*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Leiðari
4. apríl 2015 11:35

Brotalamir brotaforðans

Það er í raun ótrúlegt hversu bláeyg skýrslA um nýtt peningakerfi er varðandi hvata sem verða til fyrir stjórnmálamenn.

Frosti Sigurjónsson.
Haraldur Guðjónsson

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, kynnti í gær skýrslu um endurbætur á íslenska peningakerfinu, þar sem farið er yfir ákveðna þætti við það banka- og peningakerfi sem við búum við og gagnrýniverða má telja.

Áður en lengra er haldið er rétt að fagna útgáfu skýrslunnar því grundvallaratriði eins og þau sem þar er farið yfir eru allt of sjaldan rædd. Gengið er út frá því að núverandi kerfi eigi ekki að breyta að því er virðist af þeirri ástæðu einni að þannig hafi hlutirnir alltaf verið. Gagnrýni sú sem snýr að svokölluðu brotaforðakerfi (e. fractional reserve banking) er góðra gjalda verð. Þetta kerfi gerir það að verkum í einföldu máli að víxlverkun inn- og útlána hjá bönkum margfaldi magn peninga í umferð án beinnar aðkomu Seðlabankans og getur því leitt til þess að peningamagn eykst umfram það sem grunnþættir hagkerfisins kalla á og leiði því til verðbólgu.

Þessi gagnrýni er ágæt svo langt sem hún nær, en lausnin sem mælt er fyrir um í skýrslunni vekur upp fleiri spurningar en hún svarar. Í stuttu máli felst þessi hugmynd um „þjóðpeningakerfi“ það í sér að öll veltiinnlán í bankakerfinu verði færð í Seðlabankann, en bankar gætu framvegis aðeins boðið upp á bundin innlán. Peningaprentunarvaldið, bæði varðandi beinharða peninga og innlán, væri hjá Seðlabankanum, sem myndi skapa peninga í nægu magni til að mæta þörfum vaxandi hagkerfis. Ákvarðanir um peningamyndun væru teknar af sjálfstæðri peningamagnsnefnd sem væri óháð stjórnvöldum.

Nýir peningar sem Seðlabankinn býr til eru færðir á færslureikning ríkissjóðs. Um leið eignast Seðlabankinn jafn háa kröfu á ríkissjóð sem ber enga vexti og e r án afborgana. Í stað þess að lána nýja peninga í umferð eins og bankar gera í dag, geta stjórnvöld sett nýja peninga í umferð með því að auka ríkisútgjöld, lækka skatta, lækka ríkisskuldir eða dreifa peningunum jafnt á skattgreiðendur eða hvern íbúa í landinu.

Það er í raun ótrúlegt hversu bláeyg skýrslan er varðandi hvatana sem þarna verða til fyrir stjórnmálamenn á meðan einblínt er á neikvæð áhrif gírugra bankamanna á peningamagn í umferð.

Í skýrslunni er gagnrýni á þjóðpeningakerfi svarað í nokkrum punktum. Þar má m.a. lesa: „Ef Seðlabankinn býr til svo mikla peninga að verðbólga geri vart við sig myndast tap hjá þeim sem eiga peninga. En ef Seðlabankinn býr aðeins til nægilegt magn peninga til að mæta þörf vaxandi hagkerfis þá tapar enginn.“ Þarna eru nokkur stór „ef“ á ferðinni.

Á öðrum stað segir: „Peningamagnsnefnd sem hefur hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi getur líklega tekið betri ákvarðanir um peningamagn en hagnaðardrifnir bankar hafa gert undanfarna áratugi.“ Full mikið traust er þarna borið til óhæðis nefndarinnar.

Hafi bankar farið fram úr sér í peningaprentun þá er það vegna þess að þeir hafa notið fulls stuðnings seðlabanka heimsins við þá prentun. Innstæður þeirra eru tryggðar og þeir hafa nær ótakmarkað aðgengi að lausu fé hjá seðlabönkum heimsins, ekki síst í formi þrautavaralána sem veitt eru þegar bankarnir eru komnir í ógöngur. Stæðu seðlabankar ekki svo þétt við bak einkabankanna væri peningamargföldun þeirra langt frá því að vera það vandamál sem menn telja það vera nú. Raunveruleg lausn á vandanum sem Frosti vill leysa fælist í því að minnka til muna hlutverk ríkisins á fjármálamarkaði í stað þess að þjóðnýta innstæður landans.

Stikkorð: Leiðari
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.