*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Ásta Sóllilja
1. apríl 2020 07:45

Breytingar á tímum kórónuveirunnar

Kreppan árið 2008 framkallaði deilihagkerfið. Ný tækifæri skapast nú á tímum kórónuveirunnar.

EPA

Ef rýnt er í mannkynssöguna má sjá að stór og óvænt áföll svo sem náttúruhamfarir, fjármálahrun og farsóttir móta samfélög og söguna sjálfa. Við Íslendingar þekkjum hvernig Skaftáreldar sem hófust 1783 ollu ekki einungis móðuharðindunum á Íslandi heldur veðurfarsbreytingum og uppskerubresti á meginlandi Evrópu og leiddi nokkrum árum síðar til frönsku byltingarinnar. Þannig mótuðu þessar náttúruhamfarir stjórnarfyrirkomulag og leystu úr læðingi hugmyndir um frelsi og réttindi sem við njótum enn í dag.

En breytingar í kjölfar áfalla þurfa ekki allar að vera róttækar eða risavaxnar. Hægt er að benda á fjöldann allan af breytingum í kjölfar áfalla sem eru hugsanlega minniháttar í sögulegu samhengi en hafa samt veruleg áhrif á daglegt líf fólks.

Þegar Íslendingar panta sér varning af kínversku netversluninni AliExpress þá leiða fáir hugann að því að fyrirtækið tvíefldist í Asíu í kjölfar SARS farsóttarinnar 2002 til 2004 og byggði á þeim sterka grunni þegar það lagði undir sig stóran hluta af netviðskiptum heimsins.

Efnahagskreppan í kjölfar fjármálahrunsins 2008 framkallaði það sem við þekkjum í dag sem deilihagkerfið. Neytendur sem höfðu lítið milli handanna sóttust eftir ódýrari lausnum sem fyrirtæki á borð við AirBnb komu til móts við.

Nú á fyrstu vikum COVID-19 faraldursins sjáum við strax miklar breytingar á því hvernig fólk sækir sér heilbrigðisþjónustu, menntun, heldur fundi og fjölskylduboð og verslar í matinn.

Huganlega munu sumar af þessum breytingum ganga til baka þegar farsóttin er liðin hjá. Það verður hins vegar fróðlegt að sjá hvaða breytingar munu hafa langtíma áhrif og enn áhugaverðara að fylgjast með hvaða bylgju nýsköpunar COVID-19 faraldurinn leysir úr læðingi.

Höfundur er viðskiptaþróunarstjóri hjá Auðnu tæknitorg.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.