*

sunnudagur, 29. nóvember 2020
Þóra Þorgeirsdóttir
11. september 2019 10:10

Breytt hugarfar til vinnu

„Af hverju þurfum við að mæta á vinnustað og vinna 8 tíma á dag þegar við getum flest unnið hvar og hvenær sem er?“

epa

Við lifum á spennandi tímum. Tæknin hefur gjörbreytt vinnustöðum samtímans. Við erum sífellt nettengd, við sendum og fáum tölvupóst á öllum tímum dags, erum í sambandi við samstarfsfólk á samfélagsmiðlum og spjallforritum, getum nálgast flest gögn sem við þurfum án þess að koma nálægt vinnustaðnum, tekið þátt í fjarfundum og fylgst með nýjungum á okkar sviði án þess að hitta nokkurn einasta mann. Við getum unnið hvar sem er og hvenær sem er. Á sama tíma erum við samt langflest enn að vinna samkvæmt vinnuskipulagi frá því í iðnbyltingunni þar sem starfsfólk situr hlið við hlið á vinnustað 8 tíma á dag, 40 tíma á viku og 160 tíma á mánuði. Og eitt helsta umræðuefnið seinustu misseri hefur verið að stytta vinnuvikuna til að þessi tími sé nú ekki alveg svona langur.

Stóra spurningin er af hverju þurfum við að mæta á vinnustað og vinna 8 tíma á dag þegar við getum flest unnið hvar sem er og hvenær sem er? Ef ég er hvort sem er að svara tölvupósti á kvöldin eða snemma á morgnana af hverju er þá ætlast til að ég sé á vinnustaðnum milli 9 og 17? Því miður er það enn afar algengt að árangur starfsmanna sé mældur út frá viðveru á vinnustað og ef við erum ekki þar getur það þýtt að skuldbinding okkar við starfið er dregin í efa. Við þurfum jú að skila okkar 8 tímum því annars erum við ekki að standa okkur.

Þessu þarf að breyta. Við þurfum að hætta að hugsa í klukkutímum og í staðinn horfa á útkomu og árangur í starfi. Það sem skiptir jú lykilmáli í rekstri er það sem út úr vinnunni kemur, ekki hvenær eða hvar vinnan fór fram eða hversu langan tíma hún tók. Í tæknivæddu samfélagi nútímans á vinna ekki að snúast um stað og tíma, heldur þann árangur sem þarf að ná, hvort sem slíkur árangur er mældur í því að kenna kennslustund, að tryggja að vegaframkvæmd sé lokið á tilætluðum tíma eða markaðssetning á vöru sé árangursrík, svo dæmi séu tekin. Þó að sum störf geri vissulega ríkari kröfur til viðveru á vinnustað en önnur, t.d. störf í umönnun eða þjónustu, þá er jafnvel þar svigrúm til staðar ef unnið er innan þeirra marka sem eðli slíkra starfa setur.

Það að hætta að hugsa vinnu í klukkustundum krefst mikillar hugarfarsbreytingar og umbreytingar á vinnustaðarmenningu og stjórnunarstíl. Slík umbreyting felur í sér stóraukna áherslu á að efla starfsfólk, veita því sjálfræði og ábyrgð og treysta því til að sinna sínum verkum á þann hátt sem hentar best. Slík umbreyting felur einnig í sér að vera leiðtogi sem leggur línur um endanlega afurð en festist ekki í smáatriðum um hvernig slík afurð á að verða til, né heldur hvar, hvenær eða hversu langan tíma tekur að vinna að henni. Ef starfsmaður er búinn að ná sínum skilgreinda árangri eða markmiði á hádegi á föstudegi er ekkert að því að hann fari heim – vinnan er jú ekki mæld í klukkustundum heldur þeim árangri sem er náð. Hver og einn starfsmaður axlar ábyrgð á sínum verkefnum og kemur þeim áfram á þann hátt sem hentar best.

Staðreyndin er sú að breyttir tímar kalla á breytt hugarfar. Þess vegna er gífurlega mikilvægt að endurhugsa það hvernig við skilgreinum vinnuna.

Höfundur er viðskiptastjóri hjá Maskínu, lektor við Háskólann á Bifröst og með doktorsgráðu í mannauðsstjórnun. frá Cranfield háskóla í Bretlandi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.