*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Leiðari
22. maí 2020 13:45

Brýnt að bankakerfið verði skilvirkt

Vaxtalækkanir Seðlabanka Íslands þurfa að skila sér alla leið til fyrirtækja og heimila.

Haraldur Guðjónsson

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í gær að lækka vexti bankans um 0,75 prósentustig. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 1%. Stýrivextir Seðlabankans hafa aldrei verið lægri. Þá greindi nefndin frá því að ákveðið hefði verið að hætta að bjóða upp 30 daga bundin innlán. Á það að leiða til þess að meginvextir bankans verði virkari og vaxtaskilaboðin skýrari.

Vaxtalækkunin í gær var sú þriðja síðan heimsfaraldurinn skall á. Þann 11. mars voru vextirnir lækkaðir úr 2,75% í 2,25% og þann 18. mars voru þeir lækkaðir í 1,75%. Þess má geta að fyrir ári stóðu vextirnir í 4,5%. Það hefur því mikið vatn runnið til sjávar síðan þá.

Þessi myndarlega lækkun nú var bæði tímabær og jákvæð. Seðlabankastjóri útilokar heldur ekki frekari lækkun. Í Viðskiptablaðinu dag lýsir hann því yfir bankinn sé reiðubúinn að lækka vexti enn frekar verði þess þörf en slík ákvörðun muni velta á efnahagsbatanum. Næsta vaxtaákvörðun er ekki fyrr en í ágúst samkvæmt birtingaráætlun Seðlabankans en miðað við þá djúpu kreppu sem framundan er þá er alls ekki ólíklegt að bankinn muni grípa fyrr inn í. Svigrúm til þess að beita vaxtalækkunum til að vega upp á móti fádæma samdrætti í efnahagslífinu er fyrir hendi, þar sem verðbólga hefur verið lítil og verðbólguvæntingar haldist við verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Nú er afar brýnt að bankakerfið verði skilvirkt svo vaxtalækkunin skili sér alla leið til fyrirtækja og heimila. Fjölmörg fyrirtæki eru nákvæmlega núna að endurskipuleggja reksturinn í kjölfar áfallsins sem dunið hefur yfir vegna heimsfaraldursins og það sama má segja um heimilin. Hægt er að taka undir með seðlabankastjóra sem segir að það sem mestu máli skipti núna sé að koma innlendri eftirspurn af stað. Í gær greindi Seðlabankinn einnig frá nýrri þjóðhagsspá sinni en samkvæmt henni gerir bankinn ráð fyrir 8% samdrætti á þessu ári og 5% hagvexti á því næsta. Undanfarna daga hafa bankarnir, sem og Samtök atvinnulífsins (SA) og Viðskiptaráð Íslands birt sínar spár og í samanburði við þær þá gætir óneitanlega ákveðinnar bjartsýni í Svörtuloftum. Landsbankinn spáir 9% samdrætti á árinu og 5% hagvexti á því næsta. Íslandsbanki spáir 9,2% samdrætti á þessu ári og 4,7% hagvexti á því næsta.

SA og Viðskiptaráð skera sig nokkuð úr en samkvæmt þeirra greiningu verður samdrátturinn á bilinu 8 til 18% á þessu ári. Grunnsviðsmyndin miðar við 13% samdrátt en þá er gert ráð fyrir nær engum erlendum ferðamönnum. Verði þetta raunin mun landsframleiðsla á mann fara aftur á sama stig og árið 2012. Með öðrum orðum þá mun allur sá mikli ávinningur sem náðst hefur frá bankahruni nánast að engu verða. Í þessu samhengi má benda á að í Bandaríkjunum er talað um 2. áratug þessarar aldar sem „glataða áratuginn“. Rætist spá SA og Viðskiptaráðs verður hægt að nota þetta sama orðalag á Íslandi.

Við skulum vona að seðlabankastjóri hafi rétt fyrir sér þegar hann segir að Íslendingar séu komnir lengra í hagstjórn en áður. Eins og staðan er nákvæmlega núna virðist svo vera en á sama tíma er óvissan gríðarleg og verkefnið flókið. Við slíkar aðstæður er brýnt að hafa skýra sýn, bæði til skamms tíma en ekki síður lengri.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.