*

mánudagur, 18. janúar 2021
Týr
29. nóvember 2020 13:09

Brynjar fær skróp í kladdann

Brynjar Níelsson hefur óskað eftir því að hætta í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og viljandi skrópað nefndarfundi á liðnum vikum.

Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Haraldur Guðjónsson

Í lok ágúst fjallaði Týr um að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi myndi fyrr en síðar taka yfir þær þrjár nefndir sem minnihlutinn stýrir; stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og umhverfis- og samgöngunefnd og velferðarnefnd. Enn hefur ekkert gerst í þeim málum þó að þingflokkar meirihlutans hafi lagt upp með það fyrr í haust. Þeir sitja því uppi með stöðu þar sem stjórnarandstaðan getur, á kosningavetri, gert stjórnarmeirihlutanum lífið leitt. Það er engin ástæða til annars en að ætla að minnihlutinn nýti þá forgjöf eins og hægt er.

                                                    ***

Ein af þessum nefndum er stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hvar Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, er nú formaður. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gegndi formennsku á fyrri hluta kjörtímabilsins og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, frá 2019 og þar til hún vék til hliðar eftir að hafa fyrst þingmanna gerst brotleg við siðareglur Alþingis.

                                                    ***

Allir þeir sem fylgjast með stjórnmálum vita að störf nefndarinnar eru að miklu leyti skrípaleikur. Fáir þingmenn taka störf nefndarinnar alvarlega, ráðherrar líta á það sem tímasóun að koma fram fyrir nefndina og þeir starfsmenn ráðuneyta og stjórnsýslustofnana sem það þurfa að gera vinnu sinnar vegna ganga flissandi út. Fyrir utan það að nota nefndina til að koma höggi á pólitíska andstæðinga eru þau fá málin sem nefndin tekur fyrir sem raunverulega skipta máli, enda fara stjórnarfrumvörp til annarra fastanefnda.

Sem dæmi má nefna að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur á undanförnum vikum fjallað um „valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana“. Til hvers? Nefndin hefur ekkert um málið að segja og nýtt frumvarp að sóttvarnalögum verður sent til velferðarnefndar. Fyrir utan það að fjalla um mögulega stofnun þjóðhagsstofnunar er nefndin nú með til umfjöllunar frumvarp að nýjum stjórnskipunarlögum. Af 105 umsagnarbeiðnum hafa aðeins 11 séð ástæðu til að svara.

                                                    ***

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur óskað eftir því að hætta í nefndinni og viljandi skrópað nefndarfundi á liðnum vikum. Það þurfa allir að takast á við leiðinleg verkefni og eftir tilvikum leiðinlega samstarfsfélaga. Það þurfa samt allir aðrir að mæta í vinnuna. Það kunna að vera rök fyrir því að sá sem á annað borð kann og skilur alvöru lögfræði nenni ekki þessari vitleysu, en að mati Týs gefur það Brynjari ekki rétt á að skrópa.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Brynjar Níelsson
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.