Sjálfbærni fyrirtækja snýst um að þau þekki áhrif sín á umhverfi og samfélag og jafnframt hvernig slík áhrif geti haft áhrif á starfsemi þeirra og rekstur. Í sjálfbærnivinnu fyrirtækja leitast þau við að draga úr neikvæðum áhrifum af starfsemi sinni og auka jákvæðu áhrifin. Því stærri fyrirtæki, því meiri eru áhrifin. Á árlegri janúarráðstefnu Festu í lok síðasta mánaðar fóru fram umræður um lagabreytingar sem eiga eftir að hafa grundvallarbreytingar í för með sér á stefnumótun í sjálfbærni og gagnsæi fyrirtækja varðandi áhrif sín á umhverfi og samfélag.

Samfélagsskýrslur og sjálfbærniskýrslur

Ársreikningalög gilda um upplýsingagjöf fyrirtækja um sjálfbærnivinnu þeirra og nefnist þar ófjárhagsleg upplýsingagjöf. Upplýsingarnar skal setja fram í skýrslu stjórnar en enn má einnig setja þær fram í svokölluðum sjálfbærniskýrslum, samfélagsskýrslum eða einfaldlega ársskýrslum fyrirtækja. Dæmi um sjálfbærnimál sem fyrirtæki fjalla um eru kolefnisspor þeirra, launamunur kynja innan fyrirtækisins, skattspor, starfsmannavelta, þjálfun starfsmanna og markmið þeirra í þessum efnum.

Lágmarksviðmið

Í dag veita lögin fyrirtækjum ákveðið svigrúm til að ákveða hvernig þau leggja mat á áhrif sín á umhverfi og samfélag og hvernig þau leitast við að stýra þessum áhrifum. Fyrirtæki hafa þannig valið ýmis alþjóðlega viðurkennd viðmið og staðla sem aðferðafræði við að leggja mat á þætti sem þau telja að hjálpi þeim að greina áhrif sín. Hér á landi er algengt að notast sé við staðla Global Reporting Initiative (GRI) og UFS leiðbeiningar Nasdaq.

Ruglandi stafrófssúpa?

Þegar fyrirtæki nota mismunandi viðmið og staðla, jafnvel með ólíkum áherslum, getur samanburður á upplýsingagjöf orðið krefjandi, jafnvel innan sömu atvinnugreinar. Ýmsir hagsmunaaðilar fyrirtækja, t.d. fjárfestar og hluthafar, hafa því í auknum mæli kallað eftir upplýsingum um ýmsa þætti frá fyrirtækjum til að auðvelda þeim að leggja mat á áhrif þeirra. Því hefur vaknað gagnrýni hjá fyrirtækjum á þessa aðferðafræði og kallað er eftir meiri samræmingu. Að auki er verið að herða á kröfum til fyrirtækja og fjárfesta að draga úr neikvæðum áhrifum sínum á þolmörk jarðar, t.d. loftslag og súrnun sjávar, sem skapa enda nýjar áhættur í starfsemi fyrirtækja. Þessar kröfur verða til á ýmsum vettvangi, t.d. ríkjaráðstefnum COP (síðast í Glasgow 2021), ráðgjafarnefnd um fjármálastöðugleika (Financial Stability Board), hjá ESB og hjá samtökum seðlabanka og eftirlitsaðila (Network for Greening the Financial System).

Breytt nálgun með nýjum reglum

Drög að nýjum reglum hafa verið kynnt hjá ESB og breytist heitið á upplýsingagjöfinni úr ófjárhagslegri upplýsingagjöf í sjálfbærniupplýsingagjöf. Mikið samráð á sér nú stað við útfærslu hinna nýju reglna við að gera kröfurnar ítarlegri og samræmdari. Helstu breytingar eru eftirfarandi:

  1. Þær ná til fimmfalt fleiri fyrirtækja, þ.e. allra skráðra fyrirtækja sem og fyrirtækja sem eftirfarandi tvennt af þrennu á við um: með veltu umfram €40 milljónir, eignir umfram €20 milljónir, starfsmenn fleiri en 250.
  2. Fyrirtæki birti skýrar upplýsingar um hvernig þau greini áhrif sín á umhverfi og samfélag og hvernig sjálfbærniþættir geta haft áhrif á fyrirtækið með ríka áherslu á sjálfbærniáhættur.
  3. Fyrirtæki skulu nota sjálfbærnistaðla ESB. Tekið er mið af þeim viðmiðum og stöðlum sem almennt eru notuð af fyrirtækjum í dag en fyrirtæki þurfa að búa sig undir breytingar.
  4. Staðfesting (e. assurance) eða tiltekinnar endurskoðunar á áreiðanleika sjálfbærniupplýsinganna verður krafist við skil þeirra til ársreikningaskrá.
  5. Sjálfbærniupplýsingarnar skulu vera rafrænar og þær mataðar inn í evrópskan gagnagrunn, öllum aðgengilegar.

Fleiri lagabreytingar í farvatninu

Fjármálageirinn hefur gríðarleg áhrif á umhverfi sitt og samfélag og Evrópusambandið hefur hafið innleiðingu reglna sem kalla á nýja vinnu banka, fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða og annarra fjárfesta. Felur hún í sér kröfur um að greina sjálfbærniupplýsingar fyrirtækja til að meta sjálfbærniáhættur í starfsemi þeirra sem hluta af áhættugreiningu við mat á fjárfestingum. Að hluta til spegla þessar reglur ofangreint um sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja en þessar breytingar munu breyta núverandi umhverfi verulega. Ekki er rými hér til að fjalla nánar um þessar breytingar en mikilvægt er að gera sér grein fyrir áhrifum þeirra.

Áskoranir og tækifæri í sjálfbærni

Hvað sem segja má um áhrif pólitíkur og tískustrauma á hlutverk og starfsemi fyrirtækja þá er ljóst að fyrirtæki þurfa að fóta sig í umhverfi þar sem upplýsingar um áhrif þeirra og áhættur í starfsemi þeirra eiga sífellt greiðari leið að hagsmunaaðilum, hvort sem um ræðir fjárfesta, viðskiptavini eða aðra sem hafa áhrif á tilveru þeirra. Þetta er áskorun fyrir stjórnendur og stjórnir fyrirtækja sem eru nú orðnar hluti af lögbundnum viðfangsefnum þeirra og kallar á nýja hugsun í rekstri og stjórnun fyrirtækja. Tækifæri geta hins vegar falist í því að nýta sér þá áhættustýringu sem felst í markvissri vinnu við að þekkja áhrif fyrirtækisins á umhverfi og samfélag til að draga úr neikvæðum áhrifum af starfseminni og auka þau jákvæðu.

Höfundur er lögmaður - höfundur leiðir ráðgjöf í sjálfbærni hjá LEX Lögmannsstofu.