þyrfti að verða að nánara samstarfi. En samstarfið varð nánara, miklu nánara, að sumu leyti íþyngjandi og mun kostnaðarsamara en lagt var upp með. Stjórnmálastéttin aðlagaði sig því að miklu leyti, en almenningur síður, og það var jú einmitt þess vegna sem meirihluti Breta afréð að þeir væru betur settir utan Evrópusambandsins og kaus þannig.

* * *

Það voru þó ekki aðeins efasemdir og andstaða við frekar Evrópusamruna, sem því réðu. Reynslan af Evrópusambandinu í fjármálakreppunni varð ekki til þess að auka álit á stjórnvísi leiðtoga þess, hvað þá ráðleysið við flóttamannavandanum og áhyggjur af lýðræðishallanum. Sífelld ásælni í aukin völd og fullveldi frá aðildarríkjunum skipti þar einnig máli.

* * *

Sennilega gerði það þó útslagið í margra huga þegar David Cameron, þáverandi forsætisráðherra sem barðist ötullega fyrir áframhaldandi aðild, fór bónleið til Brusselbúðar til leiðtogafundar ESB í febrúar 2016 til þess að fá fyrirheit um umbætur og tilslakanir, en bar nánast ekkert úr býtum.

* * *

Mikil togstreita

Þessi mikli munur á framtíðarsýn þessara þriggja evrópsku stórvelda hefur valdið togstreitu innan sambandsins. Þýskaland og Frakkland annars vegar og Bretland hins vegar hafa stefnt í mismunandi áttir. Því gæti Bretland orðið sterkara við það að Bretland yfirgefi sambandið. Hið sama ætti að eiga við um ESB, en nú þegar er farið að bera á mismunandi áherslum Frakka og Þjóðverja, svo það er nú alls ekki í hendi. Fyrir utan hitt að óvíst er að önnur aðildarríki ESB sætti sig við helmingaskiptastjórn hinna fornu fjanda sitt hvoru megin við Saxelfi.

* * *

Emmanuel Macron Frakklandsforseti, sem er alls ekki í mjög sterkri stöðu heima fyrir, hefur upp á síðkastið enn hert ræður sínar um hið nýja hlutverk Evrópu (þar sem hann augljóslega ætlar sjálfum sér nokkurt hlutverk!). Þar hefur hann talað um nauðsyn aukins og dýpri Evrópusamruna, sem sé nauðsynlegur eigi Evrópa að geta boðið heimsveldum á borð við Bandaríkin, Kína og Rússland byrginn. Hann getur auðvitað ekki talað um heimsveldismetnað fyrir hönd Evrópu, en það er vitaskuld það sem hann er að tala um. Þjóðverjar eru mun tregari til að tala á þeim nótum, bæði af sögulegum ástæðum, en sjálfsagt einnig vegna meira raunsæis á stöðu meginlandsþjóðanna.

* * *

Efnahagsniðursveifla er þegar hafin í Þýskalandi og ýmsar aðrar slæmar fréttir í vændum fyrir utan Brexit, en Bretar eru ein helsta innflutningsþjóð þýskrar vöru. Um efnahagsástandið í Frakklandi þarf ekki að fjölyrða, hvað þá ástandið meðal flestra Miðjarðarhafslanda ESB. Þá eru sérstök vandræði Ítalíu ótalin, sem segja má að rambi á barmi hengiflugs, og geta valdið óheftri evrukreppu fyrr en varir og jafnvel stefnt Þýskalandi í bráða hættu. Komi til slíkra áfalla munu Bretar ekki fara varhluta af þeim, en á móti yrðu þeir þá örugglega betur settir utan ESB en innan þess.

* * *

Hinn stóri heimur

Við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu verða þeir loks færir um að gera nýja viðskiptasamninga við önnur lönd. Undirbúningur vegna sumra þeirra er langt kominn - þar verður Ísland framarlega í röðinni! - þó vitaskuld séu þeir áhugasamari um samninga við meiri efnahagsveldi en okkur. Þar horfa menn ekki síst til Bandaríkjanna, en til þess var tekið í nýlokinni heimsókn Donalds Trump Bandaríkaforseta (sem átti breska móður), að hann lét ekkert tækifæri ónotað til þess að Bandaríkin biðu þess spennt að geta gert stóran og frábæran viðskiptasamning við Bretland og notaði um þau ýmis hástemmd lýsingarorð.

* * *

Sá áhugi er ekki nýr af nálinni, en sumir hafa jafnvel ámálgað að í fyllingu tímans gætu Bretar orðið aðilar að NAFTA, fríverslunarsamningi Norður-Ameríku. Að undanförnu hafa menn þó ekki síður rætt um CANZUK, sem væri nýtt efnahagssamband Kanada, Ástralíu, Nýja-Sjálands og Bretlands, gamalla samveldislanda, sem enn eru með mjög sterk tengsl sín á milli. Í því samhengi hafa menn litið víðar yfir og stungið upp á að aukin tengsl við Indland, næstöflugasta nýmarkaðsríki heims, hljóti að vera ofarlega á dagskrá.

* * *

Takist Bretum að treysta ný viðskiptasambönd yfir heimshöfin þarf vart að hafa áhyggjur af efnahag Bretlands utan Evrópusambandsins og eins og sakir standa virðist heimamarkaðurinn vel á sig kominn. Það hlyti jafnframt að verða meginlandsþjóðum Evrópu hvati til þess að semja við sína gömlu vini, granna og bandamenn, líkt og fullur vilji er til hjá Bretum. Brexit gæti því hæglega orðið til þess að styrkja hagsæld og framfarir í Bretlandi með eindregnum hætti og yrði síður en svo til þess að draga úr mikilvægi Lundúna sem fjármálamiðstöðvar heimsins.

* * *

En ef það skyldi nú ekki allt ganga jafn vel og vonast er til, þá verður Bretland að minnsta kosti ekki verr sett en Evrópusambandið næstu árin. Og til framtíðar? Þess eru engar líkur að Bretland og Evrópusambandið - lýðræðisleg og markaðssinnuð réttarríki; bundin blóðböndum og sameiginlegum varnarskyldum; aðskilin af 33 km breiðu sundi, sem bæði má synda yfir, sigla og fara undir í göngum - geti ekki fundið skynsamlegar leiðir til þess að eiga viðskipti með ost og bíla og fjármálaþjónustu.

* * *

Fram undan eru áhugasamir tímar fyrir Breta, örugglega ekki án áhættu, en mögulegur ávinningur er mikill. Það er engin stórkostleg hætta fólgin í því að fara úr tollabandalagi til fríverslunar, öðru nær.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: ESB Bretland
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.