*

föstudagur, 16. apríl 2021
Ævar H. Ingólfsson
13. mars 2021 13:43

Breytingar á staðgreiðsluskyldu vegna arðgreiðslu

Lagabreyting felur í sér aukinn hvata fyrir hlutafélög til að færa útgáfu hlutabréfa sinna í rafrænt form í uppgjörskerfi starfandi verðbréfamiðstöðva hér á landi.

Í maí mánuði 2020 samþykkti Alþingi lög nr. 33/2020 sem fólu í sér ýmsar breytingar á lögum um skatta og gjöld. Fór þar hæst afnám staðgreiðsluskyldu söluhagnaðar erlendra aðila af fjárfestingum í hlutabréfum íslenskra félaga sem og afnám staðgreiðslu af arðgreiðslum milli innlendra félaga með takmarkaða ábyrgð hluthafa.

Önnur breyting sem flaug lægra var breyting á afdráttar- og skilaskyldu fjármagnstekjuskatts af arðgreiðslum. Breytingin fól í sér að fjármálafyrirtækjum sem hafa í vörslu rafrænt skráð hlutabréf (t.a.m. öll hlutabréf sem skráð eru á skipulagðan verðbréfamarkað) ber nú skylda að halda eftir og skila til ríkissjóðs staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af arðgreiðslum, það er í þeim tilvikum þegar staðgreiðsluskylda er til staðar.

Hver eru áhrif breytingarinnar?

Skylda til að halda eftir og skila í ríkissjóð staðgreiðslu af fjármagnstekjuskatti tilkomnum vegna arðgreiðslu til aðila sem bera hér ótakmarkaða skattskyldu, t.a.m. einstaklinga, hvíldi áður á félaginu sem greiddi arðinn. Með ofangreindri breytingu á lögum nr. 94/1996 var þessi skylda færð yfir á fjármálafyrirtæki er varsla hlutabréfin, í þeim tilvikum þar sem bréfin hafa verið skráð rafrænni eignaskráningu.

Óhætt er að fullyrða að enn eru flest hlutafélög með hlutabréf sín útgefin á gamla mátann, á pappír. Framangreind breyting felur í sér aukinn hvata fyrir hlutafélög til að færa útgáfu hlutabréfa sinna í rafrænt form í uppgjörskerfi starfandi verðbréfamiðstöðva hér á landi. Þá má nefna að rafræn skráning hlutabréfa er eitt skilyrða sem félög á skipulögðum verðbréfamarkaði þurfa að uppfylla og fækkar þetta því skrefunum sem félög þyrftu að taka í átt að því að undirbúa skráningu á markað. Þá getur rafræn skráning gagnast vel félögum í eigu margra aðila.

Hvað með erlenda aðila?

Skylda til að halda eftir staðgreiðslu og skila í ríkissjóð fjármagnstekjuskatti af arðgreiðslum til aðila með takmarkaða skattskyldu hér á landi (t.a.m. erlendir aðilar) er tengjast hlutabréfaeign í innlendum félögum hefur um árabil verið til staðar hjá fjármálafyrirtækjum. Um það vísast til 2. mgr. 7. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Meginmunurinn á skila- og staðgreiðsluskyldunni vegna erlendra lögaðila er þó að skyldan vegna þessa hvílir til jafns á fjármálafyrirtækjum vegna milligöngu þeirra og félögunum sjálfum. Greiðendur arðs eru því ekki að fullu lausir við það að huga að staðgreiðslu- og skilaskyldu.

Arðgreiðsla og lækkun hlutafjár

Framangreind breyting fól í sér að 2. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1996 um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur hljóðar nú svo;

„Skylda til að draga staðgreiðslu af arði og skila í ríkissjóð hvílir á lögaðilum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Séu hlutabréf sem arður er greiddur af í vörslu innlends fjármálafyrirtækis, vegna rafrænnar skráningar hlutabréfanna í verðbréfamiðstöð, hvílir skylda til að draga staðgreiðslu af arði og skila í ríkissjóð á viðkomandi fjármálafyrirtæki.“

Séu hlutabréf sem arður er greiddur af í vörslu innlends fjármálafyrirtækis, vegna rafrænnar skráningar hlutabréfanna á skipulegan markað, hvílir skylda til að draga staðgreiðslu af arði og skila í ríkissjóð á viðkomandi fjármálafyrirtæki.

Að þessu tilefni er mikilvægt að skoða hvað teljist til arðgreiðslu. Í 11. gr. tekjuskattslaga nr. 90/2003 er fjallað um hvað teljist til skattskylds arðs. Auk venjulegrar og hefðbundinnar arðgreiðslu eru ýmis tilvik talin upp, þar sem skoða skal tilteknar greiðslur sem arðgreiðslur í skilningi skattalaga. Samkvæmt 4. mgr. fyrrnefndrar 11. gr. telst til skattskylds arðs lækkun hlutafjár, sem er greidd út til hluthafa, umfram kaupverð hlutanna. Felur það í sér að upplýsingar um stofnverð hlutabréfanna þurfa að liggja fyrir svo fjármálafyrirtæki geti haldið eftir réttum fjármagnstekjuskatti í staðgreiðslu. Á þetta reynir þegar félög taka ákvörðun um að færa niður hlutafé með greiðslu til hluthafa.

Ljóst er að það getur reynst fjármálafyrirtækjum þrautinni þyngri að finna út stofnverð hlutabréfa í eigu allra einstaklinga sem varsla hlutabréfin hjá fyrirtækinu, enda hefur ekki fyrr en nú verið ástæða fyrir fjármálafyrirtækin að halda utan um þessar upplýsingar. Í tilvikum þar sem þessar upplýsingar liggja ekki fyrir virðist það því vera svo að fjármálafyrirtækin þurfi að velja annan tveggja kosta; a) afla upplýsinga um stofnverð frá hverjum og einum hluthafa eða b) halda eftir staðgreiðslu miðað við að stofnverð hlutabréfa aðilans sé 0 kr. og halda þannig eftir staðgreiðslu af allri fjárhæðinni.

Ljóst er að þær breytingar sem hafa verið raktar hér að framan ættu að auka hvata tiltekinna félaga til að skrá hlutabréf sín rafrænni skráningu. Þá er um að ræða fagnaðarefni fyrir þau félög sem nú þegar hafa gefið út hlutabréf sín rafrænt, t.a.m. íslensku félögin í Kauphöllinni. Breytingum fylgja þó stundum óþægindi og er ljóst að þessi skylda gerir fjármálafyrirtækjum erfitt um vik til að byrja með. Undirritaður hefur þó ekki trú á að þessi lagabreyting skapi vandamál til lengri tíma og muni að endingu hafa það í för með sér að betra utanumhald verði um stofnverð hlutabréfa hjá einstaka fjárfestum.

Höfundur er lögfræðingur hjá KPMG Law.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.