Ráðning nýs útvarpsstjóra hefur tekið tímann sinn og eftirvæntingin svo mikil, að sögð var frá því sérstök frétt í fyrradag að niðurstöðu væri senn að vænta, svona eins og innan tíðar myndi hvítur reykur liðast upp frá Efstaleiti til merkis um að kardinálarnir hefðu kjörið nýjan páfa. Svo kom fréttin, að stjórn Ríkisútvarpsins ohf. hefði samhljóða valið Stefán Eiríksson, borgaritara og fv. lögreglustjóra, til starfans. Á Twitter gantaðist einhver með það að jafnvel Mússólíní hefði ekki treyst sér til þess að setja lögreglustjóra yfir ríkisútvarpið þar.

Þó að Stefán hafi komið við á ýmsum stöðum í stjórnsýslunni, þá hefur hann sáralitla reynslu af fjölmiðlum og enga af menningarstofnunum. Hann var sumarmaður á Tímanum og á íþróttafréttadeild Morgunblaðsins á háskólaárunum á liðinni öld, en tæplega dettur nokkrum í hug að sú reynsla nýtist í nokkru við stjórn ljósvakamiðla nú.

Þetta bögglaðist greinilega talsvert fyrir stjórn RÚV, sem í tilkynningu sinni lagði gríðarlega áherslu á viðamikla þekkingu, reynslu og færni Stefáns í stjórnun og rekstri, en að hún hafi sérstaklega verið á höttunum eftir öflugum leiðtoga til að stýra RÚV inn í nýja tíma miðlunar.

Nú er það auðvitað rétt að Stefán hefur mikla reynslu úr stjórnsýslunni, þó tæpast taki allir undir að hún hafi öll verið til eftirbreytni. Þannig var ekki einstakur friður um hann í lögreglustjóraembættinu, hvað þá að reksturinn hafi verið til fyrirmyndar. Enn síður auðvitað eftir að hann fór til Reykjavíkurborgar, fyrst yfir velferðarsviðið og svo sem borgarritari og staðgengill borgarstjóra. Þar þótti mörgum embættismaðurinn seilast allt of langt inn á hið pólitíska svið, alveg svo að trúnaðarbrestur varð við kjörna fulltrúa, framganga hans í ýmsum málum svo sem braggamálinu var ekki til marks um gegnsæi og góða stjórnsýslu, en um fjármál og rekstur Reykjavíkurborgar er víst best að segja sem minnst, það er varla á skammdegisþunglyndi lesenda bætandi.

Svo það blasir nú hreint ekki við hvað stjórn RÚV ohf. var að fara með því að leggja þessa miklu áherslu á hæfileika hans í rekstri og stjórnun, en skiljanlegt að hún nefndi ekki í hverju þeir fælust. En jafnvel þó svo þeir væru miklir og óumdeildir, þá er vandséð hvernig þeir einir ættu að ráða vali hennar á útvarpsstjóra. Þeir dygðu vissulega til ráðningar á framkvæmdastjóra eða skrifstofustjóra RÚV, en hlutverk útvarpsstjóra er mun víðfeðmara, tekur einnig til dagskrár, fréttastofu, menningarhlutverks og alls hins sem skilur fjölmiðla og þá sérstaklega Ríkisútvarpið að frá öðrum fyrirtækjum og stofnunum.

Eða er stjórnin að segja að allt það skipti engu máli hjá því að fá vanan kontórista til þess að stýra sjoppunni? Að þeir hefðu allt eins getað fengið vegamálastjóra eða biskupsritara til þess að sjá um þetta og stýra ríkisfjölmiðlinum á einhverjum mestu umbrotatímum í fjölmiðlasögunni?! Nei, það sér hver maður að það er galið. En kemur kannski varla á óvart þegar horft er til værukærðar og fálætis stjórnarinnar um annað, svo sem fjárhagsflétturnar og hina svörtu skýrslu Ríkisendurskoðanda. Þessi fráleita röksemdafærsla fyrir ráðningunni er þá enn ein ástæðan fyrir því að stjórnin ætti að segja af sér. Samhljóða og samstundis.

***

Fyrir okkur eigendurna er hins vegar ómögulegt að segja til um hvort Stefán hafi virkilega verið hæfasti eða besti umsækjandinn (sem þarf ekki að vera hið sama). Stjórnin ákvað að halda leynd yfir umsækjendum, sennilega í trássi við lög, svo við getum ekkert um það vitað.

Það og hinn naumi rökstuðningur með allri þessari áherslu á stjórnunarreynsluna gerir svo öðrum umsækjendum mun erfiðara með að kæra ákvörðunina, telji þeir á sig hafa verið hallað. Það er ekki til fyrirmyndar hjá nokkru fyrirtæki, enn síður hjá opinberu fyrirtæki og allra síst hjá fjölmiðli, sem leggur alla áherslu á upplýsingu og gegnsæi, auk hins sérstaka hlutverks síns sem almenningsútvarp í þjóðareigu og þess vaðals alls.

