*

laugardagur, 18. janúar 2020
Leiðari
15. mars 2019 13:19

Brexit og Ísland

Utanríkisráðherra hefur verið sérstakt keppikefli að gera Brexit áfallalaust fyrir íslenska hagsmuni og á hrós skilið.

epa

Brexit og Ísland  Það hefur verið raunalegt að fylgjast með vandræðagangi Breta vegna Brexit – úrgöngunnar úr Evrópusambandinu (ESB) – undanfarna daga, mánuði, misseri og ár. Þar í landi hefur lengi verið deilt um þátttökuna í Evrópusamstarfinu, einkum vegna þess að til þess var gengið meðan það var efnahagsbandalag, en Evrópusamruninn þróaðist skjótt til þess markmiðs að verða sambandsríki Evrópu. Sú deila snýst að talsverðu leyti um efnahagslega hagsmuni, en fyrst og síðast þjóðréttarleg efni.

Úrslitin árið 2016 voru þau að þjóðin valdi með naumum mun að ganga úr ESB, en það hefur gert úrsögnina hálfu erfiðari að þar er gjá milli þings og þjóðar. Á þingi er sem fyrr innan við þriðjungur þingmanna hlynntur úrgöngu og hin fálmkennda framganga ríkisstjórnar Theresu May hefur öll litast af því að forsætisráðherrann er aðildarsinni. Ekki hefur bætt úr skák að af hálfu Evrópusambandsins var samið af ýtrustu hörku, beinlínis með það að markmiði að refsa Bretum fyrir tiltækið og vera öðrum til viðvörunar.

Nú hefur úrgöngusamningur frú May, sem flestir segja aðeins úrgöngu að nafninu til, verið felldur í þinginu. Eins hefur samningslausri úrgöngu verið hafnað (þrátt fyrir að ESB hafi sagt að af þess hálfu verði samningarnar ekki teknir upp aftur) og sennilegast að óskað verði eftir frestun á úrgöngunni. Mikið efamál er að ESB fallist á slíka frestun.

Hvernig sem það fer virðist nú líklegast að annaðhvort frestist úrgangan um óráðinn tíma eða að Bretar fari úr ESB án samnings hinn 29. mars. Síðari kosturinn er raunar ekki jafnafleitur og aðildarsinnar hafa keppst við að lýsa, en verði úrgöngunni frestað og hún útþynnt enn frekar, blasir við að þjóðaratkvæðagreiðslan hefur að engu verið höfð og sjálft lýðræðið í uppnámi.

                                                          ***

Tengsl Íslands og Bretlands hafa frá fornu fari verið mikil og náin, mest í góðri sátt þó stundum hafi slest hressilega upp á vinskapinn. Það varðar mjög miklu – hvernig svo sem Brexit hverfist og snýst – að samskipti Íslands og Bretlands verði áfram hnökralaus. Það varðar ekki aðeins almenn samskipti við frændþjóð og góðan granna, heldur eru einnig til þess ríkar viðskiptalegar og efnahagslegar ástæður, auk hins að Lundúnir eru að miklu leyti hlið Íslendinga út í heim.

Það er lofsvert hversu vel íslensk stjórnvöld hafa sinnt því. Þegar árið 2017 kom út skýrsla utanríkisráðuneytisins um Ísland og Brexit, þar sem hagsmunir Íslendinga þar að lútandi voru greindir og í stjórnkerfinu hefur tíminn verið vel nýttur síðan. Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra hefur verið sérstakt keppikefli að gera Brexit áfallalaust fyrir íslenska hagsmuni og á hrós skilið fyrir árvekni og dugnað við að viðhalda óbreyttu ástandi milli ríkjanna.

Þar munar mestu um að réttindi borgaranna hafa verið tryggð með gagnkvæmum hætti og eins að flugsamgöngur verða óhaggaðar. Fleira er á döfinni, svo sem samningar um vöruviðskipti og mögulega um öryggis- og varnarmál, svo tveir veigamiklir þættir séu nefndir, en allt virðist það ganga skjótt og vel fram.

Fyrir Íslendinga kunna að felast tækifæri í Brexit. Meðal ráðstafana sem Bretar ráðgera, ef af samningslausri úrgöngu verður, er að taka einhliða upp fríverslun á sem flestum sviðum, til þess að milliríkjaverslun verði ekki fyrir neinni truflun. Af lekum úr breska stjórnkerfinu virðist sem að það muni einnig taka til fisks, sem getur breytt heilmiklu fyrir íslenskan sjávarútveg. Í því kann líka að felast veruleg stefnubreyting í milliríkjaviðskiptum, nú þegar einangrunarhyggja hefur færst í aukana.

Allir hafa ávinning af frjálsri verslun milli ríkja heims, ekki síst þjóð eins og Íslendingar, sem eiga allt undir aðföngum utan úr heimi og greiðum leiðum íslenskra atvinnugreina á erlenda markaði. Ísland á að leita fríverslunar og hafa frumkvæði að henni, íslenskum neytendum og atvinnulífi til góða, með góð, trygg og vinsamleg samskipti við aðrar þjóðir í kaupbæti.

Stikkorð: Brexit
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.