***

Hins vegar má segja að það sé ákveðið áhyggjuefni að lesa það sem Stefán hefur haft að segja í kjölfar ráðningar sinnar. Fyrst sagði hann, hokinn af stjórnunarreynslu hjá hinu opinbera og velkunnugur upplýsingalögum, að hann hefði fullan skilning á því að stjórnin hafi kosið þetta pukur með umsækjendurna. Má búast við sömu leyndarhyggju í þeim ráðningum til RÚV sem Stefán mun gangast fyrir? Ennfremur lýsti hann þeirri skoðun sinni að óhyggilegt væri að taka RÚV af auglýsingamarkaði.

Er vel við hæfi að hann sé að gefa yfirlýsingar um það, alls ókunnur rekstrarumhverfi fjölmiðla eða fyrirferð ríkismiðilsins á samkeppnismarkaði, einmitt þegar það viðkvæma mál hefur verið til umfjöllunar bæði í stjórnsýslu og á pólitískum vettvangi? Góður kollega benti ennfremur á að Stefáni hefði verið talið það sérstaklega til tekna af stjórn RÚV, væntanlega með hliðsjón af „nýjum tímum miðlunar", að hann hefði sem lögreglustjóri beitt sér fyrir félagsmiðlavæðingu.

Nú er alls ekki útilokað að fréttastofan batnaði ef Biggi lögga yrði settur yfir hana, en þarna er stjórn RÚV á villigötum. Slíkar almannatengslaæfingar koma fjölmiðlun ekkert við. Eru henni jafnvel beinlínis andstæðar. Það er rétt hjá stjórninni að RÚV stendur frammi fyrir miklum breytingum, sakir ytri þróunar í fjölmiðlun.

Það kallar á allsherjarendurskoðun á erindi og umfangi RÚV, sem vart getur beðið miklu lengur. En það er menningarmálaráðherra að leggja drög að henni og Alþingis um að fjalla, ekki hinnar tómlátu stjórnar RÚV ohf. Og enn síður veltur það á hugmyndaauðgi og meintum stjórnunarhæfileikum hins nýja útvarpsstjóra. Einnar veigamikillar breytingar má þó vænta hjá Stefáni, sem er að áramótaávarp útvarpsstjóra komi aftur á dagskrá.

***

Fjölmiðlarýnir sá athyglisverða frétt um að Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) og Ríkisútvarpið hefðu hleypt af stokkunum þrigja ára verkefni með það fyrir augum að auka hlut kvenna í viðmælendahópi ljósvakamiðla, ekki síst á sviðum þar sem þótt hefur vanta konur með sérþekkingu í fréttir og fréttatengda þætti. Auk RÚV og FKA átti starfsfólk Stöðvar 2 og Hringbrautar hlut að máli, en í þessu skyni verða 12 konur þjálfaðar í húsakynnum RÚV í komandi viku.

Þar fá þær leiðsögn reynds fjölmiðlafólks og almannatengla, og fá tækifæri til að spreyta sig sem viðmælendur við raunverulegar aðstæður, bæði í útvarpi og sjónvarpi. Þátttakendur læra m.a. um framkomu í fjölmiðlum, undirbúning fyrir viðtöl, verður kennt að setja sig í spor fréttamanna til þess að sjá spurningar og svör betur fyrir, og fara loks í viðtöl í myndveri RÚV, sem svo verður farið yfir.

Þessar 12 konur voru valdar úr hópi liðlega 100 kvenna, sem sóttu um hjá FKA, en sérstök valnefnd tilnefndi þessar 12 með hliðsjón af því á hvaða sviðum helst þótti vanta viðmælendur og álitsgjafa. Þar var stuðst við könnun, sem FKA gerði meðal meðal frétta- og dagskrárgerðarmanna á ljósvakamiðlum, en þar voru nokkur sérsvið oftast nefnd. Sjávarútvegur og tæknimál voru efst á blaði, auk upplýsingatækni, upplýsingaöryggis, orkumála, íþrótta, viðskipta, nýsköpunar, vísinda og stjórnmála.

Til stendur að þjálfa fleiri konur á þennan hátt næstu þrjú ár. Þetta er ágætt framtak hjá FKA, vel til þess fallið að koma til móts við algengustu útskýringar eða viðbárur, sem fram koma þegar fundið er að kynjahalla í viðmælendahópi fjölmiðla. En hitt er öllu skringilegra, að fjölmiðlarnir taki svo virkan þátt í átakinu, þar sem 12 útvaldir álitsgjafar verða þjálfaðir í viðtalstækni við fjölmiðla, m.a. hvernig verjast megi óþægilegum spurningum, en við útskriftina kemst hópurinn svo á sérstaka skrá viðbúinna viðmælenda, þar sem eitthvað annað ræður valinu en fréttin sjálf eða hagsmunir almennings.

Með þessarri ábendingu er alls ekki verið að gera lítið úr umræddum konum, sérþekkingu þeirra eða erindi, hvað þá því að fjölmiðlar kappkosti að raddir kvenna heyrist í fréttum. En það er ástæða til þess að finna að því að fjölmiðlar taki beinan þátt í því að útnefna og þjálfa viðmælendur með þessum hætti, en skuldbindi sig jafnframt til þess að taka þá reglulega í viðtöl. Það ber meiri keim af sviðsetningu en fréttamennsku.